141. löggjafarþing — 103. fundur,  14. mars 2013.

náttúruvernd.

429. mál
[20:04]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Það mál sem hér er til umræðu er mikið að vöxtum eins og margoft hefur komið fram í umræðunni í dag. Ég hef átt þess kost á undanförnum mánuðum að fylgjast nokkuð með umræðum Samtaka útivistarfélaga, Samút, um það frumvarp sem þá lá fyrir og hef raunar hitt fjölda einstaklinga sem hafa verið innan vébanda þeirra samtaka í ýmsum félögum. Einnig hef ég hitt fólk sem er mjög áhugasamt um þau efni sem frumvarpið tekur til, þ.e. til verndunar náttúru, ferðafrelsis og hvað eina sem að þessum efnum lýtur. Þetta hafa verið ákaflega fróðleg skoðanaskipti og í rauninni ánægjulegt að finna og upplifa þá sýn sem þetta ágæta fólk hefur til landsins og áhugamál sín sem er að eiga sem frjálsasta för um okkar ágæta land. Ég held ég geti sagt að viðhorf þorra þeirra einstaklinga sem ég hef mætt og átt samskipti við og samræður um þessi efni hefur helgast af því að vitnað er til almannaréttarins og þeirrar hefðar sem fyrir honum er í íslenskum rétti gegnum aldirnar. Ég held ég geti dregið viðhorf þessa ágæta fólk saman í þá setningu að viðhorf þeirra til þessa máls helgast af því að náttúra Íslands sé sameiginleg gæði allra landsmanna sem þeim sé öllum jafnfrjálst að nota. Það er svona grundvallarstefið sem það fólk heldur fram, að náttúra Íslands sé sameiginleg gæði allra Íslendinga og öllum sé jafnfrjálst að njóta hennar.

Að því gefnu að það sé rétt mat hjá mér og ég þykist skynja eftir viðtöl mín við þetta ágæta fólk þá get ég á sama hátt sagt að upplifun mín af þeim viðhorfum þeirra er sú að það fólk hefur jafnframt afskaplega skýra sýn til þess að það ber um leið að gera þá kröfu og þá skyldu til allra sem vilja njóta íslenskrar náttúru að umgangast hana af virðingu og tillitssemi, náttúruna sjálfa, sem og landeigendur og þá sem um þessi mál véla. Það er það viðhorf sem fólkið hefur borið í brjósti til allra þeirra sem vilja njóta þeirra gæða sem náttúran býður.

Það sem mér þykir eða þótti í rauninni svo einkennilegt þegar ég kom fyrst að málinu var það hversu einbeittur þessi hópur var í því að bera upp þá skoðun sína að það frumvarp sem lagt var fram væri á margan hátt þess eðlis að það gengi gegn þeim ríka rétti sem einstaklingarnir töldu sig hafa til að ferðast um landið okkar. Þegar maður fór að kynnast þessu nánar kom upp úr kafinu að sá hópur — náttúruverndarsinnar sem ég kalla svo, þó að þeir séu í Samút — er fyrst og fremst fólk sem unnir náttúrunni og vill veg hennar sem mestan. En viðhorf þess var að undirbúningurinn að málinu var með þeim hætti að því var ofboðið, hvernig málið var unnið og vísaði oftar en ekki til þeirrar undirstöðu sem frumvarpið hvílir á, sem er hin svokallaða hvítbók.

Um það má örugglega hafa mörg orð, ég ætla í sjálfu sér ekki að eyða löngum tíma í það efni. En þó vil ég segja um samningu hvítbókarinnar og viðhorf þessa hóps til hennar að fólk telur sig lítt hafa komið að þeirri undirbúningsvinnu og því síður var því gefinn tími til þess, Samút-félögunum, að gera athugasemdir við hið 500 síðna plagg sem hin svokallaða hvítbók er. Mat þeirra er einfaldlega það að þeir hafi fengið allt, allt of skamman tíma til að gera athugasemdir við grunnvinnuna að því frumvarpi sem við erum að fjalla um.

