141. löggjafarþing — 103. fundur,  14. mars 2013.

náttúruvernd.

429. mál
[22:23]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Ég geri mér grein fyrir því sem hv. þingmaður er að upplýsa mig um, það er kannski ekki mjög einfalt verk að meta þetta og maður verður að setja það í samhengi við veruleikann eins og hann er. Ég held að það fari ekki á milli mála að við hv. þingmaður erum sammála um að það þarf að hafa mjög gott samráð og samstarf við sveitarfélögin enda erum við báðir — ja, ekki gamlir sveitarstjórnarmenn, ég held að hv. þingmaður sé enn þá sveitarstjórnarmaður, það er eins gott að passa sig með það, en ég er gamall sveitarstjórnarmaður og hv. þingmaður hefur starfað lengi í sveitarstjórnum. Við þekkjum því hvernig að þessu er staðið, sveitarfélögin gera fjárhagsáætlanir og síðan eru samþykkt lög frá Alþingi sem gera það að verkum að útgjöld sveitarfélaganna aukast.

Þá sendir eftirlitsnefnd sveitarfélaga sem starfar á vegum hins opinbera sveitarfélögunum bréf og segir að þau verði nú að passa sig á því að fara eftir fjárhagsáætlunum þó svo að ástæðan sé kannski sú að búið er að samþykkja lög á Alþingi sem keyrir þau fram úr. Það eru mörg dæmi um það, hækkun á tryggingagjaldi og margt, margt fleira.

Svo maður gæti allrar sanngirni þá byrjuðu þessir árekstrar milli sveitarfélaganna og ríkisvaldsins ekkert í tíð þessarar ríkisstjórnar, það gerðist löngu áður. En ég ætla að rifja upp seinni spurningar mínar til hv. þingmanns þannig að hann hafi tækifæri á að svara þeim, því tíminn er ekki langur. Í fyrsta lagi hvort það verði flokkað sem utanvegaakstur ef maður keyrir í fjöruborði þar sem fellur yfir á flóði og í öðru lagi ef maður kemur til dæmis að vaði yfir á sem er ófært og keyrir kannski aðeins ofar eða neðar með ánni, eða upp eða niður með ánni, til að leita að færu vaði. Mundi það flokkast sem utanvegaakstur? Það er mjög sérkennilegt að mínu mati ef svo er.