141. löggjafarþing — 103. fundur,  14. mars 2013.

náttúruvernd.

429. mál
[22:30]
Horfa

Sigfús Karlsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Ásbirni Óttarssyni fyrir ræðuna. Við erum enn að ræða frumvarp til laga um náttúruvernd — ég var nú á hlaupum um húsið áðan þannig að ég heyrði ekki alveg alla ræðuna þegar hv. þingmaður talaði um allan þann fjölda breytingartillagna sem er við frumvarp. Ég var reyndar búinn að taka eftir þessu og lesa það, en það er náttúrlega mjög sérstakt að við frumvarp eins og þetta komi frá meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar breytingartillaga upp á 56 liði á sjö blaðsíðum. Það er náttúrlega ekkert smámagn af breytingartillögum við eitt frumvarp.

Ég heyrði óljóst við lok ræðu hv. þingmanns tillögur, hugmyndir og skoðanir hans á því hvað við eigum að gera við þessar tillögur, þ.e. gagnvart frumvarpinu sjálfu. Það mætti náttúrlega æra óstöðugan að bera allar þessar breytingar saman við frumvarpið sjálft ef á að klára þetta í nótt.

Hvert var álit hv. þingmanns á þessu atriði?