141. löggjafarþing — 103. fundur,  14. mars 2013.

náttúruvernd.

429. mál
[20:47]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þm. Sigfúsi Karlssyni andsvarið. Nei, það er ekki góður háttur að vinna svona að framgangi máls sem lýtur að því að gildistaka frumvarpsins er samkvæmt texta þess áætluð 1. júlí 2013. Það er ljóst að kostnaður fellur til strax á árinu 2013 ef frumvarpið verður að lögum. Það er rétt hjá hv. þingmanni að það er töluverður munur á kostnaðarmati fjárlagaskrifstofunnar og nefndarinnar sjálfrar. Ég treysti hvorugu matinu, einfaldlega vegna þess að allt kostnaðarmatið við frumvarpið verður alltaf gróf nálgun. Við munum aldrei sjá neina endanlega tölu fyrr en í fyrsta lagi þegar það verður komin reynsla á þetta en það er mjög ólíklegt að við fáum niðurstöðu fyrr en við sjáum hvernig frumvarpið lítur út á endanum.

Þetta er ekki til fyrirmyndar og það ber mjög á því núna á vormánuðum að við fáum hvert frumvarpið á fætur öðru sem ber þess merki. Þetta er það sem ég hef kallað ósk um lög, óskalög með tilliti til fjárlaga, og þessar óskir koma hver á fætur annarri. Það er ekki gert ráð fyrir þessum frumvörpum á fjárlögum og þeim kostnaði sem af þeim leiðir og það er ekki til fyrirmyndar að gefa til kynna að við höfum burði til að ráðast til þessara verka af þeirri einföldu ástæðu að það er ekkert á heftinu til að mæta þessum kostnaði. Það er að minni hyggju nauðsynlegt orðið, ekki síst í ljósi þess fjölda frumvarpa og óskalaga sem hefur komið fram á síðustu tveimur vikum, að fara að taka þetta saman þannig að menn horfist í augu við þann óskalista sem þarna hefur safnast upp á tiltölulega skömmum tíma. Hann er styttri en þeir dagar sem eru til næstu kosninga.