141. löggjafarþing — 103. fundur,  14. mars 2013.

náttúruvernd.

429. mál
[17:11]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður spyr réttmætra spurninga. Ég á ekki sæti í hv. umhverfis- og samgöngunefnd en ég var búinn að reka augun í þetta með þessi sex hjól frekar en fjórhjól. Ég þekki bara ekki nægilega vel til þess sem snýr að bændum og búaliði, eins og orðað er hér í breytingartillögunni, hvort það sé eitthvað þyngra eða betra eða hvort það fari betur eða verr með náttúruna. Ég treysti mér ekki til að svara því.

Í breytingartillögu meiri hlutans er líka hnykkt á því að vegna sjúkraflutninga og bjögunarstarfa þarf ekki að sæta þessum kvöðum sem koma inn í breytingartillögunum. Það er gott.

Svo ég gleymi ekki að svara fyrri spurningu hv. þingmanns blasa við manni þessar setningar um vönduð vinnubrögð og allt það. Það getur vel verið að sumum finnist þetta vönduð vinnubrögð og allt í lagi með það, við höfum misjafnt mat á því. Í frumvarpinu segir:

„Samkvæmt mati umhverfis- og auðlindaráðuneytisins ríkir óvissa um kostnaðaráhrif frumvarpsins á sveitarfélögin …“

Það ríkir óvissa sem segir okkur að ekki er búið að skoða þetta nægilega vel.

Síðan kemur alveg dýrlegt framhald:

„… en gert er ráð fyrir auknu samráði við þau í frumvarpinu.“

Það á einhvern veginn að svara þessu.

Ég fór í upphafi ræðu minnar yfir það sem snýr að því að í sveitarstjórnarlögunum sem voru samþykkt á Alþingi 2012 er pósitíft ákvæði um að nú megi ekki leggja fram frumvörp á þinginu öðruvísi en að það sé kostnaðargreint ef það varðar útgjaldaaukningu hjá sveitarfélögunum. Eins og hv. þingmaður þekkir jafn vel og ég sem gamall sveitarstjórnarmaður voru þessar deilur búnar að standa yfir í áratugi og samt voru þau með skriflegan samning um að það skyldi gert. Samt var því ekki fylgt eftir og þess vegna var það sett inn í lög.

Svo halda menn áfram að leggja fram frumvörp án þess að taka tillit til þessa.