141. löggjafarþing — 103. fundur,  14. mars 2013.

náttúruvernd.

429. mál
[16:23]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Þetta voru áhugaverðar umræður í lok þessara andsvara en ég held að ég láti það ógert að fara í þann farveg eða taka þátt í því sem þar fór fram.

Við fjöllum hér um frumvarp til laga um náttúruvernd, afskaplega yfirgripsmikið mál, um 100 greinar ásamt um 20 reglugerðarheimildum til ráðherra. Ég held að allir séu sammála um að þetta er gríðarlega umfangsmikið og stórt mál. Ég gagnrýni það í fyrsta lagi að málið kemur allt of seint fram í þinginu. Ekki er mjög langt síðan mælt var fyrir því og æskilegra hefði verið að meiri tími hefði gefist til að vinna það.

Ekki er heldur hægt að líta fram hjá því að athugasemdir eru gerðar við málið, sumar þeirra eru alvarlegar og lúta meðal annars að skorti á samráði við gerð frumvarpsins. Þeir aðilar sem eiga beinna hagsmuna að gæta gera alvarlegar athugasemdir við það. Í andsvörum við hv. þm. Ólaf Þór Gunnarsson, formann nefndarinnar, sem mælti fyrir meirihlutaálitinu áðan, kom fram að margir umsagnaraðilar og gestir nefndarinnar hefðu kvartað undan samráðsleysi. Eitt er að hafa samráð og leggja málið fram og annað hvernig menn túlka það að tekið hafi verið tillit til þeirra athugasemda sem komu fram við vinnslu málsins.

Síðasta haust, þegar verið var að fjalla um fjárlögin, var sagt að fjárlögin hefðu verið í svo og svo margar vikur í meðförum nefndarinnar en þegar afgreiða átti málið var það gert með breytingartillögum sem voru lagðar fram og teknar út nánast á sömu mínútunni eða á sama klukkutímanum í það minnsta. Eitt er að hafa mál lengi í gangi eða lengi inni á vef hjá ráðuneytinu og annað að taka efnislega afstöðu til þeirra ábendinga sem berast.

Í ræðu hv. formanns nefndarinnar, Ólafs Þórs Gunnarssonar, var vitnað í álit Sambands íslenskra sveitarfélaga. Hann vék að því að sú undirbúningsnefnd, sem skipuð var þegar verið var að semja frumvarpið, hefði starfað í ákveðinn tíma. Maður staldrar við þegar Samband íslenskra sveitarfélaga gerir athugasemdir við að það hafi ekki átt fulltrúa í þeirri nefnd. Maður hlýtur að staldra töluvert við það eða ég geri það að minnsta kosti sem gamall sveitarstjórnarmaður. Það blasir við að það er gríðarlega mikilvægt að sveitarstjórnir, sem er hitt stjórnsýslustigið í landinu, komi að málum.

Óhætt er að segja að vinnubrögðin sem snúa að fjárhagslið málsins séu óvönduð. Í umsögn frá meiri hlutanum og í nefndarálitinu kemur fram — fyrst annar fundur er hér í hliðarsal væri æskilegt að hafa sama málefnið á dagskrá þar, þetta er dálítið ruglingslegt, maður heyrir ekki í sjálfum sér. Þeir hv. þingmenn sem eru í hliðarsal mundu þá kannski vilja fjalla um sama mál og er hér á dagskrá.

Í nefndaráliti meiri hlutans, þar sem farið er yfir kostnaðarmatið á frumvarpinu og hvað það þýðir fyrir ríkisfjármálin — eins og ég hef oft sagt í þessum ræðustól þá finnst mér margir hv. þingmenn ekki hafa miklar áhyggjur af fjárhagsstöðu ríkissjóðs, þeir eru alla vega of fáir sem það gera — er sérstakur kafli um það sem undirstrikar að málið hefði mátt vinna betur. Þar kemur fram að í umsögn með frumvarpinu, sem ég kem hér inn á á eftir, er það metið svo að kostnaðarauki Umhverfisstofnunar, sem hlýst af því að samþykkja frumvarpið, verði um 32 millj. kr. í forsendum frumvarpsins. Hv. umhverfis- og samgöngunefnd fer síðan yfir málið og þá kemur í ljós að það eru um 110 millj. kr., þ.e. ekki nema rúmlega þreföldun á því sem gert er ráð fyrir í forsendum frumvarpsins. Það staðfestir enn eina ferðina hversu litla virðingu margir bera fyrir fjárhagslið málanna.

