141. löggjafarþing — 103. fundur,  14. mars 2013.

náttúruvernd.

429. mál
[14:53]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta um.- og samgn. (Birgir Ármannsson) (S):

Hæstv. forseti. Eins og fram hefur komið hjá fyrri ræðumönnum í dag er um að ræða yfirgripsmikið mál sem hefur á ýmsum stigum verið töluvert umdeilt og er það að sönnu enn, eins og endurspeglast í þeirri umræðu sem hér á sér stað. Forsaga málsins er auðvitað, eins og gerð hefur verið grein fyrir, gerð hvítbókar og margra ára vinna sem fram hefur farið á vegum umhverfisráðuneytisins. Eins og fram kemur í nefndaráliti sem ég hef hér lagt fram ásamt hv. þm. Árna Johnsen er margt gott í þeirri vinnu. Það má hrósa henni að mörgu leyti.

Vegna orðaskipta hv. þingmanna Ólínu Þorvarðardóttur og Ásmundar Einars Daðasonar áðan verð ég þó að halda því til haga að bæði í skriflegum umsögnum sem umhverfis- og samgöngunefnd hafa borist og eins í ummælum mjög margra þeirra sem komu sem gestir fyrir nefndina hefur verið kvartað undan skorti á samráði á undirbúningsstigi. Margir þeirra sem um það hafa tjáð sig hafa tekið þannig til orða að samráðið að því marki sem það hafi farið fram hafi fyrst og fremst verið fólgið í einhliða kynningum af hálfu ráðuneytisins og þeirra sem voru á þess vegum.

Ég held að það sé ekki tilviljun að mikill fjöldi mjög ólíkra aðila gerir athugasemdir við þennan þátt þannig að ég held að það sé nokkuð sem þarf að taka til umhugsunar og þarf að taka alvarlega að jafnólíkir aðilar og hagsmunasamtök í atvinnulífinu eða hagsmunasamtök landeigenda og á hinn kantinn útivistarhópar og ferðaklúbbar kvarta yfir slíku. Þeir sem við höfum heyrt í um þetta efni eru allt saman aðilar sem koma að þessum málum með veigamiklum hætti. Ég held að við getum ekki alveg horft fram hjá því að eitthvað kunni að vera til í máli þeirra hvað varðar þennan skort á samráði.

Í nefndaráliti okkar hv. þm. Árna Johnsens vitnum við meðal annars í nefndarálit meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar og gerum orð meiri hlutans að okkar hvað það varðar, þ.e. ábendingu frá meiri hlutanum sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Virðist ljóst að vinna þarf í framtíðinni að miklu nánari tengslum umhverfisyfirvalda, stjórnmálamanna sem láta umhverfismál til sín taka, hagsmunasamtaka, margvíslegra áhugahópa og alþýðu allrar til þess að sem ríkust samstaða náist um breytingar af því tagi sem hér um ræðir.“

Þetta eru orð að sönnu og við tökum undir að það er mikilvægt að það gerist. Það er alveg ljóst miðað við þau viðbrögð sem þetta frumvarp fékk að ekki hafði tekist í aðdraganda þessa máls að ná þeirri samstöðu sem hér er vísað til.

Hv. þingmenn hafa haft tækifæri til að kynna sér umsagnir fjölmargra aðila um þetta. Þá er ég að tala um ólíka aðila, t.d. aðila sem við getum orðað svo að séu hefðbundnir gagnrýnendur breytinga á umhverfislöggjöf, svo sem þeir sem standa hvað mest fyrir framkvæmdum í landinu. Þá erum við að tala um aðila eins og orkufyrirtæki, Vegagerðina, jafnvel sveitarfélög sem eru gagnrýnin á þetta frumvarp eins og reyndar mörg önnur frumvörp sem komið hafa frá ráðuneyti hæstv. umhverfisráðherra. Það eru líka mjög ólíkir aðilar sem hafa haft verulegar athugasemdir við þetta. Við sjáum athugasemdir frá, eins og ég segi, samtökum útivistarfólks, skógræktarmönnum og fjöldamörgum öðrum sem ekki mundu teljast til hefðbundinna gagnrýnisradda í þessu sambandi.

Í nefndaráliti okkar hv. þm. Árna Johnsens segir um þetta að öllum megi ljóst vera að mikilvæg löggjöf á sviði náttúruverndar verði að byggjast á miklu víðtækari samstöðu en náðst hafi í undirbúningi þess máls. Við tökum líka fram að við teljum ekki raunhæft að ná slíkri samstöðu á síðustu dögum þingsins, því miður, þar að auki við lok kjörtímabils eins og staðan er í dag.

Við vekjum líka athygli á því að viðbrögð margra umsagnar- og hagsmunaaðila við nýlegum breytingartillögum meiri hlutans sýni að þær séu ófullnægjandi út frá þeim sjónarmiðum sem réttilega er bent á að þurfi að vera grundvöllur löggjafar á þessu sviði, þ.e. að um breytingar þurfi að nást sem ríkust samstaða.

