141. löggjafarþing — 103. fundur,  14. mars 2013.

náttúruvernd.

429. mál
[14:43]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég þakka þetta svar. Ég hef áhyggjur af því að það sé mat forsvarsmanna náttúrustofa að þetta dragi úr umsvifum þeirra. Það er eðlilegt að forstöðumenn stofnana reyni að standa vörð um þá starfsemi sem þeim hefur verið falin, þegar þeir voru skipaðir í embætti, en það er annað mál hversu raunsætt mat þeirra er á því hvort verið sé að veikja grunn þeirra stofnana með frumvörpum sem lögð eru fram eða í lögum.

Við sjáum þetta líka eiga sér stað í samskiptum Umhverfisstofnunar og Náttúrufræðistofnunar Íslands, þar er bítingur um verkefni. Mér sýnist, og ég spyr hv. þingmann hvort sá sé líka skilningur hans, að sá bítingur hafi leitt til þess að verkefni þessara tveggja stofnana séu farin að skarast þannig að við gætum lent í því að stofnun verði falið hvort tveggja í senn eftirlit og úrskurðir í málum sem lúta að starfssviði því sem lögin marka þeim.