141. löggjafarþing — 103. fundur,  14. mars 2013.

náttúruvernd.

429. mál
[21:45]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Mér finnst andi frumvarpsins og öll nálgun á það hér einkennast mikið af boðum og bönnum. Mér finnst andinn í málaflokknum, eins og frumvarpið er lagt fram, frekar neikvæður. Við höfum orðið vör við umfjöllun þeirra sem kannski þekkja hvað best til þegar kemur að útivist, þeirra sem stunda útivist og hafa 16 þús. einstaklingar skrifað undir tilmæli þess efnis að menn breyti um kúrs í málinu.

Ég á ekkert sérlega von á því að ríkisstjórnin kippi sér upp við það þótt 16 þús. Íslendingar skrifi undir áskorun til ríkisstjórnarinnar, hún sé ekki á réttri leið. Það var ekki mikið hlustað þegar tugir þúsunda Íslendinga skrifuðu undir áskorun vegna Icesave, það skipti engu máli. Þegar 16 þús. manns, sem mér finnst mjög mikill fjöldi og virðingarvert framtak, láta í sér heyra finnst mér vert að staldra við og fara yfir hlutina enda er málið ekki tækt til neinnar afgreiðslu á Alþingi. Málið er kannski tækt til að bæta þeim breytingartillögum sem liggja fyrir inn í frumvarpið, senda málið aftur til umsagnar út í samfélagið og síðan væri hægt að taka það fyrir á nýju þingi í haust og gera það sómasamlega. Þá væri líka hægt að gera það í tengslum við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2014 því að í áætluninni er gert ráð fyrir ákveðnum fjármunum inn á það ár og því finnst mér það harmónera ágætlega saman.

Ég spyr því hv. þingmann á móti hvort honum, sem hefur verið í fjárlaganefnd á öllu þessu kjörtímabili, fyndist ekki gáfulegra verklag að haga hlutunum þannig.