Maður staldrar líka við, og það kemur skýrt fram í áliti meiri hlutans og blasir við öllum sem lesa frumvarpið og kynna sér það, þann kostnaðarauka sem er til viðbótar. Kostnaðarauki hjá Náttúrufræðistofnun er metinn á 9 millj. kr. en þegar Náttúrufræðistofnun sjálf er ugglaust búin að fara yfir það og nefndin breytast þær 9 millj. kr. í 49 millj. kr. Það er allt á sömu bókina lært. Og þá er ég að tala um kostnaðaraukann á fyrsta ári, 49 millj. kr. bara hjá Náttúrufræðistofnun. Síðan stendur maður frammi fyrir því að gildistaka laganna er nú á miðju ári og enn eina ferðina á að fara að samþykkja lög sem engar fjárveitingar eru fyrir á fjárlögum ársins. Það eru engar fjárveitingar á árinu 2013 í þetta mál. Ef menn halda því fram að undirbúningurinn sé svo vandaður og góður og hafi staðið yfir í langan tíma, í umhverfisráðuneytinu og á vegum hæstv. umhverfisráðherra, þá blasir við að þetta hefði átt að vera í fjárlagatillögu umhverfisráðuneytisins fyrir árið 2013 en ekki er gert ráð fyrir því. Það kemur bara fram í meðferð nefndarinnar að þetta kosti þessa tugi milljóna til viðbótar.

Svo ætla menn að fara að ræða það hér að hægt sé að koma einhverjum rammafjárlögum á. Það er óvinnandi vegur á meðan svona er gengið um ríkisfjármálin, algerlega útilokað mál. Ég spurði í andsvörum áðan út í mjög sérkennilegan texta frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, þar sem sagt er að að mati umhverfis- og auðlindaráðuneytisins ríki óvissa um kostnaðaráhrif frumvarpsins á sveitarfélögin. Síðan er þetta afgreitt á þann veg að gert sé ráð fyrir auknu samstarfi við þau í frumvarpinu. Hvað segir þetta manni? Þetta segir mér akkúrat ekki neitt og það er nokkuð merkilegt í ljósi þess að það er alveg klárt — nýbúið að samþykkja lög á Alþingi, var reyndar gert 2012 — að ekki er heimilt að leggja fram lagafrumvörp hér öðruvísi en fyrir liggi kostnaðarmat á milli ríkis og sveitarfélaga eða hvaða áhrif samþykkt frumvarpsins hefur á fjárútlát sveitarfélaganna. Það er í lögum sem Alþingi samþykkti 2012. Af hverju skyldi það hafa verið gert? Jú, það var vegna þess að deilur höfðu staðið yfir í áraraðir ef ekki áratugi. Mörgum sinnum á þessu kjörtímabili hafði Alþingi samþykkt lög og sett aukinn kostnað yfir á sveitarfélögin en sveitarfélögin og forsvarsmenn þeirra höfðu mótmælt þeim vinnubrögðum í mjög langan tíma. Til að bregðast við því voru sett lög til að stoppa slíka vitleysu af. Það er bannað að leggja fram frumvörp og afgreiða þau öðruvísi en láta kostnaðarmeta þau gagnvart sveitarfélögunum. En samt stendur þessi texti í þessu frumvarpi sem saminn er og lagður fram eftir að búið er að samþykkja þau lög á Alþingi.

Þetta staðfestir að mínu viti, nema maður fái svör við því hvers vegna þessi kafli er svona — og ekki er tekið á þessum hlutum í nefndarálitinu og ekki heldur í breytingartillögum meiri hlutans — að athugasemdirnar sem ég set fram eiga rétt á sér. Það er algerlega ólíðandi að vinnubrögðin séu þannig að stjórnmálamenn taki ákvarðanir sem feli í sér auknar álögur á sveitarfélögin og svo eigi sveitarfélögin bara að standa undir þeim. Ef sveitarfélögin lenda í vandræðum þá senda sömu stjórnmálamennirnir bréf frá eftirlitsnefnd sveitarfélaga vegna þess að fjárhagsáætlanir sveitarfélaga standist ekki. Þetta er gert þó að ástæðan sé einfaldlega sú að ekki er gert ráð fyrir auknum útgjöldum í fjárhagsáætlunum þessara sveitarfélaga, sem hljóta kostnaðinn, vegna laga sem samþykkt eru hér á Alþingi. Þetta er náttúrlega eintóm vitleysa, það er ekki hægt að orða hlutina öðruvísi en þeir eru. Þrátt fyrir að búið sé að setja lög til að taka á allri þessari vitleysu í gegnum öll árin þá bara virka þau lög ekki neitt fyrir sumum. Þetta er alveg furðulegt. Ég skil ekkert í þessu.

