141. löggjafarþing — 103. fundur,  14. mars 2013.

náttúruvernd.

429. mál
[14:40]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta um.- og samgn. (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi skilgreiningarnar og þá þætti sem eru óskýrir í lögunum vil ég taka það fram að við vinnslu málsins í nefndinni var formaðurinn mjög fús til að verða við beiðnum um að fá gesti fyrir nefndina. Þeir gestir sem komu höfðu þau áhrif að mörg atriði voru löguð eins og formaður nefndarinnar kom inn á í framsöguræðu sinni. Engu að síður gafst ekki nægilega mikill tími til að ræða málið efnislega eftir að gestakomu lauk til að kafa betur ofan í einstök atriði eins og hefði þurft að gera. Það er meðal annars þess vegna sem við leggjum til að málinu verði vísað aftur til ríkisstjórnarinnar og tekið verði mið af þessum athugasemdum. Við höfum áhyggjur af því að enn séu mörg óljós atriði í frumvarpinu sem muni valda ágreiningi og öðru slíku sem hægt sé að koma í veg fyrir.

Varðandi stjórnsýslumálin almennt og náttúrustofur þá er hægt að lýsa því þannig að Samtök náttúrustofa sendu inn umsögn um málið og gagnrýndu að ekki væri tekið nægilegt tillit til starfsemi þeirra. Forsvarsmenn nokkurra náttúrustofa komu síðan á fund nefndarinnar þar sem þetta var rakið enn frekar og farið betur ofan í það. Það var þar sem þeir héldu því fram að verið væri að skrifa náttúrustofurnar út úr þessum lögum, að þetta væri ekki í samræmi við þau lög og þá hugsun sem upphaflega hefði verið um verkaskiptingu milli Náttúrufræðistofnunar Íslands og náttúrustofa.

Það hefði þurft að taka meira á þessum þætti. En ég held að undir niðri skynji maður, bæði hjá Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofum, ákveðna togstreitu um verkefni. Það er togstreita á milli þessara stofnana og þar á löggjafinn að skera á og hann á að gera það þegar hann setur lög um náttúruvernd. Ég er á þeirri skoðun að við eigum að stórauka starfsemi náttúrustofanna (Forseti hringir.) og gefa þeim aukið vægi, auknar fjárveitingar og aukið sjálfstæði.