Ég vil taka fram að í ýmsum tilvikum eru breytingartillögur meiri hlutans til bóta. Ég tek undir það sem fram kom áðan í máli hv. þm. Ásmundar Einars Daðasonar að á margan hátt var vel unnið að málinu af hálfu nefndarinnar þótt tíminn væri vissulega nokkuð knappur miðað við umfang málsins. Það er rétt að geta þess sem gott er í því sambandi, eins og hv. þm. Ásmundur Einar Daðason gerði þegar hann nefndi að greiðlega hefði verið orðið við óskum um gesti, umsagnaraðilar fengið tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri o.s.frv. Það er eðlilegt í eðlilegri málsmeðferð í þinginu og mætti hafa í heiðri við meðferð mála í fleiri nefndum. En nóg um það. Hvorki ég né hv. þm. Ásmundur Einar Daðason teljum ástæðu til að gera athugasemdir við þetta.

Ég get hins vegar líka tekið undir það sem hv. þm. Ásmundur Einar Daðason sagði áðan um að sennilega hefði verið betra ef nefndin hefði í sinn hóp náð frekari efnislegri umræðu að gestakomum loknum þannig að reynt væri að ná fram sameiginlegum skilningi á fleiri þáttum en hér um ræðir.

Breytingartillögurnar voru fyrst og fremst unnar af hálfu meiri hlutans en síðan kynntar fyrir minni hlutanum. Tími til þess að fara yfir þær veigamiklu tillögur var mjög knappur innan nefndarinnar sjálfrar.

Nú kann að vera að gangi málið áfram í störfum þingsins og komi til meðferðar í umhverfis- og samgöngunefnd milli 2. og 3. umr. verði hægt að bæta úr þessu að einhverju leyti. Ég minni þó aftur á að sá tímarammi sem við höfum er mjög knappur. Þingstörfum á að ljúka á morgun miðað við starfsáætlun og jafnvel þótt framlengt verði um nokkra daga er gríðarlega mikið verk eftir varðandi þetta frumvarp, jafnvel þótt það væri eina frumvarpið á dagskrá þingsins næstu daga.

Staðreyndin er sú að á síðustu metrum þingstarfanna í lok þingvetrar og í lok kjörtímabils hafa hrúgast hingað inn fjölmörg stór og umdeild mál frá hæstv. ríkisstjórn. Við getum orðað það svo að það er með öllu óraunhæft að hægt verði að ljúka meðferð þeirra allra svo vel sé. Þrátt fyrir að það tengist ekki þessu máli sérstaklega heldur sé almenn athugasemd um störf þingsins á síðustu dögum þingstarfanna, á síðustu dögum kjörtímabilsins, ættum við að beina kröftum okkar fyrst og fremst að málum sem eru annaðhvort þess eðlis að um þau eigi að geta náðst samstaða eða að þau hafi falin í sér einhver slík ákvæði, einhverjar dagsetningar eða slíka þætti, sem gera það að verkum að sérstaklega nauðsynlegt er að ljúka þeim áður en þinginu lýkur. Það eru eðlileg og skynsamleg vinnubrögð, hæstv. forseti. Miðað við þá óskalista sem ég hef séð frá hæstv. ríkisstjórnar og þingflokkum ríkisstjórnarflokkanna er forgangslistinn upp á 90 mál eða kannski er búið að skera listann niður í 70 mál. Það liggur í augum uppi að slíkur málafjöldi verður aldrei kláraður með góðu móti á örfáum dögum, fyrir utan það auðvitað að á þeim lista eru enn fjöldamörg umdeild mál sem uppfylla engan veginn þau skilyrði að vera svo áríðandi að nauðsynlegt sé að ljúka þeim fyrir þinglok.

Það er eins og enginn skilningur sé af hálfu hæstv. ríkisstjórnar, ekki einstakra ráðherra og forustumanna í þingflokkum ríkisstjórnarflokkanna, nefndarformanna og annarra slíkra, á því að það verði að búa til einhverja vitræna forgangsröð í þessu sambandi, að á lokadögum þings, lokadögum kjörtímabils, verði menn einfaldlega að beina athyglinni og kröftunum fyrst og fremst að málum sem raunverulega þarf að klára, ekki endilega öllum málum sem menn vilja klára heldur málum sem raunhæft er að klára og einhver raunveruleg ástæða er til að afgreiða núna en ekki þegar nýtt þing kemur saman.

Það getur verið að pólitískur vilji manna standi til þess að klára alls konar þingmál, þetta kannski og fleiri, vegna þess að menn hafi áhyggjur af því að nýr meiri hluti á þinginu verði öðruvísi samansettur. Þetta er ósköp eðlileg tilfinning, en þetta er ekki tilfinning sem þingið sem slíkt getur látið ráða ferðinni í sambandi við afgreiðslu mála.

Nú vík ég aftur að efni máls, hæstv. forseti, og bið afsökunar á þessum stutta útúrdúr. Ýmsir þættir má segja að standi út af í þessu máli. Hv. þm. Ásmundur Einar Daðason hefur gert grein fyrir mörgum þeirra og við hv. þm. Árni Johnsen gerum sumum skil í nefndaráliti okkar. Þar er um að ræða álitamál sem eiga það sameiginlegt að koma fram í umsögnum fjöldamargra aðila sem um þetta hafa fjallað og hafa verið, má segja, þungamiðjan í umfjöllun nefndarinnar en eru hins vegar þess eðlis að á þeim hefur ekki verið fundin fullnægjandi lausn að mati okkar í 2. minni hluta.