Ég benti líka á að verið er að meta ákveðna hluti í forsendum frumvarpsins af hálfu ráðuneytisins. Þar segir að kostnaður Umhverfisstofnunar sé metinn á 32 millj. kr. Svo fer nefndin yfir það, þá fer kostnaðurinn í 100 millj. kr. Svo er það sem snýr að Náttúrufræðistofnun 9 millj. kr., svo fer nefndin yfir það og það eru 49 millj. kr. Menn ganga bara um ríkissjóð eins og bandíttar (Gripið fram í: Og Landmælingar.) enda stefnir þetta allt í eintóma vitleysu og hefur gert lengi. Svo koma sömu hv. þingmenn og halda hér ræður um að búið sé að ná tökum á ríkisfjármálunum. Það er bara ekki þannig. Það er gengið um hlutina með þessum hætti og það er mjög varhugavert og ég hef varað við því í hverri ræðunni á fætur annarri.

Ríkissjóður skuldar með skuldbindingum yfir 2.000 milljarða kr. Það er verið að borga 90 milljarða í vexti bara á þessu ári. Það er verið að borga 400 milljarða á næstu fjórum árum. Það dugar ekki til. Það kemur enginn hingað og ver þetta. En stjórnmálamennirnir eru bestir í því að taka ákvörðun um að auka útgjöldin inn á næsta kjörtímabil og láta svo aðra um að borga það. Það er eins og menn hafi meiri áhyggjur af því að tryggja sjálfum sér sæti hér á Alþingi en af því hvernig reka eigi ríkissjóð í framtíðinni. — Ég sé að inn á palla Alþingis ganga nú margir ungir nemendur. Vandamálin færast á herðar þessa fólks, framtíðarlandsins. Það blasir við. Þegar ríkissjóður fer fram af hengiflugi þá lendir það á komandi kynslóðum, þeim sem eiga að taka við af þeim kynslóðum sem nú lifa. Það lendir á þeirra herðum, það er ekkert flóknara en það.

Það er hreint með ólíkindum að maður skuli enn og aftur þurfa að ræða hér fjármálakafla í hverju frumvarpinu á fætur öðru þar sem verið er að henda milljörðum, tugum milljarða, inn í framtíðina. Svo monta menn sig af því og taka skóflustungu af Húsi íslenskra fræða og alls konar svona vitleysu á sama tíma og við höfum ekki efni á að reka heilbrigðisþjónustu eða hafa almennilegt menntakerfi.

Virðulegi forseti. Nóg um það sem snýr að fjármálum frumvarpsins í bili þó að maður ætti að nota allan þann tíma sem eftir er þar sem það mál er mikilvægt. En þegar við erum í fjárlagaumræðunni hverfa hv. stjórnarliðar eins og dögg fyrir sólu, þeir taka ekki þátt í þeirri umræðu.

Þá kem ég að einstaka efnisatriðum frumvarpsins. Ég verð að segja að ég hef ekki séð — ekki á mínum langa þingferli heldur stutta, eitt kjörtímabil — svona viðamiklar breytingartillögur við eitt frumvarp. Þær eru sjö blaðsíður breytingartillögurnar við frumvarpið sjálft, sjö blaðsíður við eitt frumvarp. Hvernig getur það þá stemmt, ef hæstv. ráðherra heldur því fram að undirbúningurinn sé svona góður, að breytingartillögur frá meiri hlutanum séu upp á sjö blaðsíður og það þrátt fyrir mjög alvarlegar ábendingar um að ekki sé nægilega mikið tekið mark á þeim umsögnum sem nú þegar hafa verið lagðar fram? Þetta staðfestir að vinnu meiri hlutans ber að þakka og ekki bara meiri hlutans heldur allra hv. þingmanna í umhverfis- og samgöngunefnd. Þar hafa menn farið mjög ítarlega yfir málið og ef eitthvert vit væri í vinnunni og vinnubrögðunum gefur augaleið — og ég bið bara einhvern um að koma og andmæla því hér ef ég er að fara rangt með.

