141. löggjafarþing — 103. fundur,  14. mars 2013.

náttúruvernd.

429. mál
[21:51]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Við hlýddum á hv. þm. Birki Jón Jónsson flytja innblásna ræðu, (Gripið fram í: Ekki í fyrsta sinn.) ekki í fyrsta sinn, byggða á ágætu nefndaráliti fulltrúa Framsóknarflokksins í hv. umhverfis- og samgöngunefnd. Ég deili skoðunum hv. þingmanns í þeim efnum að nálgun viðfangsefnisins er dálítið stofnanaleg og ber töluverðan keim af því að höfundar plaggsins hafa meiri trú á því að opinberir starfsmenn ríkisstofnana hafi ríkari og meiri skilning á því hvernig fólk á að ferðast um hálendi og helstu náttúruperlur Íslands en það sjálft. Það er mjög erfitt að átta sig á því hvert stefnir og hvaða frelsistakmörk verða sett í kjölfarið á frumvarpinu sem liggur fyrir.

Ég held að í rauninni sé nauðsynlegt að spyrja hv. þingmann af því tilefni hvort hann viti hvaða lög gilda um akstur á hálendinu. Eru það vegalög, náttúruverndarlög, lög um Vatnajökulsþjóðgarð eða einhver önnur lög? Ég hef ekki hugmynd um það. Það væri mjög gott ef maður gæti áttað sig á því í frumvarpinu. Ég skynja frumvarpið þannig að sá laga- og reglugerðarfrumskógur sem er verið að reisa í málaflokknum sé orðinn slíkur að það liggi við að það sé nánast eingöngu á færi lögfróðra manna að ferðast um hálendið og helstu náttúruperlur landsins.

Spurning mín til hv. þingmanns er hvort hann geri sér grein fyrir því hvert stefni í þeim efnum og hvort hann hafi (Forseti hringir.) slíka yfirburðaþekkingu á íslenskri löggjöf að hann geti svarað því til hvaða lög gilda um ferðafrelsi á hálendi Íslands.