141. löggjafarþing — 103. fundur,  14. mars 2013.

náttúruvernd.

429. mál
[21:00]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Það kann vel að vera að ég misskilji eitthvað varðandi 19. gr. og þá biðst ég velvirðingar á því og kynni mér málið betur. Ég skal gera það mætavel. Það breytir hins vegar ekki þeirri sannfæringu minni að það skilur á milli sýnar minnar til þessara þátta og hv. þm. Ólafs Þórs Gunnarssonar að ég er andvígur þeirri tilhneigingu sem ég reyndi að draga fram í ræðu minni sem lýtur að opinberri umsýslu og umsjá og forræði yfir því hvernig ég kann að eiga möguleika á því að ferðast um mitt ágæta land. Maður sér þess stað í frumvarpinu að þar er horft til þess að ríkisstofnunum sé beitt með einhverjum hætti gegn sveitarfélögum, og einstaklingum síðan sett skilyrði og þeim gert að sækja undir sig í stað þess að búa regluverkið þannig að mér sem einstaklingi sé bara frjálst og eðlilegt og skylt að lesa úr því á mínum eigin forsendum en matið sé, eins og frumvarpið er lagt upp, lagt í hendur opinberra starfsmanna og stofnana.

Jafnframt bætist við þetta í mínum huga að stjórnkerfið verður dýrara og flóknara. Ég leyfi mér að fullyrða að það verður minna skilvirkt og ég treysti því að þetta frumvarp verði ekki í þessari mynd að lögum fyrir þinglok og vænti þess að við náum samkomulagi um það. Það get ég fullyrt að ef menn ljúka þessu verki á óbreyttum fyrirliggjandi grunni mun ég, og örugglega félagar mínir í Sjálfstæðisflokknum, beita mér fyrir því á næsta þingi að þeim lögum verði breytt.