141. löggjafarþing — 103. fundur,  14. mars 2013.

náttúruvernd.

429. mál
[14:44]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta um.- og samgn. (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst aðeins að náttúrustofum en ég held að sú gagnrýni sem þar birtist eigi við rök að styðjast. Ef maður skoðar þau lög sem náttúrustofurnar vitna til og eiga að fjalla um starfsemi þeirra og les síðan umsagnir þeirra og hlýðir á málflutning þá held ég að þarna sé eitthvað sem eigi að taka til skoðunar og að grípa eigi inn í. Náttúrufræðistofurnar komu með ákveðnar hugmyndir þar að lútandi, meðal annars um ákveðin verkefni, að þeim væri formlega ætlað meira hlutverk en gert er í þessum lögum.

Varðandi Umhverfisstofnun og Náttúrufræðistofnun, að stjórnsýsla sé þar farin að skarast, þá tek ég undir það með hv. þingmanni. Maður hefur á tilfinningunni að ákveðnir þættir, sem eru að flytjast frá Umhverfisstofnun yfir til Náttúrufræðistofnunar, séu farnir að skarast. Ég kom vel inn á það í nefndaráliti mínu að þarna er eðlilegt að verkefnin séu fremur hjá Umhverfisstofnun en hjá Náttúrufræðistofnun (Forseti hringir.) Íslands, þannig að Náttúrufræðistofnun Íslands sitji ekki báðum megin við borðið þegar kemur að leyfisveitingum, þátttöku í því, og öðru slíku.