Einnig sagði þetta ágæta fólk, og heldur því fram, það liggur raunar fyrir í umsögnum og vitneskjan öll um að það hafi fengið fáa daga til þess að gera athugasemdir við drögin að frumvarpinu, einungis örfáa daga. Það er meðal annars af þeim ástæðum sem andstaðan við þetta verkefni hefur verið svo rík í þeim hópi sem við sjáum staðfestast í því að 16 þúsund einstaklingar skrifa undir opinn vef þeirra til að leggja nafn sitt við það að hvetja Alþingi til að rasa ekki um ráð fram og geyma eða gefa sér rýmri tíma til afgreiðslu málsins.

Um það eru örugglega mjög skiptar skoðanir, bæði meðal stjórnarliða og stjórnarandstöðunnar á þingi. Þó held ég að við viljum öll vanda sem mest við getum til þessa verks, það er nauðsynlegt í mínum huga. Þær röksemdir hafa heyrst hér í kvöld og í umræðunni í dag að breytingarskjalið frá hv. umhverfis- og samgöngunefnd sé mikið að vöxtum. Þar er að finna gríðarlegan fjölda breytingartillagna við það frumvarp sem tekið var til 1. umr. Sú breytingartillaga ber vott um að nefndin leggur sig fram um að vinna góða vinnu, en maður skyldi ætla að slíkur fjöldi breytingartillagna við frumvarpið gefi fullt tilefni til þess að gefa þeim sem sendu inn athugasemdir færi á því að tjá sig um þær breytingartillögur sem gerðar eru. Málið er mikið að vöxtum, þetta er gríðarlega mikilvægt mál fyrir alla aðila, hvort heldur þeir eru að knýja fram breytingar á náttúruverndarlögunum eða ekki, og ekki síður hina sem hafa lagst gegn þessu. Mjög mikilvægt er að búa til þessa svokölluðu sátt og sem mesta um það sem við viljum fá fram í þeirri lagasetningu sem hér er stikað inn í.

Ég hef sagt að átakaásinn í málinu snúist fyrst og fremst um það með hvaða hætti og hvernig við viljum takmarka ferðafrelsi og frelsi til ferðalaga á Íslandi. Ég er þeirrar skoðunar að frumvarpið og þær áherslur sem í því eru séu þess eðlis að þar sé verið að færa frá einstaklingnum, sem vill ferðast um sitt land, alla ábyrgð til opinberra stofnana, annaðhvort Umhverfisstofnunar, Náttúrufræðistofnunar Íslands eða þá umhverfisráðherra. Að þeim opinberu stjórnvöldum sé ætlað hálfpartinn að hugsa eða taka ákvarðanir fyrir einstaklingana í stað þess að þeir beri ábyrgð á gerðum sínum alfarið sjálfir.

Í því efni vil ég leyfa mér að vitna til einnar breytingartillögu sem ég gerði að umtalsefni í andsvari í dag sem lýtur að 31. gr. og snýst um akstur utan vega. Á einum af þeim fundum sem ég gat um í upphafi ræðu minnar kom fram athugasemd frá fulltrúa eins ferðafélags úti á landi sem laut að því að það ferðafélag vildi fá heimildir til að endurnýja skála sinn í nágrenni Herðubreiðar. Það var mikil þrautaganga og því var vísað fram og til baka í kerfinu. Ég efast raunar um að heimildin sé komin enn einfaldlega vegna þess að samkvæmt reglunum sem gilda um þjóðgarðinn sem þarna á við var óheimilt að fara yfir landið til að endurgera þann skála sem um ræddi.

Þetta atriði ásamt fleirum er nú komið í 31. gr. greinilega með það fyrir augum að reyna að bæta úr slíkum vanköntum sem upp hafa komið í vinnu nefndarinnar. Þar er verið að telja upp ákveðna þætti sem heimilt er að veita undanþáguákvæði frá, því ákvæði sem bannar utanvegaakstur til ýmissa athafna, línulagna, veitulagna, björgunarstarfa, löggæslu o.s.frv. Þar er líka meðal annars nefnt, með leyfi forseta, „viðhald skála og neyðarskýla með sérstöku leyfi Umhverfisstofnunar.“ Ég staldra örlítið við þetta tiltekna atriði sem lýtur að því að viðhalda eigum utan alfaraleiðar.