Fyrsta atriðið sem ég ætlaði að nefna í þessu sambandi er samspilið milli eignarréttar og almannaréttar. Ég held að allir geri sér grein fyrir að þarna þarf að ríkja ákveðið jafnvægi. Eignarréttur landeigenda er mikilvægur. Eignarréttur er grundvallarregla og eignarréttur landeigenda er að engu leyti ómerkari en annar eignarréttur í skilningi laga og mannréttindasáttmála.

Í frumvarpinu sem hér um ræðir eru stigin skref til þess að ganga á eignarréttinn á þeim grundvelli að verið sé að auka almannarétt. Ég vil geta þess, hæstv. forseti, að ég hef mikinn skilning á því og tel það ótvírætt að almenningur eigi rétt á því að ferðast um landið. Ég held að það skipti máli, bæði fyrir Íslendinga og eins fyrir þá erlendu gesti sem hingað koma að eiga greiða för um landið. Sá réttur verður hins vegar að taka mið af eignarrétti bænda og annarra landeigenda. Ég get tekið undir áhyggjur sem komið hafa fram af hálfu samtaka bæði bænda og landeigenda um að gengið sé lengra og meir á eignarréttinn í þessu frumvarpi en samkvæmt gildandi löggjöf og lengra en eðlilegt er. Við þekkjum það sem höfum setið í nefndinni að þarna er um að ræða raunverulega og mikilvæga þætti. Það er togstreita milli þeirra sem ferðast um landið, útivistarfólks af ýmsu tagi, jafnvel ferðaþjónustuaðila og fleiri sem auðvitað líta svo á að það sé mikilvægur þáttur í samfélagi okkar að geta ferðast um hindrunarlítið eða hindrunarlaust. Í sumum tilvikum rekst þessi réttur auðvitað á rétt landeigenda. Ég hef áhyggjur af því að jafnvæginu sé raskað í þessu, að réttur landeigenda sé ekki nægilega virtur í þessu sambandi þannig að ég óttast að við sjáum fram á fleiri árekstra á þessu sviði en verið hafa.

Ég held að við þurfum að hafa áhyggjur af því að í staðinn fyrir að breytingar sem fylgja þessu frumvarpi verði til þess að leysa deilur eða setja þær niður muni nýja ákvæðið eða breytingar í þessu frumvarpi frekar verða til þess að auka deilur, ágreining og núning.

Það er líka mikilvægt í þessu sambandi að hafa í huga að fjölgun ferðamanna hefur mikil áhrif í þessu sambandi. Erlendum ferðamönnum sem koma til Íslands hefur sem betur fer fjölgað mjög mikið á undanförnum árum og það er útlit fyrir að áframhald verði á þeirri þróun. Það má segja að það sé markviss og opinber stefna stjórnvalda að fjölga ferðamönnum. Ekki ætla ég að amast við því.

Það er líka æskilegt, gott og jákvætt að Íslendingar ferðist meira um eigið land. En sú jákvæða þróun sem fjölgun ferðamanna og fjölgun Íslendinga sem ferðast um eigið land er skapar hins vegar meiri núning en verið hefur. Eins og hv. þm. Ásmundur Einar Daðason kom vel inn á í ræðu sinni höfum við fengið lýsingar á því hvernig þetta getur með ýmsum hætti valdið bændum og öðrum landeigendum óþægindum. Þarna held ég, hæstv. forseti, að það sé mikilvægt að við reynum að leita frekara jafnvægis, annars vegar milli ferðafrelsis og almannaréttar og hins vegar milli réttar landeigenda. Ég held að það sé afskaplega mikilvægt. Ef frekari vinnsla málsins getur gert það að verkum að unnt verði að setja niður deilur í meira mæli held ég að sá snúningur væri nokkurs virði.

Annað atriði sem hefur verið mjög áberandi í umræðunni um þetta mál varðar akstur utan vega. Það er öllum ljóst að akstur utan vega getur valdið óbætanlegum skaða á íslenskri náttúru, um það þekkjum við öll dæmi. Samkvæmt núgildandi lögum er allur akstur utan vega bannaður, en hins vegar er jafnljóst að það hefur reynst erfitt að fylgja þeim lagaákvæðum þegar á það hefur verið látið reyna.

Tilraun frumvarpsins til að taka á þessum málum með því að setja að sumu leyti skýrari reglur í lagatextann en verið hafa í gildi og sumpart nákvæmari er út af fyrir sig virðingarverð. Ég hef hins vegar áhyggjur af því sem og fjöldamargir aðrir sem um þetta mál hafa fjallað að þarna sé gengið of langt.

