141. löggjafarþing — 103. fundur,  14. mars 2013.

náttúruvernd.

429. mál
[16:22]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að það sé ákveðinn misskilningur í spurningu þingmannsins vegna þess að eignaupptaka er eitt form refsingar, vissulega, eða sektar eða hvað við köllum það. En við refsum ekki manni með eignaupptöku á því sem hann á ekki. Maður getur refsað honum með öðrum hætti, með sekt, látið hann sæta varðhaldi og standa fyrir máli sínu. Þannig er hægt að refsa ökumanni sem brýtur af sér.

Hverjum er verið að refsa ef maður gerir upptækt ökutæki sem hinn brotlegi á ekki? Segjum að hv. þm. Ásbjörn Óttarsson láni hv. þm. Kristjáni Þór Júlíussyni bíl sem brýtur umferðarlög og gerir eitthvað af sér á þeim bíl. Hverjum er verið að refsa ef bíllinn er gerður upptækur? (Gripið fram í.) Þetta er í samræmi við almenna skynsemi, finnst mér, refsing á að koma niður á þeim sem á hana skilið, maður refsar ekki eiganda áhaldsins sé hann ekki við brotið riðinn, maður refsar þeim sem brotið fremur.