Þetta eru byggingar, í þessu tilfelli skálar og neyðarskýli, sem eru háðar byggingareftirliti sveitarfélaga sem bera þá ábyrgð og skyldur gagnvart ríkisvaldinu og síðan þeim sem sækja á um breytingar eða byggingar, eða viðhald í þessu tilfelli. En þarna er verið að skjóta inn í þetta ákvæði því atriði að annar opinber starfsmaður í ríkisstofnun þurfi í rauninni að leggja yfir það blessun sína. Umhverfisstofnun þarf að leggja yfir það blessun sína og heimila eða hafna ósk frá eiganda eða umráðamanni skála eða neyðarskýlis, hvort heldur það eru einstaklingar með skála eða samtök ferðafélaga eða frjáls félagasamtök. Umhverfisstofnun þarf með öðrum orðum að taka afstöðu til þess hvort leyfa eigi umferð utan vega, eins og kallað er, til að framkvæma hin sjálfsögðu verk sem þarna um ræðir.

Þetta er atriði sem mér hugnast lítt. Ég hefði talið að það mætti þá miklu fremur vera með reglur sem segðu til um það fyrir félagasamtök eða einstaklinga svo að þeir gætu þá áttað sig einfaldlega á því hvað væri heimilt og hvað ekki. En þetta er lagt í eitthvert mat opinberrar stofnunar án þess að fyrir liggi eftir hvaða reglum viðkomandi stofnun, í þessu tilfelli Umhverfisstofnun, á að starfa og meta þær beiðnir sem upp kunna að koma. Með sama hætti, eins og það er óljóst, er reynt að skauta fram hjá því þannig að ráðherra sé falið það vald og hann skuli, að vísu að undangengnum tillögum frá Umhverfisstofnun, kveða á um í reglugerð undanþágur frá banni samkvæmt þessum lið. Það er engin nánari lýsing í þessum efnum hvert á að vera innihald þeirrar undanþágureglugerðar og sömuleiðis er kveðið á um undanþágur í þessari lagagrein sem unnt er að veita af hálfu Umhverfisstofnunar „vegna annarra sérstakra aðstæðna, svo sem fötluðu fólki“ og þá skal ráðherra sömuleiðis ákveða í reglugerðinni einhver skilyrði fyrir slíkum undanþágum. Þar er fötluðum einstaklingum gert að sækja um til opinberrar stofnunar hvort þeir eigi og megi eiga frjálsa för um Ísland. Þetta er í mínum huga algerlega ólíðandi staða sem fatlaður einstaklingur er settur í, að hann hafi ekki nokkur einustu tök á því að ákveða það sjálfur hvort hann vilji fara frá stað A til B heldur þarf hann í rauninni að sækja um það til ríkisstofnunar hvort honum sé yfir höfuð heimilt að ferðast um landið.

Þetta er ekki æskileg nálgun að mínu mati og langt frá því að vera sæmandi. Ég tel einboðið og ég geri í rauninni kröfu um að við göngum betur frá málum fatlaðra einstaklinga en hér lagt er upp með. Ég hefði álitið að þetta væri málefni sem væri mjög þarft að finna aðra lausn á en hér er boðið upp á, því að þetta er ekki lausn heldur er verið að skjóta þessu „vandamáli“ til ríkisstofnunar og fela henni eitthvert allsherjarvald í þeim efnum.

Ég hefði álitið til muna eðlilegra og betra að Alþingi setti þær reglur sem um þessi mál ættu að gilda, og annaðhvort giltu sömu ferðareglur um fatlaða einstaklinga og aðra einstakling í landinu eða ekki. Hér sýnist mér málið liggja þannig fyrir að skjóta eigi fötluðum einstaklingum í einhvern annan hóp með tilliti til ferðalaga eða ferðafærni og það er að mínu mati ekki viðunandi staða.

Ég nefndi það einnig varðandi þá tilhneigingu sem ég þykist skynja í frumvarpinu sem lýtur að því að efla miðstýringuna, þ.e. að reyna að takmarka utanvegaakstur og ég kem að því síðar í ræðu minni. Það er annað sem lýtur líka að takmörkunum og snýr að takmörkun gangandi fólks um landsvæði. Í 19. gr. frumvarpsins er sett inn heimildarákvæði þar sem stjórnvöldum er heimilt að takmarka för fólk um landsvæði á einhverjum forsendum sem ekki eru raktar í frumvarpinu. Mér þykir hið opinbera vera farið að færa sig ærið djúpt inn í alræðið þegar við erum farin að horfa upp á það í þessari frumvarpssmíð að íslensk stjórnvöld ætli að fara að setja hömlur á ferðir gangandi fólks um tiltekin landsvæði.