Þetta er frumvarp um náttúruvernd. Eru miklar deilur um náttúruvernd í þjóðfélaginu? Nei, við erum að mestu leyti sammála um að við viljum hlífa náttúrunni og ganga vel um hana. Síðan koma þessar breytingartillögur allar og þetta eru náttúruverndarlög fyrir alla Íslendinga, fyrir alla þjóðina. Væri ekki skynsamlegra — og ég spyr bara upphátt — að taka allar þessar breytingartillögur og láta taka tillit til þeirra í nýju frumvarpi og leggja það síðan fram í haust? Það gefur augaleið að frumvarpið er nánast í tætlum eftir allar þessar breytingartillögur, að minnsta kosti er búið að breyta því mjög mikið. Það er ekki mjög einfalt að setja sig inn í þetta með því að bera saman allar breytingartillögurnar og allar þær umsagnir sem borist hafa til að fá staðfest hvort búið sé að svara þeim hlutum. Ég hef borið það saman við nokkrar umsagnir og það hefur tekið mig mjög marga klukkutíma. Ég á ekki sæti í hv. nefnd, þar sitja einungis níu af 63 hv. þingmönnum. Eru það ekki skynsamlegri vinnubrögð að gera það þannig? Kallar eitthvað á að þetta frumvarp verði samþykkt núna þegar nokkrir klukkutímar eru eftir af þinginu samkvæmt starfsáætlun? Við erum að byrja 2. umr., sem er stærsta umræðan, og þinghaldinu á að ljúka á morgun eða hinn daginn — upphafleg starfsáætlunin gerði ráð fyrir að við mundum hætta á morgun en væntanlega verður það ekki fyrr en eftir helgi.

Hvað mundi gerast ef við mundum geyma þetta mál fram á haustið og setja alla hina vönduðu vinnu nefndarinnar inn í það, fá umsagnir frá þeim aðilum sem í hlut eiga og vinna nýtt frumvarp? Það eina sem mundi gerast er að vinnubrögðin yrðu vandaðri. Því til áréttingar væri kannski ágætt að fara yfir það sem gerðist í gær. Þá var verið að breyta lögum um tollalöggjöf sem voru keyrð í gegnum þingið á síðustu klukkutímunum fyrir jól og breyta þeim lögum aftur vegna þess að það þurfti að rétta af þau tollnúmer og þá hluti sem þar voru inni vegna mistaka sem voru gerð. Það er eins menn læri aldrei neitt og aldrei takist ekki að breyta vinnubrögðunum. (ÁJ: Gleymdu ekki að nefna ríkisstjórnina.) — Hv. þm. Árni Johnsen segir: Gleymdu ekki að nefna hæstv. ríkisstjórn. Það getur vel verið að ég geri það í seinni hluta ræðu minnar. En ég vil bara árétta vinnubrögðin. Af hverju skyldi maður segja að maður væri eitthvað hræddur við þetta? Er það vegna þess að maður sé eitthvað ákvarðanafælinn? Nei, ég er ekki ákvarðanafælinn maður. En ég minni bara á eitt: Þegar verið var að breyta sykurskattinum fyrir tveimur árum og hvað gerðist þá? Þá voru sett tollnúmer inn í lögin sem náðu yfir nagladekk. Verð á dekkjum undir fólksbíla hefði hækkað ef það hefði verið samþykkt. Þannig er hraðinn í vinnubrögðunum. Þegar menn fara svo að kalla eftir vandaðri og faglegri vinnubrögðum þá segja menn alltaf: Nú er stjórnarandstaðan í einhverju málþófi og einhverju röfli. Þetta er ekki þannig. Þetta gengur út á það að hafa vandaðri og skipulagðari vinnubrögð, ekki neitt annað.

