141. löggjafarþing — 103. fundur,  14. mars 2013.

náttúruvernd.

429. mál
[16:16]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Ég hjó eftir því í máli hennar að þetta frumvarp snerist ekki um ferðafrelsi heldur náttúruvernd. Ég er í grundvallaratriðum ósammála því að það sé svo einfalt, þetta tengist í mínum huga og er algjörlega ógerlegt að slíta í sundur. Mér finnst það raunar staðfestast í þeim breytingartillögum sem hér liggja fyrir frá hv. umhverfis- og samgöngunefnd því að viðamesta breytingin sem hún gerir er á 18. gr. sem lýtur að breytingum á reglunni um almannaréttinn, þ.e. að taka þar inn nýjungina sem lýtur að því að taka inn rétt vélknúinna ökutækja til að fara um landið. Það er tæpast í anda þess sem hv. þingmaður sagði áðan.

Mér finnst bera töluvert á því að hér sé verið að ræða refsingar og það er verið að gera stórar breytingu á 91. gr. Mér þótti hún mjög sérstök í fyrra ákvæði. Hér kemur fram að hægt sé að gera upptækt með dómi vélknúið ökutæki sem hefur verið notað þar sem brot hafa verið framin en þó ekki ef ökutækið er eign manns sem ekki er við brotin riðinn. Hvernig má það vera að það er ekki hægt að gera farartækið upptækt ef ferðalangur á bílaleigubíl eða ég á bifreið hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur geri mig sekan um utanvegaakstur og veld skemmdum á landinu? Það er ekki hægt nema þetta hafi verið minn eigin bíll. Er hv. þingmaður sammála mér um að það sé dálítið afkáraleg reglusetning sem verið er að setja inn í 91. gr.?