Ég leyfi mér að fullyrða að það er einnig nýmæli það sem lýtur að almannarétti og kemur fram í 18. gr. ef ég man rétt, þar sem gerð er að minni hyggju mjög jákvæð og markverð breyting sem lýtur að því að almenningur eigi rétt til þess að hafa frjálsa för um vegi og vegslóða þar sem akstur er heimill samkvæmt kortagrunni sem kallaður er. Það er ákvæði sem er til mikilla bóta og greinilegt að ríkur vilji er til þess að mæta þeim óskum sem uppi voru á fjölmörgum fundum sem haldnir voru um þessi mál. Það er vel og það ber að virða. Ég er síður hallur undir þá takmörkun sem verið er að setja í 19. gr. og teldi í það minnsta að skýra þyrfti það mun betur en gert er í frumvarpinu.

Ég minntist áðan á 31. gr. sem laut að ákvörðun Umhverfisstofnunar. Ástæða er til að nefna annað atriði varðandi 31. gr. sem varðar akstur utan vega. Ljóst er að þar er sömuleiðis verið að reyna að mæta óskum um breytingar í þeim efnum sem frumvarpið gerði ráð fyrir. Þar hefur umræðan sérstaklega orðið töluvert mikil um bændur og búalið og svo er verið að færa þetta örlítið út. Það er vel að svo sé gert.

Ég vek athygli á því að ein af höfuðröksemdunum fyrir því að ráðast í smíði þessa frumvarps var meðal annars sú að reyna ætti að stemma stigu við utanvegaakstri. Það er út af fyrir sig hið besta mál. En ég held að ástæða sé til að ræða það líka í aðeins víðara samhengi vegna þess að ég tel að umræðan um utanvegaakstur sé á margan hátt broguð. Það eru oftast nær einstaklingar, fjölskyldur, þaulvant ferðafólk sem ferðast um á fjöllum sem ber mikla virðingu fyrir náttúrunni, sama hvernig það ferðast um. Að sjálfsögðu leiða skemmdir annað slagið af utanvegaakstri vegna björgunarstarfa, línulagna, virkjana o.s.frv. en ég tel þær minni háttar, þær skemmdir sem af því stafa. Og ég hef það álit að á margan hátt þurfi að grípa til nauðsynlegra aðgerða. En ég vil síst af öllu kalla það yfir þjóðina að við þurfum að takmarka för almennings um landið á grunni slíkra skemmda sem óhjákvæmilega verða þegar við stöndum til dæmis í björgunaraðgerðum.

Ætli ekki megi fullyrða að í mörgum tilvikum sé ástæða utanvegaaksturs sú að þar sé á ferð fólk sem ekki þekkir til, fólk sem fer villt vegar í flestum tilfellum. Það eru alltaf einstök undantekningartilfelli, en við getum með sama hætti sagt að oftar en ekki hefur komið í fréttum að um sé að ræða fólk af erlendu bergi brotið, án þess að ég ætli því endilega að standa í slíkum skemmdum mestan part, það er langur vegur frá.

Ég leyfi mér að fullyrða að þær hugmyndir sem uppi eru um þennan svokallaða kortagrunn og regluverkið, það sem lítur að umferð um þá, síðan um refsiákvæðin o.s.frv. sé ekki endilega best til þess fallið að ætla það að við getum stemmt stigu við utanvegaakstri.

Við getum bara horft til okkar sjálfra, ef við ferðumst til útlanda er það ekki það fyrsta sem við kynnum okkur endilega, eitthvert regluverk á tilteknum svæðum. Við vinnum þetta ekki með þeim hætti. Og ef við ættum að koma þessu inn í ferðaplön erlendra einstaklinga, fjölskyldna eða ferðaþjónustuaðila þá yrði að þýða þetta á mörg tungumál og treysta þá á að menn muni læra þetta til muna betur en Íslendingar virðast gera þó svo að þetta séu lög og reglur sem eru settar á þeirra eigin móðurmáli.