Í þessari fyrstu ræðu minni — ég verð að halda mjög margar ræður til að fara yfir þetta frumvarp sem er mjög stórt og veigamikið — langar mig að byrja á að fara yfir umsögn sem barst frá Landssambandi veiðifélaga. Þar kemur margt mjög áhugavert fram eins og í þeim mörgu umsögnum sem bárust, bæði þar sem bent er á það sem mætti bæta inn í lögin og það sem mætti breyta í lögunum. Ég fer að bera þetta saman við breytingartillögupakkann hjá nefndinni og staldra þar við ýmislegt. Í fyrsta lagi gera þeir alvarlegar athugasemdir við að samráð skorti við framlagningu þessa máls og það hefur komið fram að margir aðrir gerðu það. Hvað er Landssamband veiðifélaga? Er það bara hópur fólks sem vill skemma landið? Nei, það er ekki þannig. Það er nefnilega hópur fólks og hópur landeigenda sem hefur veiðirétt og hefur hagsmuni af því að verja landið. Þeir gera þessa athugasemd, með leyfi forseta:

„Landssamband veiðifélaga lýsir sérstakri andstöðu við að það ákvæði sem fram kemur í 1. mgr. 19. gr. Greinin felur í rauninni í sér rétt almennings til að njóta stjórnarskrárvarinna eigna annarra.“ — Þarna staldrar maður við, „stjórnarskrárvarinna eigna annarra“. — „Heimildir greinarinnar um óskilgreindan rétt manna til dvalar innan eignarlanda gengur augljóslega gegn rétti landeigenda sem tryggður er í mannréttindasáttmála Evrópu, um rétt manna til að njóta eigna sinna. Í þessu sambandi verður einnig að líta til stóraukins fjölda ferðamanna til landsins en þeir njóta að sjálfsögðu réttinda á grundvelli þessarar greinar.“

Ég leita síðan í breytingaskjalinu eftir því sem hér er og þá finn ég ekki neinar breytingar á 19. gr. sem snýr að þessum hluta. Í nefndaráliti 1. minni hluta, sem hv. þm. Ásmundur Einar Daðason er flutningsmaður að, er reyndar sett spurningarmerki við þessa hluti. Ekkert er alhæft í því nefndaráliti heldur sett spurningarmerki. Þetta er auðvitað hlutur sem enginn vafi má leika á. Það má ekki vera neinn vafi um það hvort þetta frumvarp gangi gegn stjórnarskránni. Ég treysti mér ekki til að kveða upp úr um það hvort þetta sé rétt ábending hjá þessum ágætu aðilum eða hvort ekki þurfi að hafa áhyggjur af því. En hins vegar er mikilvægt að þetta verði skoðað sérstaklega og hefur væntanlega verið gert í nefndinni. Ég treysti því en engin breyting í þessa veru kemur inn í breytingartillöguna en ég geng út frá því að nefndin hafi unnið þetta þannig. Þarna staldrar maður skarpt við, það sem snýr að þessum hlutum.

Síðan kemur önnur ábending sem er nú kannski ekki spaugileg en getur orðið spaugileg ef maður leiðir hugann að málsatvikum. Ég ætla að fá að vitna, með leyfi forseta, orðrétt í umsögnina:

„Landssamband veiðifélaga gerir alvarlega athugasemd við ákvæði 21. gr. frumvarpsins um rétt almennings til umferðar og baða í ám og vötnum, en laxveiðiár falla undir skilgreiningu sem vötn í frumvarpinu. Landssambandið telur nauðsynlegt að almenningur geti ekki talið til þess réttar sem frumvarpið geymir í ám og vötnum og á þeim tíma sem stangveiði er stunduð.“

Þess vegna var ég að hugsa að þetta gæti verið spaugilegt; að þegar menn væru að renna fyrir fiski í á kæmu þar einhverjir og hoppuðu út í og færu að baða sig.

Í umsögninni er lögð til svohljóðandi breytingartillaga, með leyfi forseta:

„Lagt er til að eftirfarandi setning bætist við frumvarpsgreinina: Framangreindar heimildir gilda þó ekki um vötn sem nýtt eru til stangveiða um veiðitíma.“

Mér þótti þetta nokkuð góð ábending frá Landssambandi veiðifélaga og taldi þetta flokkast undir almenna skynsemi, þ.e. að þeir sem stunda laxveiðar — hingað kemur mikill fjöldi útlendinga til að vera hér í ró og næði og veiða lax — geti ekki átt von á því að heilu og hálfu rúturnar af fólki komi og stökkvi nánast út í hylinn sem þeir eru að veiða í. Mér hefði fundist rökrétt hjá hv. þingmönnum meiri hlutans að bregðast við þessari setningu og setja hana svona inn, þá hefði það mál bara verið úr sögunni eða svo langt sem það nær. En meiri hlutinn gerir þá breytingartillögu, með leyfi forseta, að við bætist:

