141. löggjafarþing — 103. fundur,  14. mars 2013.

náttúruvernd.

429. mál
[22:32]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Það er hárrétt sem hv. þingmaður nefndi, ég kom inn á það í ræðu minni að mikil og góð vinna hefur greinilega farið fram í hv. umhverfis- og samgöngunefnd. Skoðun mín er alveg skýr. Eins og hv. þingmaður bendir réttilega á eru hér 56 breytingartillögur á sjö blaðsíðum og margar þeirra mjög viðamiklar. Ég man ekki til þess þó að ég hafi verið hér í fjögur ár að hafa séð svona ítarlegt breytingarskjal með tillögum, nema með fjárlagagerðinni sem er náttúrlega allt öðruvísi hlutur. Þetta er venjulegt frumvarp þó að það sé mikið og stórt að efnum, 100 greinar, en ég man ekki eftir að hafa séð svona ofboðslega miklar breytingar.

Mér finnst einhvern veginn blasa við að skynsamlegast væri að taka allar þær breytingartillögur sem hér eru og færa þær inn í frumvarpið eins og það er og breyta því í þá veru, taka síðan málið og senda það aftur til umsagnar og stemma þetta allt af. Því það mætti æra óstöðugan, eins og hv. þingmaður benti réttilega á, að lesa þetta allt saman.

Ég hef farið í gegnum tvær umsagnir sem hafa borist og borið þær saman við þessar breytingartillögur — maður verður að gera það bara skjal fyrir skjal til að átta sig á því hvernig brugðist hefur verið við. Það hefði verið mjög gott ef líka hefði fylgt skjal þar sem meiri hlutinn hefði ekki talið ástæðu til að bregðast við, þá væru menn fljótari að fara í gegnum það og átta sig á því hvað í raun og veru stæði út af í umsögnunum í staðinn fyrir að stemma allt af til að finna það út. Það hefði verið mjög gott plagg til að hafa við þá vinnu en það liggur ekki fyrir.

Skoðun mín er alveg klár og skýr; breytingartillögurnar inn í frumvarpið, nýtt frumvarp og aftur út til umsagnar.