141. löggjafarþing — 103. fundur,  14. mars 2013.

náttúruvernd.

429. mál
[18:29]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Eins og gefur að skilja eru mörg atriði í ræðu hans sem ég hefði viljað ræða við hann. Hann ræddi sérstaklega um umsögn Bændasamtakanna, þar með taldar allmargar athugasemdir þeirra. Eins og þingmanninum er kunnugt um er annaðhvort beint í nefndarálitinu eða í lagabreytingum með frumvarpinu tekið tillit til langflestra athugasemda sem koma fram í umsögn Bændasamtakanna. Nú ætla ég að eftirláta hv. þingmanni að finna það atriði sem við breyttum ekki í samræmi við vilja Bændasamtakanna.

Skilgreiningin á ræktuðu landi, eins og hún kemur fram í breytingartillögunni, er orðrétt fengin frá Bændasamtökunum. Við leituðum ráða hjá Bændasamtökunum til að fá þessa skilgreiningu, hún er tekin orðrétt frá þeim fyrir utan athugasemdina um sumarbústaðalönd. Ég spyr þá hv. þingmann: Hefði honum þótt eðlilegra að við breyttum því bara af því að okkur líkaði ekki vel við það sem Bændasamtökin voru að segja? Er það málið? Áttum við sem sagt að leita eftir ráðleggingum og fara ekkert eftir þeim? Er það samráðið sem hv. þingmaður er að fara fram á að sé viðhaft?

Maður getur ekki ætlast til þess að haft sé samráð og komið svo í ræðustól þegar menn fara eftir samráðinu og sagt: Nei, þetta samráð var ekki nógu gott.

Það gengur ekki og ég mun beina öðrum spurningum til hv. þingmanns í seinna andsvari mínu.