Ég vil aðeins segja um utanvegaaksturinn, þær fullyrðingar eða að menn gefi sér það að hann sé að aukast ár frá ári eru langan veg frá því að vera réttar. Það stangast meðal annars á við fullyrðingar hæstv. umhverfisráðherra, Svandísar Svavarsdóttur, þar sem hún hefur upplýst það meðal annars á vef umhverfisráðuneytisins að tilvikum um utanvegaakstur hafi fækkað um 15–30% á milli áranna 2009 og 2010. Þá spyr maður: Í ljósi þess að meiri fræðsla og meiri upplýsing er að gefa okkur þennan árangur, er þá á sama tíma réttlætanlegt og eðlilegt að við séum að herða ákvæðin við utanvegaakstri með þeim hætti sem hér er lagt upp með? Ljóst er að þau áform sem birtast í 31. og 32. gr. er eitthvað sem eru gerðar mjög miklar og alvarlegar athugasemdir við, hvort tveggja út frá því hvernig þetta muni virka, kortagrunnurinn um vegi og vegslóða, en ekki síður hafa menn margar spurningar varðandi kostnað og ábata og skilvirkni þess kerfis sem þarna er verið að setja upp.

Í ljósi þess sem þarna um ræðir er ekki úr vegi að rifja aðeins upp ákvæði um utanvegaakstur í íslenskum lögum. Hann er bannaður skilyrðislaust í íslenskum lögum í dag. Í 5. gr. umferðarlaga, nr. 50/1987, segir:

„Í þéttbýli má ekki í heimildarleysi aka, stöðva eða leggja vélknúnu ökutæki utan vega á svæði sem ekki er ætlað fyrir umferð vélknúinna ökutækja.“

Að öðru leyti gilda um þessi ákvæði, ákvæði náttúruverndarlaga, nr. 44/1999, en þar segir í 17. gr.:

„Bannað er að aka vélknúnum ökutækjum utan vega. Þó er heimilt að aka slíkum tækjum á jöklum, svo og á snjó utan vega utan þéttbýlis svo fremi sem jörð er snævi þakin og frosin.“

Þetta er þrengri merking eftir því sem mér er sagt en er í náttúruverndarlögunum frá 1996. Þar var akstur utan vega og merktra slóða óheimill þar sem hætta var á náttúruspjöllum. Því var meginreglan sú samkvæmt 16. gr. gömlu laganna að akstur utan vega var leyfilegur ef það olli ekki náttúruspjöllum. Ákvæðin voru því hert í 17. gr. náttúruverndarlaganna og þar var verið að leggja áherslu á að setja skýrar reglur við banni við akstri utan vega og vilji löggjafans á þeim tíma var sá að þrengja og skýra reglurnar frá fyrri lögum um náttúruvernd.

Við setningu þeirra laga var líka vakin athygli á því að það var ekkert skilyrði fyrir refsinæmi verknaðarins, að spjöll hefðu verið unnin á náttúru landsins. Af því að ég nefni það get ég ekki látið hjá líða að nefna eitt ákvæði sem mér þykir mjög sérstakt, svo að ekki sé meira sagt, sem er að finna í 91. gr. frumvarpsins og lýtur að refsiábyrgð. Í sjálfu sér er enginn ósáttur við að refsingar liggi við að skemma náttúru okkar en hins vegar er 91. gr., eins og hún liggur fyrir, óljós og hún mismunar aðilum. Þar er sagt að hægt sé að gera vélknúið ökutæki upptækt sem notað hefur verið við að fremja brot, þegar alvarleg spjöll eru unnin á náttúrunni. Í fyrsta lagi er ekki skilgreint hvað alvarleg spjöll eru í þessu samhengi. Það er mjög matskennt hugtak hversu alvarlegt viðkomandi brot er. Fer það eftir því á hvaða svæði það er framið eða fer það eftir því hvers eðlis brotið er á viðkomandi svæði o.s.frv.? Ekki er tekið á því í þeim efnum og vantar því alla skilgreiningu fyrir dómstóla til að fara eftir þegar svo matskennt hugtak er sett inn í lagatexta.

