141. löggjafarþing — 103. fundur,  14. mars 2013.

náttúruvernd.

429. mál
[16:18]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það sem ég átti við var að ég vildi draga það fram að þetta væri fyrst og fremst frumvarp um náttúruvernd en ekki stöðu akandi vegfarenda en almannarétturinn er þó skilgreindur í þessu frumvarpi. Staða akandi vegfarenda er ekki meginmarkmið frumvarpsins, það er náttúruverndin og staða náttúrunnar sem frumvarpið gengur út á. Markmiðsgrein frumvarpsins skýrir það mjög vel. Síðan koma önnur atriði sem minna máli skipta eins og réttur minn til að komast hvert á land sem er á vélknúnu ökutæki. Það er önnur spurning.

Það er reynt að taka á því eftir því sem ástæða er til í þessu frumvarpi, m.a. með skilgreiningu á almannaréttinum og leitast er við að tryggja rétt fólks til frjálsrar farar um landið.

Það er komin nokkuð önnur uppsetning á 91. gr. samkvæmt breytingartillögunum þar sem verið er að skerpa á refsirammanum. Mér finnst ekki þægilegt í einnar mínútu andsvari að ætla að fara í mjög lögfræðilega skilgreiningu á því hvernig eigi að skipta sök eða láta hana koma niður í almennri löggjöf. Þar gilda líka almenn hegningarlög, lög um meðferð sakamála og almennar málsmeðferðarreglur í íslenskri löggjöf sem ganga framar lögum sem þessum þannig að ég held að við ættum bara að láta þá rökræðu bíða betri tíma, hv. þingmaður.