„… og böð í grennd við veiðistaði.“

Og hvenær er maður í grennd við veiðistaði? Eru það 10 m, 50 m, 100 m, 200 m — hvað þýðir þetta? Og þegar kvartað er undan þessu og klagað, hvernig á þá að meðhöndla ákvæðið? Hefði ekki verið einfaldara, það hefði að minnsta kosti verið það mínu mati, að bregðast við þessari fínu ábendingu Landssambands veiðifélaga en einhvern veginn sá ég ekki fyrir mér að þetta mundi svara þessum hluta. Það eru allir sammála um að það getur ekki gengið að hálfu og heilu rúturnar séu að stökkva út í laxveiðiár þegar búið er að markaðssetja þær. Það kostar mjög mikla peninga fyrir útlendingana að koma hingað og það gefur algerlega augaleið að þannig getur þetta ekki verið.

Mér fannst líka nokkuð áhugavert — ég næ ekki að átta mig á því og ég get ekki séð það í breytingartillögunum, ég ætla samt ekki að fullyrða það, það er hættulegt þegar maður hefur ekki náð að kynna sér þetta nægilega vel. Ég hef ekki rekist á það í breytingartillögu meiri hlutans en ég ætla ekki að útiloka neitt í því og væri ágætt ef hv. formaður nefndarinnar, eða einhver sem á sæti í henni, gæti upplýst mig um það. Það koma nefnilega áhugaverðar ábendingar frá Landssambandi veiðifélaga sem ég staldra við þar sem bent er á tvo þætti sem mætti setja inn í frumvarpið sem gætu orðið liður í því að efla vernd náttúrunnar. Ég ætla að fá að vitna í fyrra atriðið, með leyfi virðulegs forseta:

„Þá vantar ákvæði í lög um húsbíla sem ferðamenn flytja til landsins vegna þeirrar hættu sem stafað getur af vatnsgeymum og vatnsbirgðum sem með þeim kunna að verða flutt. Íslenskt vistkerfi í ám og vötnum er algjörlega óvarið gegn framandi sníkjudýrum sem leynast kunna í innfluttu vatni með slíkum farartækjum. Þarna er mikil hætta á ferðum eins og dæmin sanna þegar sníkjudýrið Gyrodactylus var flutt til Noregs með þeim afleiðingum, að nú eru þar yfir 40 laxveiðiár laxlausar af þeim sökum.“

Þetta er eitthvað sem ég hef ekki náð að átta mig á en ég get ekki séð í fljótu bragði hvort brugðist hefur verið við þeirri ábendingu sem þarna kemur fram, ég sé ekki umfjöllun um það. Auðvitað eru allir sammála um að bregðast þurfi við ef þessi hætta er fyrir hendi — hún er það klárlega að mati þessara aðila sem þekkja mjög vel til þessara hluta. Við þurfum ekki að fara mjög langt aftur í tímann þegar hingað bárust með kjölfestuvatni flutningaskipa — það er til dæmis álitið að flundra hafi borist hingað vegna þess að menn voru að dæla í sjóinn, þegar þeir fóru að ferma skipin og losuðu sig við ballestina við komuna til landsins. Ég hefði viljað sjá betur fjallað um þessa hluti og jafnvel að brugðist yrði við af því að ég get ekki séð í fljótu bragði að við þessari ábendingu sé orðið.

Ég vil nefna aðra ágætisábendingu sem ég er algerlega sammála og hef ekki legið á þeirri skoðun minni. Ég vil leyfa mér að vitna beint í umsögnina, með leyfi virðulegs forseta:

„Landssambandið gerir alvarlegar athugasemdir við að í því frumvarpi sem nú liggur fyrir Alþingi, er ekki að finna ákvæði um skyldu hins opinbera til að verja náttúru landsins gegn ágengum tegundum, svo sem tófu og mink. Þessum dýrategundum hefur fjölgað mikið undanfarin ár og ógna jafnvægi í dýralífi landsins. Á slíkum þáttum þurfa ný lög um náttúruvernd að taka öðru fremur. Þá má einnig benda á hin ósýnilegu verðmæti sem óðum eru að rýrna, svo sem þekkingu landsmanna á örnefnum landsins. Skrásetning örnefna og varðveisla upplýsinga um staðsetningu þeirra á að vera snar þáttur í vernd náttúruverðmæta.“

Ég get tekið undir þær ábendingar sem þarna koma fram. Við þekkjum kannski flestöll ef ekki öll þá vá sem stafar af tófunni og minknum — þó að manni sé auðvitað sýnu verra við minkinn en tófuna svo að það fari ekki á milli mála. En þetta er mjög þörf ábending. Af hverju skyldi þetta ekki vera inni til að vernda náttúruna?