Enn fremur er atriðið sem ég gerði að umtalsefni, sérstaklega í andsvörum í dag, að það á einungis að refsa ferðamanni sem er á eigin ökutæki. Lagaákvæðið er þannig að ef ég fer og veld spjöllum, alvarlegum umhverfisspjöllum á mínum eigin bíl, þá er unnt að refsa mér og gera bifreiðina upptæka. En ef ég hefði fengið lánaðan fjallajeppann hjá hv. formanni umhverfis- og samgöngunefndar til að skreppa upp á friðað svæði og tæta þar og trylla eins og sagt er, jú, vissulega væri hægt að beita mig refsingu en ekki væri hægt að gera bifreiðina upptæka vegna þess að ég á hana ekki. Hún er í eigu einhvers annars aðila. Þarna eru menn settir í töluvert mismunandi stöðu og mætti með sanni segja að ákveðinn hvati væri til þess í ákvæðinu eins og það er, að þeir ökumenn sem ætla sér að fara inn á viðkvæm svæði séu hvattir til þess að fá leigða eða lánaða bíla til slíkra ferðalaga í stað þess að ferðast á sínum eigin. Þetta tekur þá sérstaklega til erlendra ferðamanna, ekki nema við viljum horfa til þess þannig að íslenskir ferðaklúbbar fari að útbúa og starfrækja einhvers konar skiptimarkað með bíla til að eiga betra með að komast hjá því að bifreiðar þeirra verði gerðar upptækar þegar þeir fara að reyna að átta sig í þeim frumskógi sem þessi svokallaði kortagrunnur verður, þegar erfitt verður fyrir þá sem á ferðinni eru að átta sig á því hvort þeir séu að aka löglegan slóða sem færður er í kortagrunninn eða einhverja leið sem ekki er lögleg.

Að minni hyggju er verið að setja hér hindranir eða ákvæði inn sem byggja á miklu mati sem erfitt er að sjá hvernig á að vera hægt að framkvæma. Ein spurning er sem lýtur til dæmis að því atriði hvernig á að meta tjón vegna utanvegaaksturs. Kemur inn í slíkt mat hver áhrifin verða af náttúrunni sjálfri, til dæmis vatni, snjó eða vindi sem kann að laga það tjón sem hugsanlega kann að koma til? Ég minnist í því sambandi nýlegrar myndar sem birt var í einu dagblaðanna þvert yfir síðu þar sem hjólför voru í mel. Þar var ekki að sjá einn einasta gróðurspotta eða strá. Þetta var bara jökulruðningur rétt utan við bílastæði. Talað var um að þar hefðu orðið miklar skemmdir af völdum utanvegaaksturs en svo kom tveimur eða þremur dögum seinna frétt um það að menn gerðu ráð fyrir að þetta mundi bara jafna sig, einfaldlega af veðrun, með vindi, vatni eða snjó og væri til tölulega lítið mál. Það er alþekkt af hálendi Íslands til dæmis að för yfir vetur, eða þótt um sumar væri, hverfa jafnvel milli daga þó að það sé nú að sjálfsögðu ekki algilt.

Ég nefndi kortagrunninn sem spilar að sjálfsögðu inn í þetta ákvæði varðandi refsiábyrgðina. Mjög mikil umræða hefur verið um, í það minnsta á þeim fundum sem ég hef átt um þetta verkefni, að gert er ráð fyrir að kortagrunnur verði settur upp. Þar eru gerð frávik frá þeirri reglu sem viðgengist hefur í íslensku réttarfari, eins og í flestum öðrum lýðræðisríkjum, að það sé leyft sem ekki sé sérstaklega bannað. En hugsunin í þessum kortagrunni er þvert á það, í rauninni þarf að taka það fram sérstaklega sem er leyft og það sem ekki er tilgreint og heimilt, það er allt bannað. Þetta hefur í för með sér að ákvörðun um hvaða veg eða slóða skal ferðast um á hálendi Íslands, eða á þeim vegum og slóðum sem vilji manna stendur til að fara, þarf að taka með öðru móti en hingað til hefur verið gert. Í sjálfu sér er ekki óeðlilegt að svo sé, sjálfsagt að skoða núverandi fyrirkomulag, en athugasemdirnar sem maður hefur fengið við þau áform frá þeim sem gerst þekkja að mínu mati vegi og slóða á hálendinu eru þess eðlis að taka ber ríkt tillit til þeirra athugasemda.

