141. löggjafarþing — 103. fundur,  14. mars 2013.

náttúruvernd.

429. mál
[22:36]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna vegna þess að þetta er eitt af þeim atriðum sem ég ætlaði að koma inn á í ræðu minni en náði ekki vegna tímaskorts að gera, þ.e. 57. gr.

Hv. þingmaður nefndi Vegagerðina. Ég staldraði við umsögn frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Þar gera þeir mjög alvarlegar athugasemdir — eða hvort við eigum að kalla það ábendingar, látum það liggja milli hluta. Mér finnst sá texti frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga mjög umhugsunarverður.

57. gr., sérstök vernd tiltekinna vistkerfa og jarðminja, er mjög umfangsmikil í frumvarpinu og allar þær upptalningar sem hér eru. Þá kemur breytingartillaga frá meiri hlutanum, sem maður les saman við skjölin eins og við hv. þingmaður ræddum áðan: „Í stað orðanna „gangi hún gegn áliti“ í fyrri málslið 5. mgr. 57. gr. komi: fari hún í bága við niðurstöðu.“ Þetta er breytingin hjá meiri hlutanum í 57. gr.

Eftir að hafa skoðað ábendingar frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga staldra ég auðvitað við þær. Þeir halda því fram og gefa þessar ábendingar, með leyfi forseta: „Að áliti sambandsins eru 57. gr. og einnig 97. gr., sem kveður á um breytingar á skipulagslögum, til þess fallnar að flækja stjórnsýslu á sviði skipulagsmála og tefja afgreiðslu mála langt umfram það sem nokkra nauðsyn ber til.“

Sú athugasemd við 57. gr. sem hv. þingmaður benti réttilega á og kemur fram frá Vegagerðinni, kemur líka frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. En breytingartillaga meiri hlutans er mjög veigalítil, einungis orðalagsbreyting, og maður áttar sig ekki í fljótu bragði á hvort þeir á nokkurn hátt bregðast nægilega vel við þessum athugasemdum.