Ýmsar breytingartillögur meiri hlutans snerta akkúrat á þessu efni. Það má segja að í sumum tilvikum sé vissulega komið til móts við athugasemdir sem fram hafa komið af hálfu hagsmunaaðila og annarra sem um þetta hafa fjallað. Það er viss rýmkun varðandi vetrarakstur þegar ekki er lengur gert að skilyrði að jörð þurfi að vera frosin þegar ekið er utan vega að vetrarlagi, heldur jafnframt gert ráð fyrir að ef fyrir hendi er snjóþekja sem getur hlíft landinu sé það í lagi. Þetta er ábending sem kom oftsinnis fram í umfjöllun málsins og gott að meiri hlutinn bregst við því. Með sama hætti er augljóslega reynt að koma til móts við athugasemdir sem hafa komið fram af hálfu fatlaðra um að tekið sé tillit til þeirra í textanum og gert ráð fyrir því að hægt sé að veita fötluðum undanþágur þegar um það er að ræða að þeir þurfa ef til vill að ferðast lengra og meira á vélknúnum farartækjum til að komast á þá staði sem um ræðir en göngufólk.

Ég viðurkenni að þarna er líka um ákveðna jafnvægislist að ræða því að það er ekki raunhæft, hver svo sem afstaða okkar er til jafnræðis og jafnréttis fatlaðra, að gera ráð fyrir að þeir geti farið á alla þá staði sem ófatlaðir geta hugsanlega komist á. Það er ekki hægt að beita náttúruna fullkominni jafnréttiskröfu hvað þetta varðar. Það er hins vegar jafnljóst að vélknúin farartæki, fjórhjól eða önnur slík farartæki, bílar jafnvel, geta orðið til þess að gefa fólki með margháttaða fötlun tækifæri til þess að njóta náttúrunnar í miklu ríkara mæli en ef það fengi ekki tækifæri til þess að nýta sér slík tæki. Ég fagna því í sjálfu sér að meiri hlutinn í umhverfis- og samgöngunefnd skuli með breytingartillögu koma til móts við ábendingar sem komið hafa fram um nákvæmlega þetta efni.

Maður veltir fyrir sér hvort við séum endanlega komin á réttan stað varðandi fyrirkomulagið. Það er gert ráð fyrir undanþáguheimild sem þurfi að sækja um og einhverri stjórnsýslu í kringum það sem getur kannski verið þung í vöfum, en ég mundi hvað þetta atriði varðar segja að komi málið aftur til umfjöllunar milli 2. og 3. umr. þyrftum við að fara aðeins nánar yfir þetta. Þótt verið sé að opna, má segja, möguleikann á að veita fötluðum undanþágu til að aka utan vega þar sem öðrum er það hugsanlega óheimilt er ef til vill verið að búa til stjórnsýsluþröskulda í því sambandi. Ég vil að minnsta kosti taka snúning á því máli til að kanna hvort sú regla sem felst í breytingartillögunni kemur með öllu til móts við þær athugasemdir sem komið hafa fram af hálfu fatlaðra í þessu sambandi.

Ég verð hins vegar að segja varðandi þann þátt sem snýr að akstri bænda og búaliðs að sú heimild sem felst í breytingartillögu meiri hlutans er býsna þröng. Ég hef hlýtt á sjónarmið sem meðal annars hv. þm. Ásmundur Einar Daðason hefur haft uppi í því sambandi, og hann þekkir auðvitað betur til en ég á því sviði, en ég mundi halda að þarna sé verið að setja þeim akstri sem tengist störfum bænda fullþröngar skorður. Ef ætlunin er raunverulega að koma til móts við sjónarmið sem komið hafa úr þeirri átt er nauðsynlegt að gera betur en felst í breytingartillögum meiri hlutans.

Ég held að það verði líka að hafa í huga í sambandi við stöðu bænda og landeigenda að þrátt fyrir að þeir þekki slóða og annað á sínum eignarlöndum sem geta nýst þeim í starfi þeirra er ekki sjálfgefið að þeim eigi að vera skylt að skrá slíka slóða í gagnagrunn. Mér finnst í raun og veru ansi langt gengið þegar gert er ráð fyrir því. Þarna er atriði sem snýr að bændum og landeigendum sem einnig þarf að hafa í huga.

Þá kem ég að kortagrunninum sem er grundvallarbreyting sem felst í þessu frumvarpi. Við vitum og þekkjum að kortagrunnurinn hefur verið í smíðum um margra ára skeið og ég hef ekki heyrt í neinum sem ekki er í sjálfu sér fylgjandi því að Landmælingar komi sér upp góðum gagnagrunni og kortagrunni um þá vegi og slóða sem fyrir hendi eru í landinu. Ég held að öllum hljóti að vera kappsmál að það sé sem best gert og skynsamlegast. Að minnsta kosti var á árum áður mikið samstarf milli útivistarfólks, jeppamanna, og Landmælinga í sambandi við gerð þessa grunns. Ég held að við getum verið sammála um að það sé æskilegt að hann verði sem bestur og nákvæmastur.

Hins vegar tek ég undir athugasemdir sem hafa komið fram við meðferð málsins um að það geti verið varasamt að gera þennan kortagrunn að helsta grundvelli refsiheimilda á þessu sviði. Við getum orðað það svo til nokkurrar einföldunar að eins og frumvarpið er sett upp sé gert ráð fyrir því að í þennan kortagrunn verði skráðir allir þeir vegir og slóðar sem heimilt sé að aka og þannig verði gerður tæmandi listi yfir leyfða vegi í landinu. Við getum orðað það þannig. Ég held að athugasemdir sem fram hafa komið, ekki síst af hálfu vanra ferðamanna og útivistarfólks, um að þetta geti verið óheppilegt sem grunnur refsiheimilda séu alveg marktækar. Það hefur verið bent á að víða geti aðstæður verið með þeim hætti að það sé með öllu ómögulegt að aka eingöngu eftir merktum og leyfðum slóðum samkvæmt þessum reglum, samkvæmt þessum grunni, að aðstæður geti verið með þeim hætti að utanvegaakstur kunni að vera nauðsynlegur en líka að hann kunni að vera skaðlítill eða skaðlaus við einstaka aðstæður. Það að setja málin fram svona afdráttarlaust fellur illa að raunveruleikanum.