Hættan sem slíkt fyrirkomulag býður upp á er að allnokkur ár taki að búa til þennan gagnagrunn. Og þá skapast ákveðin réttaróvissa um ferðalög á hálendinu eða á þeim svæðum sem menn vilja sækja á. Hvar eiga að vera löglegir slóðar og hvar ólöglegir? Stóra málið í mínum huga er ekki það að útbúa þennan gagnagrunn. Stóra málið í þessu er það að setja upp regluverk sem við getum ekki framkvæmt eða haft eftirlit með. Ég treysti því fólki fyllilega, sem ég hef átt samskipti við vítt um land vegna þessara mála, til að umgangast náttúruna, virða hana og akta með þeim hætti að sómi sé að, alveg tvímælalaust. En það að ætla því ágæta fólki að keyra eftir gagnagrunni þar sem sumir slóðanna eru „gamlar leiðir“ sem fólk hefur farið — sumir hafa fullyrt að þeir slóðar eða þær leiðir séu þess eðlis að það valdi ekki nokkrum einustu skemmdum ef menn gera það á þann hátt sem þeir þekkja til og hafa farið. Og margir af þessum slóðum eru leynislóðar.

Stóra hættan er gagnvart almennum ferðamönnum sem villast inn á tiltekna slóða sem ekki má fara. Hvernig ætlum við að haga eftirlitinu með því regluverki sem við ætlum að setja? Hvernig ætlum við að hafa eftirlit með því að tiltekinn slóði sem ekki má fara, að þess sé gætt að hann sé ekki ekinn? Við erum ekki einu sinni í stakk búin til þess í dag að halda úti eftirliti eða starfsemi eins og við vildum gera í þjóðgörðum landsins. Við erum ekki í stakk búin í dag til þess að halda úti sómasamlegri löggæslu í mörgum stórum löggæsluumdæmum á landinu. Til dæmis má nefna að í mínu kjördæmi erum við uppi með þá stöðu að við höfum einn lögregluþjón sem er við embættið á Húsavík og starfssvæði hans nær frá Húsavík og allt austur á Þórshöfn. Hann þarf að vera á vakt og bakvakt frá Þórshöfn – Bakkafjörður – Raufarhöfn – Kópasker – Kelduhverfi. Hann sinnir þessu í einu stöðugildi. Hann er jafnframt á bakvakt. En svo erum við að setja upp kerfi yfir ótölulegan fjölda vega og slóða sem suma má aka og aðra ekki. Ég segi fullum fetum að það er markleysa í rauninni að setja slíkt veganet upp nema við höfum þá hugsað betur fyrir því en birtist í frumvarpinu hvernig við ætlum að hafa eftirlit með því að það sé virt.

Ef við höfum ekki þennan fjölda útivistarfélaga með okkur í þeirri reglusetningu, þá held ég að betur sé heima setið en af stað farið. Ég tel að meðan við höfum ekki löggæslu eða einhvers konar vélrænt eftirlit, ég veit ekki hvernig menn hafa hugsað þetta, með því að það sé virt, ef við höfum það ekki við höndina á sama tíma og við ætlum að setja upp eftirlit sem hinn stóri fjölmenni áhugamannahópur er ekki sammála þeim áætlunum sem þar koma fram þá býður það ekki upp á annað en að lögin verða ekki virt og það regluverk sem við erum að setja upp. Ég tel miklu eðlilegra að gefa sér rýmri tíma til að komast til ráðs við þá sem flestir eru og mestir notendur þeirra svæða sem hér um ræðir, og ganga til þess verks að gera þá þetta fólk skuldbundið því regluverki sem við erum að setja upp.

Meðan það gerist ekki óttast ég að við lendum í svipaðri stöðu með þessi ágætu áform, mörg hver sem hér liggja fyrir, og við virðumst hafa á sumum svæðum landsins lent í og orðið fyrir með hin góðu áform sem stofnað var til þegar Vatnajökulsþjóðgarður var settur á stofn. Viðhorf heimamanna á þeim svæðum sem þjóðgarðurinn tekur til, í það minnsta þar sem ég þekki til úr mínu kjördæmi, eru þess eðlis að þar hafi grið verið rofin um þá sátt sem sköpuð var þegar Vatnajökulsþjóðgarði var komið á. Þar hafi verið gefin ákveðin fyrirheit um hvernig aðkomu heimamanna að því verkefni ætti að vera háttað en stór hluti heimamanna telur þau grið hafa verið rofin sem veldur því um leið að stuðningurinn við verkefnið og tiltrúin á það hverfur og úr henni dregur á heimasvæðinu. Það er það versta sem gæti gerst í verkefni eins og þessu við setningu nýrra náttúruverndarlaga, að við hefðum ekki tiltrú þeirra flestra sem það nýta og njóta.