141. löggjafarþing — 103. fundur,  14. mars 2013.

náttúruvernd.

429. mál
[14:51]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta um.- og samgn. (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fór yfir það áðan í andsvari við hv. þm. Kristján Þór Júlíusson að sá sem hér stendur hefur ekkert við vinnslu nefndarinnar á málinu að athuga. Sú vinnsla var mjög góð, málefnaleg og yfirgripsmikil. Það var orðið við öllum beiðnum varðandi gesti, en þetta er stórt mál og það hefði þurft meiri tíma til að geta rætt einstök efnisatriði. Ég fór mjög vel ofan í þáttinn sem sneri að akstri utan vega en frumvarpið tekur til mun fleiri þátta og einmitt þess vegna leggjum við til að þessu máli verði vísað aftur til ríkisstjórnarinnar. Það er búð að fá góða umfjöllun í nefndinni en það þarf að vinna málið aftur og taka mið af þessum athugasemdum. Síðan getur það komið hér fram á nýjan leik þegar búið verður að grípa inn í hvað þessar athugasemdir varðar.

Varðandi aksturinn utan vega ítreka ég það sem kom fram í máli mínu áðan, miðað við breytingartillögur og miðað við lestur frumvarpsins um landbúnaðarstörf (Forseti hringir.) er í raun verið að banna þar algjörlega akstur utan vega.