Þess vegna ítreka ég enn efasemdir sem ég hef um að þessi kortagrunnur eigi að vera sá grundvöllur refsiheimilda á þessu sviði sem frumvarpið í núverandi mynd gerir ráð fyrir. Síðan hafa auðvitað verið ábendingar um að gerð þessa kortagrunns sé ekki lokið, það sé óljóst hvernig muni ganga og hvernig gangi að fjármagna frekari vinnu hans o.s.frv. sem auðvitað veikir þetta sem grundvöll refsinga. Aðalatriðið er kannski það að ég held að ekki sé rétt að gera það að afdráttarlausri reglu að akstur utan þeirra vega og slóða sem finna má í gagnagrunninum sé refsiverður nema í þeim tilvikum þegar nokkrar tiltölulega þröngar undanþáguheimildir eiga við.

Ég held að í þessu sambandi sé rétt að hlusta betur á sjónarmið sem hafa komið frá fjöldamörgum hópum útivistarmanna um nákvæmlega þetta atriði og það sé mikilvægt að vinna nánar í samráði og samvinnu við þann hóp. Ég held að einmitt í hópi þeirra sem hafa það í mörgum tilvikum að sínu helsta áhugamáli, sumir jafnvel að atvinnu, að ferðast um óbyggðir landsins sé svo yfirgnæfandi meiri hluti fólks líka í hópi náttúruunnenda og þeirra sem vilja virða landið. Mér finnst ekki hægt að horfa fram hjá athugasemdum þeirra. Þarna er líka oft og tíðum um það fólk að ræða sem þekkir hálendi landsins og óbyggðir hvað best, hvort sem um er að ræða þá sem ferðast um á jeppum, veiðimenn eða aðra. Þetta eru þeir sem þekkja sum svæði landsins hvað best, nýta þau sem mest og hafa í mörgum tilvikum mestan áhuga á því að varðveita landið.

Það eru fleiri þættir í þessu frumvarpi, hæstv. forseti, sem ástæða er til að nefna. Við hv. þm. Árni Johnsen komum lítillega inn á framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár sem er nýmæli í frumvarpinu þó að það hafi líkingu við núverandi náttúruverndaráætlun. Við tökum fram í nefndaráliti okkar að við teljum að það sé æskilegt, gott og jákvætt að þingið komi að gerð framkvæmdaáætlunar náttúruminjaskrár. Þetta er frekar óþjált heiti, hæstv. forseti, sem þó má notast við. Það er samt spurning hvort hægt væri að nálgast það með því að velja annað orð. En við fögnum því að Alþingi komi að þessari vinnu, að kjörnir fulltrúar á þinginu komi að þeirri vinnu og það sé ekki ráðherra einn og embættismenn hans sem undirbúa og bera ábyrgð á gerð þessarar framkvæmdaáætlunar.

Það er ljóst að hún getur haft veruleg áhrif sem snerta marga. Hún felur í sér mjög mikilvæga stefnumörkun sem eðlilegt er að þingið komi að. Þó að undirbúningur eigi sér stað á vegum hæstv. umhverfisráðherra hverju sinni og ráðuneytis hans er fjallað um málið á þingi. Út af fyrir sig er mjög gott að tillit er tekið til þess í þessu máli. Um þetta fjölluðu fjölmargir umsagnaraðilar eins og sjá má af þeim skrifum sem fylgja málinu.

Menn hafa velt fyrir sér samspili framkvæmdaáætlunarinnar og annarra áætlana sem gerðar eru. Þar blasir við samspil við rammaáætlun. Það er trúlega rétt að þær þurfa ekkert að rekast á en við verðum samt sem áður að hafa í huga að þarna er um að ræða tvenns konar áætlanir sem hafa óneitanlega töluverðan snertiflöt. Það getur skapast ákveðið flækjustig þegar horft er til samspils þessara áætlana.

Það má segja að í breytingartillögu meiri hlutans sé tekið á einu atriði þar sem árekstur blasti eiginlega við í frumvarpinu með því að það er tekið fram í breytingartillögum og nefndaráliti meiri hlutans að ekki verði óheimilt að stunda orkurannsóknir á svæðum sem eru í biðflokki samkvæmt rammaáætlun. Það hefði verið mjög sérkennilegt ef niðurstaðan hefði orðið sú að svæði sem sett er í biðflokk við afgreiðslu rammaáætlunar væru jafnsett svæðum sem njóta verndar samkvæmt rammaáætlun. Það hefði verið frávik frá þeim tilgangi biðflokks að vera raunverulegur biðflokkur þar sem mál eru tekin til nánari skoðunar og rannsókna til að hægt sé að meta hvort þau eigi eftir atvikum þegar tíminn líður að fara annaðhvort í nýtingarflokk eða verndarflokk. Það má segja að þarna sé verið að laga galla sem var á frumvarpinu og allt gott um það að segja.

