141. löggjafarþing — 103. fundur,  14. mars 2013.

náttúruvernd.

429. mál
[17:13]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta um.- og samgn. (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa ræðu. Af því að hv. þingmaður á sæti í fjárlaganefnd langar mig að koma aðeins inn á það sem hv. þingmaður sagði um fjárveitingarnar sem gert er ráð fyrir í þetta frumvarp, hversu mikið þær eru á reiki. Eins og hv. þingmaður kom inn á er í frumvarpinu gert ráð fyrir að um 9 milljónir þurfi til Náttúrufræðistofnunar. Eftir minnisblöð sem bárust frá Náttúrufræðistofnun er upphæðin farin að hlaupa á tugum milljóna.

Það er töluverð gagnrýni í málinu á það að almennt sé verið að flytja verkefni, að Náttúrufræðistofnun taki að sér verkefni sem aðrar stofnanir ættu samkvæmt lögum að vera með. Ég nefndi í ræðu minni að til að mynda ákveðin verkefni Umhverfisstofnunar séu að flytjast yfir til Náttúrufræðistofnunar, ákveðin verkefni sem ættu að vera hjá náttúrustofunum væru hjá Náttúrufræðistofnun og að ákveðin verkefni sem ættu að vera hjá Náttúruminjasafni Íslands væru hjá Náttúrufræðistofnun. Í tengslum við vinnslu þessa máls, einkum og sér í lagi vegna þessa sem ég taldi upp, tók ég að gamni saman hvað fjárútlát til Náttúrufræðistofnunar hafa aukist frá árinu 2007 til 2013. Árið 2007 voru fjárveitingar til Náttúrufræðistofnunar 275 milljónir en árið 2013 er gert ráð fyrir því að sú tala verði komin upp í 593 milljónir, verði 600–700 milljónir á næsta ári og hafi þá hækkað úr tæplega 300 milljónum og í yfir 600 milljónir á þessum fimm árum sem eru liðin frá efnahagshruni.

Á sama tíma höfum við séð fjárveitingar til Landspítalans skornar niður um 25%. Mig langaði að spyrja hv. þingmann út í þessar fjárveitingar og almennt þær hækkanir sem hafa verið til Náttúrufræðistofnunar af því að hann á sæti í fjárlaganefnd. Getur hann upplýst með hvaða hætti þetta hefur verið og til hvaða verkefna þessar hækkanir hafa runnið?

Það kom mér mjög á óvart að sjá svona gríðarlegar hækkanir til þessarar einu ríkisstofnunar meðan allar aðrar taka á sig niðurskurð í þjóðfélaginu, í heilbrigðiskerfinu, menntakerfinu, (Forseti hringir.) velferðarkerfinu og á öllum öðrum sviðum.