141. löggjafarþing — 103. fundur,  14. mars 2013.

náttúruvernd.

429. mál
[18:38]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og ég sagði í andsvari eða ræðu, ég man ekki orðið hvort er hvað í þessu, verður þetta að vera alveg skýrt og ljóst með björgunarsveitirnar. Þær þurfa að hafa aðgang að umhverfi sem hæfir öllum þeim fjölbreyttu aðstæðum sem þessar hetjur okkar — ég ætla að leyfa mér að kalla þær það — lenda í og leggja mikið á sig til að geta bjargað og hjálpað fólki. Fyrir nokkrum dögum slasaðist vélsleðamaður úr björgunarsveit við æfingar en það er bara dæmi um það hversu mikilvægt starf þeirra er. Því þurfa þessar sveitir að hafa rétt umhverfi til að æfa sig á og þjálfa sig.

Ég verð að viðurkenna að ég staldraði aðeins við það sem hv. þingmaður benti á í andsvari sínu, að þegar lagfæra þarf eða viðhalda neyðarskýlum og skálum þarf sérstakt leyfi í hvert skipti. Það kann vel að vera að menn líti svo á að þessi verkefni séu þannig að það sé ekkert tiltökumál að sækja um leyfi ef þarf að festa þak á skála eða neyðarskýli sem er við það að fjúka af. Ég hefði hins vegar talið betra að þessi heimild væri almenn til þeirra aðila sem þessu sinna því að einhvern veginn hef ég trú á að þeir sem eru með neyðarskýli og skála og sinna þeim séu hinir sömu og er treyst fyrir öðrum hlutum í þessu frumvarpi. Þar af leiðandi finnst mér sérstakt að taka þetta svona út.