Engu að síður verður ákveðið samspil í þessu sem menn þurfa að huga að. Það leiðir hugann að fleiri áætlunum sem ýmist eru til staðar eða á leiðinni, hvernig þetta spilar saman við hugmyndir um landsskipulag og annað þess háttar sem nú er komið inn í þingið þó að það hafi ekki fengið neina umfjöllun. Hvernig á þetta allt að vinna saman? Það þarf svolítið að hugsa þann þátt betur að mínu mati þótt ég sé ekki með afmarkaðar breytingartillögur að þessu sinni hvað þann þátt varðar. Hvað um það, það er mikilvægt að Alþingi fái framkvæmdaáætlun til meðferðar ef frumvarpið nær fram að ganga.

Eitt af þeim atriðum sem hefur valdið hvað mestum deilum í sambandi við þetta frumvarp og reyndar fyrri frumvörp um breytingar á náttúruverndarlögum sem hafa verið til umfjöllunar síðustu sennilega tvö árin er breyting á núgildandi 37. gr. náttúruverndarlaga sem samkvæmt þessu frumvarpi á að verða 57. gr. Þarna er um að ræða breytingu sem ég hygg að komi til með að hafa veruleg áhrif. 37. gr., eins og hún er í dag, felur í sér það sem kallað er sérstök vernd. Ef ég má vísa í núgildandi lagaákvæði í lögum nr. 44/1999 er þar talað um jarðmyndanir og vistkerfi sem njóti sérstakrar verndar og að forðast skuli röskun þeirra eins og kostur er. Þar eru tiltekin í nokkrum töluliðum mikilvægar jarðmyndanir og vistkerfi. Það er vísað til eldvarpa, gervigíga og eldhrauna, stöðuvatna og tjarna, sem eru 1 þús. m² að stærð eða stærri, mýra og flóa, 3 hektara eða stærri, fossa, hvera, annarra heitra uppspretta o.s.frv. sem eru 100 m² eða stærri og svo er vísað til sjávarfitja og leira.

Miðað við breytinguna eins og hún er í frumvarpinu eru taldar upp fleiri tegundir svæða. Svo ég vísi í 57. gr. er í fyrsta lagi talað um votlendi, svo sem hallamýrar, flóa, flæðimýrar, rústamýrar, 10 km² að flatarmáli eða stærri, stöðuvötn og tjarnir sem eru 1 þús. m² eða stærri, sjávarfitjar og leirur. Það er vísað til birkiskóga sem einkennist af náttúrlegri nýliðun og aldursdreifingu með nánari skilgreiningum. Svo er aftur vísað til eldvarpa, eldhrauna, gervigíga og hraunhella, fossa og umhverfis þeirra í allt að 200 metra radíus frá fossbrún.

Þarna má segja að nýmælið sé það að votlendisskilgreiningin er víðtækari. Bætt er við birkiskógunum. Svo er viðmiðunum breytt í þessu sambandi. Í greininni eins og hún er sett fram í frumvarpinu má segja að skilyrði til þess að veita leyfi til framkvæmda sem með einhverjum hætti raska þessum svæðum séu þrengd. Það er bæði verið að láta þessa grein, sérstöku verndina, ná til stærri svæða, stærri hluta landsins ef svo má að orði komast, en það er líka verið að þrengja að möguleikum til að veita leyfi til framkvæmda á þessum stöðum.

Þetta er umdeilt atriði af mörgum sökum. Menn hafa gert athugasemdir við skilgreiningar í þessu sambandi en þó ekki síst tilefni og þörf. Um það eru skiptar skoðanir, bara svo því sé haldið til haga. Það eru til skýrslur sem vísa til þess að núgildandi 37. gr. hafi ekki mikil áhrif. Gegn því hefur verið teflt fram því sjónarmiði að hún hafi áhrif einfaldlega vegna þess að hún hafi áhrif á það í hvaða framkvæmdir er ráðist strax á undirbúningsstigi. Ég minnist þess að Landsvirkjun vísar í það í ágætri umsögn sinni að raunverulega er inntakið í athugasemd Landsvirkjunar að þessu leyti það að 37. gr. hafi meiri áhrif en kannski virðist vegna þess að þeir aðilar sem fara í framkvæmdir hljóti að horfa til þessa þáttar þegar þeir velja hvar þeir láta til sín taka. Ég ætla að vitna í umsögn Landsvirkjunar um þessa grein, með leyfi forseta:

„Umræða um gildi þessarar greinar þegar kemur að útgáfu framkvæmdaleyfa, gerð skipulagsáætlana, matsáætlana o.s.frv. hefur kannski ekki farið hátt, en hún hefur tvímælalaust haft mikil áhrif. Í frumhönnun, við undirbúning, framkvæmdir og rekstur hefur Landsvirkjun alltaf reynt að skerða ekki þær landslagsgerðir sem taldar eru upp í greininni.“

Það má segja að greinin eins og hún er hafi hugsanlega áhrif til viðmiðunar þó að það reyni kannski ekki endilega í úrskurðum á síðari stigum á það hvort brotið sé gegn henni eða ekki.

