141. löggjafarþing — 104. fundur,  15. mars 2013.

störf þingsins.

[10:34]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Enn bætist í hóp þeirra fulltrúa atvinnulífsins sem hafa uppi hávært ákall til Alþingis um að ljúka aðildarviðræðunum við Evrópusambandið. Svana Helen Björnsdóttir var endurkjörin formaður Samtaka iðnaðarins nú í vikunni og sagði við það tækifæri að það væri glapræði að hætta aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Hún benti á að í dag væri Ísland með aðra höndina bundna fyrir aftan bak með gjaldeyrishöft, miklu hærra vaxtastig og gjaldmiðil sem lítið mark væri tekið á. Hún benti á að Ísland gæti ekki verið einangrað, það sé háð utanríkisviðskiptum og jafnvel landbúnaðurinn geti ekki afhent þjóðinni afurðir án þeirra. Þannig liggi margrætt matvælaöryggi í utanríkisviðskiptum en ekki í innflutningshöftum.

Formaður Samtaka atvinnulífsins benti á að í kjölfar EES-samnings hafi fylgt uppgangstímar sem áttu sér fá fordæmi í Íslandssögunni og það er óhætt að taka undir það. Samningurinn sé kominn vel á aldur og ólíklegt að hann nái að fylgja þróun tímans og líklega muni samningurinn smám saman hætta að þjóna hlutverki sínu.

Það er óhætt að fullyrða að farsæl lúkning viðræðna við Evrópusambandið sé brýnasta kosningamál vorsins og ánægjulegt að þeim flokkum hefur fjölgað á undanförnum vikum sem vilja ljúka aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Því vekur það sérstaka athygli og áhyggjur að sá flokkur sem boðar römmustu harðlínuna gegn aðild og aðildarviðræðum er Sjálfstæðisflokkurinn, sá flokkur sem lengst af taldist einn helsti málsvari atvinnulífsins á vettvangi stjórnmálanna. En nú er hún Snorrabúð stekkur því um leið og samstillt og ákaft ákall berst frá atvinnulífinu, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum iðnaðarins, um að ljúka aðildarviðræðum við Evrópusambandið er flokkurinn sá eini sem vill hætta viðræðunum og skella í lás. Því er full ástæða til að spyrja fulltrúa flokksins á þingi hverju sæti. Hvað er að óttast í dómi kjósenda? Af hverju að rjúfa það lýðræðislega ferli sem nú er á lokametrunum? Af hverju má þjóðin sjálf ekki taka ákvörðun út frá (Forseti hringir.) endanlegum samningi hvort landið skuli gerast aðili að Evrópusambandinu eða ekki?