141. löggjafarþing — 103. fundur,  14. mars 2013.

náttúruvernd.

429. mál
[22:25]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Já, spurningin er hvað er utanvegaakstur og hvað ekki. Hv. þingnefnd ræddi þetta ítarlega í umfjöllun sinni og meðal annars sérstaklega akstur meðfram ám, akstur yfir vöð og akstur á söndum. Þetta er að hluta til tekið fyrir í nefndarálitinu en álit hv. nefndar er að þegar um er að ræða það sem við getum kallað eðlilega leit að vaði yfir á geti það tæplega talist utanvegaakstur, svo fremi að ekki sé um að ræða að af akstrinum hljótist umtalsverðar skemmdir á landi. Þarna þarf náttúrlega að gæta varúðar eins og annars staðar. Akstur á söndum þar sem flóðs og fjöru gætir og skolast yfir förin í næsta flóði er eins og gefur að skilja ekki utanvegaakstur eða að minnsta kosti ekki hættulegur utanvegaakstur.

Ég ítreka að varúðarreglan sem er sett í 9. gr. leggur í rauninni ítrekaða skyldu á ekki bara ökumenn heldur alla sem fara um í náttúrunni um að ummerki um för þeirra, hvert sem þeir fara, eiga ekki að vera þannig að sjái á landinu eftir. Það kemur skýrt fram í frumvarpinu að það er andi laganna. Hv. þingmaður hefur hárrétt fyrir sér í því að það að gera spor í sandinn, eins og einhver hefði sagt, er auðvitað ekki hættulegt fyrir náttúruna.

Varðandi hitt sem þingmaðurinn spurði um, hvort umsagnir hefðu verið lesnar saman og hvernig það hefði farið fram þá var það eitt af því sem nefndin lagði sig í líma við, að lesa saman umsagnirnar. Það voru annars vegar athugasemdir sem voru gerðar við þetta frumvarp en hins vegar, í mjög mörgum tilfellum, reyndust athugasemdir sem gerðar eru nú eiga við fyrri lög. Nefndin lagði sig í líma við að svara og bregðast við þeim athugasemdum (Forseti hringir.) sem áttu við það frumvarp sem við fjöllum um núna. En við í nefndinni töldum (Forseti hringir.) að hin umræðan hefði í raun farið fram áður og þess vegna væri það ekki endilega hlutverk okkar að svara því nú.