Hvað sem þessu líður benda ýmsir aðilar, Landsvirkjun, Samorka, Vegagerðin og fleiri, á það að þarna kunni að vera settar talsverðar skorður sem geti staðið í vegi framkvæmda. Það verður að hafa í huga að þarna er aðeins um að ræða einn af fjölmörgum þröskuldum sem þeir aðilar sem vilja fara í framkvæmdir af einhverju tagi þurfa að komast yfir. Það má segja að á undanförnum árum hafi bæst mjög mikið við þær hindranir eða þá þröskulda sem þeir sem vilja ráðast í framkvæmdir, hvort sem er á sviði orkuvinnslu, vegagerðar eða annarrar mannvirkjagerðar, þurfa að komast yfir til að fá leyfi til að framkvæma. Skilyrðum um leyfisveitingu, umsagnir og annað þess háttar hefur fjölgað til mikilla muna. Ég hef áður í þessum ræðustól lýst því yfir að þarna held ég að sé orðinn til ákveðinn frumskógur sem geri það að verkum að mál af þessu tagi, framkvæmdir í undirbúningi, tefjist oft og lendi í öngstræti, ekki í sjálfu sér vegna þeirra krafna sem gerðar eru til framkvæmdanna út frá raunverulegum náttúru- og umhverfisverndarsjónarmiðum, heldur er fyrst og fremst verið að leggja stjórnsýslulega steina í götu þess sem gera á.

Ég hef margoft nefnt það í umræðum um mál sem hér hafa komið til umræðu, mat á umhverfisáhrifum, breytingar á skipulagslögum og fjöldamörg önnur mál, að það væri mikilvægt að fara yfir ferla í þessu sambandi, fara yfir þær leyfisveitingar, skilyrði og aðdraganda sem eru fyrir hendi í hinum mismunandi lögum. Við höfum alltaf fjallað um þetta afmarkað við hvern lagabálk fyrir sig en með því að skoða þetta heildstætt gætum við hugsanlega náð þeim árangri að grisja aðeins skóginn, gera ferla einfaldari, gera málsmeðferð einfaldari, fljótari og jafnvel betri, án þess að slá af kröfum um náttúruvernd eða umhverfissjónarmið. Ég held að þetta sé hægt.

Ég hef eftir nokkurra ára setu í umhverfisnefnd séð fjöldamörg frumvörp fara gegnum þingið sem hafa hvert með sínum hætti áhrif í þessu sambandi, hafa bætt við lögbundnum umsagnaraðilum, skyldu til þess að leita umsagna, skyldu til þess að fá leyfi o.s.frv. Kerfið hefur verið flækt til mikilla muna án þess endilega að það snerti með einhverjum hætti við þeim viðmiðunum sem mestu máli skipta í þessu sambandi, þ.e. þeim viðmiðunum sem snúa að vernd náttúrunnar. Það er bara verið að gera ferlið flóknara, tímafrekara og dýrara án þess endilega að auka gæði þeirrar vinnu sem um ræðir.

Það er verulegt umhugsunarefni hvernig mismunandi lagabálkar á þessu sviði vinna saman í þessum efnum. Ég segi það þrátt fyrir að hafa setið í hv. umhverfisnefnd um nokkurra ára skeið að yfirsýn mín yfir þessi ákvæði og samspil þeirra hefur frekar minnkað eftir því sem tíminn hefur liðið. Mér hefur fundist kerfið hafa verið gert flóknara án þess endilega að verið sé að stuðla að meiri gæðum eða betri niðurstöðu.

Hvað varðar áhrif 57. gr. sem ég hef fjallað örstutt um hafa þeir aðilar sem látið hafa þessi mál sérstaklega til sín taka í umsögnum, margir hverjir, vakið athygli á því að þetta geti gert starf þeirra erfiðara. Ég held að það sé ekki að tilefnislausu að orkufyrirtæki, sveitarfélög, Vegagerðin eða aðrir slíkir geri athugasemdir við fyrirkomulagið eins og það er sett fram. Ég er þeirrar skoðunar að þarna þurfi einfaldlega að fara betur yfir málið og gæta þess að ganga ekki lengra í þessu sambandi en nauðsynlegt er.

Ég held, hæstv. forseti, að þeir þrír þættir sem ég hef nefnt sérstaklega, jafnvægið milli ferðafrelsis og eignarréttar, jafnvægið milli banns við utanvegaakstri og eðlilegrar umferðar um landið og 57. gr. sem áður var 37. gr., séu veigamestu atriðin sem þyrfti að vinna betur í. Þetta eru hins vegar engin smáviðfangsefni, þetta eru veigamikil atriði sem snerta kjarna þessa frumvarps.

Það eru fleiri atriði sem auðvitað hefur verið fjallað um í sambandi við þetta mál. Að einhverju leyti hefur þegar í umræðunni verið fjallað um stjórnsýsluþáttinn. Ég tel að það sé til bóta að geyma stofnun þessara svokölluðu náttúruverndarumdæma eins og þau voru sett fram í upphaflegu frumvarpi. Ég held að það sé til bóta að skoða þau mál betur áður en ráðist er í lagasetningu á því sviði.

