141. löggjafarþing — 103. fundur,  14. mars 2013.

náttúruvernd.

429. mál
[19:27]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni hlýlegan tón í svari sínu en mig langar í seinna andsvari að koma aðeins inn á tvö atriði, þrjú ef ég hef tíma til. Í fyrsta lagi varðandi það sem hv. þingmaður sagði um slóðana í kortagrunninum, hvort þeir ættu að vera inni eða úti, er rétt hjá þingmanninum að um þetta hefur farið fram mjög mikil umræða. Við ræddum það ítarlega í nefndinni og raunar var þetta líka rætt ítarlega í aðdraganda samningar frumvarpsins. Upprunalega hugmyndin var að hafa ekki þá slóða inni sem væru ekki ætlaðir til reglubundins aksturs en þær ágætu ábendingar komu fram að það væri mikilvægt, til að mynda fyrir björgunarlið, að slíkra slóða væri að minnsta kosti í einhverju getið. Hins vegar má færa það út annaðhvort í reglugerð eða almennri kortagerð eða reglugerð um kortagerðina hvort slíkir slóðar eigi að fara inn á almenn kort eða hvort þeir eigi eingöngu að vera í kortagrunninum. Það er úrvinnsluatriði að mínu mati og mér þætti gaman að heyra skoðun þingmannsins á því.

Varðandi það sem hv. þingmaður nefndi með náttúruminjaskrána sem er getið um í nokkrum greinum er einmitt mjög góð ábending hjá þingmanninum að það er ein af grundvallarbreytingunum sem við gerum á frumvarpinu. Í upprunalega frumvarpstextanum er talað um framkvæmdaáætlun um náttúruminjaskrá. Við viljum að þarna sé um að ræða þingsályktunartillögu þannig að þingið afsali sér ekki þeim rétti að fá að taka afstöðu til þessa máls. Mér fannst mikilvægt að benda á þetta til skýringar, frú forseti.