Við skulum líka ræða það sem snýr að votlendinu, um mikilvægi þess að vernda votlendið. Við gengum í það í áratugi að moka upp skurðum og fara að rækta land og þurrka og síðan fara menn í að grafa ofan í það aftur til að endurheimta votlendið. Þá hefur maður spurt, kannski bæði í gríni og alvöru: Hvaða gagn er í því að endurheimta votlendið? Jú, það er til að skapa umhverfi fyrir þær mikilvægu fuglategundir sem þar eru, það gefur augaleið. En síðan er tófan bara látin vaða um og éta þær jafnóðum í votlendinu. Maður sér ekki hvernig markmiðin eiga að ná að ganga fram. Það er ekkert gagn að því, ef menn ætla að halda jafnvægi í náttúrunni, að endurheimta fyrst votlendið til að fuglarnir hafi umhverfi til að búa við og dafna í og vaxa en síðan kemur bara refurinn og étur allt upp. Það má eiginlega segja að verið sé að búa til forðabúr fyrir refinn.

Ég tek líka undir athugasemdina um þekkingu landsmanna á örnefnum, um skráningu örnefna og varðveislu upplýsinga um staðsetningu þeirra. Þetta er gríðarlega mikilvægur þáttur. Ég held að á síðustu áratugum — sú kynslóð sem er fædd um 1930 eða 1940 eða jafnvel fyrr, það er fólk sem þekkir örnefnin. Miklum verðmætum hefur verið bjargað og ég þekki það til dæmis í minni heimabyggð að undir forustu einstaklinga og Lionsklúbbanna í sveitarfélaginu hafa menn farið í mjög mikla gagnasöfnun og reynt að safna þessum upplýsingum hjá þeim aðilum sem til þekkja, það eru auðvitað ómetanleg verðmæti fyrir komandi kynslóðir. Ég held að það hefði verið gott ef við hefðum sett þetta inn líka. Það hefði verið gott að gera átak í þessum málum. Fram hjá því verður ekki horft að þessi þekking er því miður að hverfa með þeirri kynslóð sem þekkir til.

Þetta eru mjög þarfar ábendingar. Ég verð að segja það fyrir mitt leyti að mér finnst ekki hafa verið tekið nægilega mikið tillit til þessar fínu ábendinga frá þessum eina aðila sem ég hef skoðað og farið yfir í þessari ræðu, þ.e. frá Landssambandi veiðifélaga.

Svo er það annað mál sem okkur ber skylda til að leiða hugann að: Fólk sem stundar útivist er búið að safna 16 þúsund undirskriftum vegna þess að það vill ekki að frumvarpið verði samþykkt eins og það liggur fyrir og gerir mjög alvarlegar athugasemdir við margt sem hér er. Væri nú ekki hollt að staldra aðeins við? Ég er ansi hræddur um það. Mín reynsla af útivistarfólki, hvort sem það eru 4x4 eða aðrir þeir klúbbar sem þar eru innan borðs, er sú að þetta sé akkúrat fólkið sem ber mestu virðingu fyrir náttúrunni. Þetta er fólk sem er að ferðast um, þekkir best til og veit hve mikilvægt er að vernda náttúruna. Þetta fólk gengur mjög vel um og hefur unnið ómetanlegt starf við að skipuleggja og kortleggja slóða. Ég gæti lengi talið það upp sem þetta fólk hefur gert í sjálfboðavinnu með það að markmiði að vernda landið. Þetta fólk hefur ekkert annað markmið. Ef þessi hópur gerir athugasemdir við frumvarpið þá eru það að minnsta kosti mín fyrstu viðbrögð að taka þau sjónarmið mjög alvarlega því að þetta fólk veit nákvæmlega um hvað það er að tala.