Ég held að hins vegar þurfi að velta frekar fyrir sér samspili mismunandi stofnana sem líka hefur sætt gagnrýni. Hv. þm. Ásmundur Einar Daðason fjallaði svolítið um stöðu Náttúrufræðistofnunar í þessu sambandi. Ég tek undir orð hans, Náttúrufræðistofnun vinnur mjög gott starf á mörgum sviðum. Spurningin er hins vegar sú hvort henni sé með frumvarpinu fært hlutverk á einhverjum sviðum þar sem aðrar stofnanir hins opinbera ættu frekar að koma að. Auðvitað verðum við þingmenn oft varir við togstreitu mikilli stofnana hins opinbera þegar mál af þessu tagi koma til umfjöllunar í þinginu. Slík álitamál hafa verið töluvert mörg á sviði umhverfis- og samgöngunefndar á síðustu missirum. Ég held að mönnum hafi ekki tekist að komast að niðurstöðu í sambandið við frumvarpið þannig að ég held að ákveðnir árekstrar verði áfram fyrir hendi. Ég held að við þurfum að huga að því í framhaldi málsins.

Síðan er þátturinn sem snýr að sveitarfélögunum. Þau hafa komið á framfæri margvíslegri gagnrýni á þetta frumvarp, bæði einstök sveitarfélög og Samband íslenskra sveitarfélaga. Við þurfum að virða þá meginreglu að skipulagsvald í landinu sé hjá sveitarfélögunum. Það hefur gætt ákveðinnar miðstýringar, tilhneigingar getum við sagt, af hálfu ráðuneyta og ríkisstofnana að ná til sín valdi sem hefur verið hjá sveitarfélögunum, m.a. í sambandi við skipulagsmálin. Ég held að athugasemdir Sambands íslenskra sveitarfélaga og margra sveitarfélaga sem sent hafa inn ágætar athugasemdir séu þess virði að veita þeim athygli. Ég bendi hv. þingmönnum á athugasemdir í þessu sambandi. Við megum ekki gleyma því að sveitarfélög gegna á margan hátt lykilhlutverki varðandi framkvæmd náttúruverndar í landinu. Þau hafa líka mikilvægu hlutverki að gegna við íbúa og atvinnulíf á viðkomandi svæðum. Við verðum að gefa þeim svigrúm og taka tillit til þeirrar meginreglu að sveitarfélög eigi að vera sjálfstæð í störfum sínum.

Hæstv. forseti. Hv. þm. Ásmundur Einar Daðason fjallaði um nokkra þætti í ræðu sinni áðan sem ég hef ekki komið inn á, m.a. hvað varðar skilgreiningar sem enn eru að sumu leyti tilefni mismunandi túlkunar og ágreinings. Hann nefndi, sem og fleiri þingmenn hér í andsvörum, kostnaðarþáttinn og fleira þess háttar sem ástæða er til að ræða frekar.

Áður en ég lýk máli mínu, hæstv. forseti, vildi ég taka fram að margt í þeirri vinnu sem unnið hefur verið í aðdraganda málsins er af hinu góða. Náttúruverndarlöggjöf í landinu er gríðarlega mikilvæg. Ég held hins vegar, hæstv. forseti, að við séum ekki komin á endapunkt í þessari vinnu, ég held að við séum ekki komin á þann stað að við getum lokið umfjöllun þingsins um þetta. Ég held að það muni ekki gerast á næstu sólarhringum. Ef þetta frumvarp verður samþykkt í þeirri mynd sem það nú er, eða lítið breytt, verður það tilefni áframhaldandi deilna. Í ljósi þess sem ég sagði í upphafi um það hvernig við ættum að forgangsraða verkefnum í störfum þingsins síðustu dagana leyfi ég mér líka að benda á að í þessu frumvarpi eru ekki, eftir því sem ég best fæ séð, nein slík ákvæði sem brýna nauðsyn ber til að afgreiða á næstu vikum. Ég hef ekki komið auga á það. Ég veit að í þessum sal eru fjöldamargir þingmenn sem vilja ná fram þeim breytingum sem hér er að finna, ég veit að það er pólitískur vilji mjög margra að ljúka þessu máli, en ég bið þá hv. þingmenn að velta fyrir sér hvort sá vilji sé nauðsyn. Þá er ég bara að velta því fyrir mér, hæstv. forseti, hvernig við eigum að haga störfum okkar á næstu dögum þar sem fjöldamörg mál eru til umfjöllunar og engin forgangsröðun af neinu viti hefur átt sér stað. Sum mál eru vissulega þess eðlis að það eru einhverjar aðstæður sem kalla á að þau verði kláruð. Þau eru reyndar að mínu mati ekkert óskaplega mörg, en þau eru þarna. Að mínu mati væri miklu eðlilegra að beina kröftunum fyrst og fremst að þeim, ljúka þeim og gera það vel frekar en að reyna að klára öll þau mál sem einstaka ráðherrar, nefndarformenn eða nefndarmenn í einstökum nefndum hafa áhuga á eða pólitískan vilja til að ljúka.

Það á, hæstv. forseti, ekki síst við í lok kjörtímabils þegar umboð okkar allra er að renna út og fáar vikur eru þar til saman kemur nýtt þing með nýtt umboð, hugsanlega töluvert öðruvísi samsett en það sem nú situr.