141. löggjafarþing — 103. fundur,  14. mars 2013.

náttúruvernd.

429. mál
[22:21]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum ræðuna og þann áhuga sem hann sýnir málinu. Ég gat því miður ekki verið, eins og ég tjáði hv. þingmanni, við fyrri ræðu hans og finnst það miður en reyni nú að bæta úr því þótt í litlu sé. Þingmanninum varð tíðrætt um samráð við sveitarfélögin og það er hárrétt hjá honum að það er afar mikilvægt. Þingnefndin hefur lagt sig í líma við að hafa samráð við Samband íslenskra sveitarfélaga, bæði með því að fá fulltrúa þess til okkar sem gesti en einnig með því að sækja ráðleggingar og samráðsfundi með sveitarfélögunum meðan á vinnu við frumvarpið hefur staðið. Við getum ekki sem þingnefnd breytt orðnum hlut en við getum leitast við að tala við sveitarfélögin á okkar forsendum og teljum okkur hafa gert það.

Varðandi þær áhyggjur sem hv. þingmaður ræddi um kostnað og kostnaðarmat gagnvart sveitarfélögunum er alveg rétt hjá hv. þingmanni að það er skylda í sveitarstjórnarlögum að leitast við að hafa þetta nokkurn veginn á hreinu, þ.e. við vitum hvaða byrðar við leggjum á sveitarfélögin þegar við setjum lög hérna. Það er hins vegar tekið fram bæði í greinargerðinni með frumvarpinu og að vissu leyti í nefndarálitinu að í þessu tilfelli er það mjög erfitt vegna þess að alls ekki er fyrirséð með öllu hversu mikill kostnaðarauki sveitarfélaganna verður og því kannski miklu erfiðara en ella að segja til um það nákvæmlega. Nefndin gerði hins vegar það sem ég hef sagt fyrr í umræðunni í dag að nefndir ættu alltaf að gera; við leituðumst við að leggja okkar mat á kostnaðinn og fengum einmitt stofnanir á vegum umhverfisráðuneytisins (Forseti hringir.) til að endurskoða það kostnaðarmat. Ég hef sagt það áður í umræðunni að ég tel mjög mikilvægt að þingnefndir hafi þann háttinn á. (Forseti hringir.) Ég mun koma ítarlegar inn á önnur atriði síðar.