Í upphafi ræðu minnar, og ég ætla að fjalla ítarlegar um það, kom ég inn á það sem snýr að Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Við gerum okkur grein fyrir því að það er hitt stjórnsýslustigið í landinu og það þarf að vera samnefnari, samstaða og samvinna á milli ríkis og sveitarfélaga um hvernig menn standa að náttúruverndarlögum og framkvæmd þeirra. Þaðan kemur athugasemd og þá hljótum við að staldra við. Við hljótum að staldra við þegar Samband íslenskra sveitarfélaga sendir mjög ítarlega umsögn en tillit hefur verið tekið til sumra athugasemda í þessu mikla nefndaráliti og í breytingartillögu meiri hlutans. Í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga, sem er samnefnari fyrir öll sveitarfélög í landinu, segir, með leyfi forseta:

„Sambandið leggur áherslu á að hér er ekki um að ræða þingmál sem getur sætt flýtiafgreiðslu á þeim stutta tíma sem er til þingloka enda felur frumvarpið í sér róttækar breytingar á gildandi löggjöf um náttúruvernd og í því eru mörg mikilvæg álitaefni sem þarfnast umræðu og kynningar.“

Þetta kemur frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga sem er samnefnari allra sveitarfélaga á landinu. Er ekki æskilegt að staldra aðeins við þetta? Ég hefði haldið að það væri mjög mikilvægt.

Væri ekki skynsamlegra að taka allar þær athugasemdir sem ég hef bent á — sjö blaðsíður af breytingartillögum, hv. umhverfis- og samgöngunefnd hefur greinilega unnið vel og vandlega að málinu — og verða við þeim? Væri ekki skynsamlegra að taka ráðleggingar Sambands íslenskra sveitarfélaga, hins stjórnsýslustigsins, sem þarf að fara yfir og framkvæma lögin ásamt ríkisvaldinu, og verða við þeim? Ég held að umsagnaraðilar séu um 50 og nefndin reynir að bregðast við því. Væri ekki skynsamlegra að taka breytingartillögurnar, fela ráðuneytinu og forsvarsmönnum þess að smíða annað frumvarp sem væri þá samnefnari af þessu tvennu hér? Ég man nefnilega ekki eftir í fljótu bragði, þau fjögur ár sem ég hef setið á þingi, að hafa séð svona viðamikið skjal og breytingartillögur út af einu frumvarpi. Ég man ekki eftir því.

Það er, eins og stundum er sagt af ákveðnum þingmanni, verksvit að setja þetta hér inn, búa til nýtt mál, setja það í þá samvinnu sem óskað er eftir og taka út alla þessar deilur um hvort samráðið hafi verið mikið eða lítið og koma síðan fram með nýtt þingmál í haust sem byggir á þeirri vinnu. Það teldi ég vera skynsemi frekar en að fara að samþykkja þetta frumvarp hér á lokaklukkutímum þingsins þar sem umræðan er rétt að byrja. (Utanrrh.: Hvar eru kjammarnir?) — Hæstv. utanríkisráðherra er orðinn ... (Utanrrh.: ... orðinn svangur.) Hann er orðinn svangur og þá er hann yfirleitt viðskotaillur (Utanrrh: Nei, nei.) sem hann er nú sjaldan, en þeir verða ekki fyrr en eftir kvöldmatinn, hæstv. ráðherra. Ég verð þó að segja það, fyrst hann gengur hér í salinn, að hann á mikinn heiður skilinn fyrir að hafa stofnað þjóðgarðinn Snæfellsjökul. Það gerði hæstv. ráðherra. Hann er upphafsmaðurinn að því og skipaði þá nefnd sem þar var. Fyrrverandi þingmaður, Sturla Böðvarsson, var í forsvari fyrir því og sá um undirbúning fyrir hæstv. ráðherra. Það ber að þakka það frumkvæði hæstv. ráðherra þegar hann var umhverfisráðherra en síðan hefur nú fjarað mjög hratt undan því verkefni hjá þeim utanríkisráðherrum sem tóku við á eftir. Þeir hafa ekki verið eins staðfastir í því eins og þegar (Utanrrh.: Við stóðum saman að því.) — Já, já, það gerðum við. (Utanrrh.: Við Skúli.) Já, já, það er alveg hárrétt hjá hæstv. utanríkisráðherra.

En ég tel skynsamlegra að setja málið í þann farveg sem ég fór hér yfir. Hv. umhverfis- og samgöngunefnd hefur að mínu mati unnið mjög vel og við eigum að nýta okkur þá vinnu til þess að útbúa betra frumvarp en það sem nú liggur fyrir.