141. löggjafarþing — 104. fundur,  15. mars 2013.

störf þingsins.

[10:37]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Mig langar til að ræða framtíð ungra bænda og nýliðunarmöguleika í íslenskum landbúnaði. Ungir bændur efndu til fundar á Hvanneyri í gærkvöldi þar sem umræðuefnið var einmitt framtíðarmöguleikar þeirra og nýliðunarmöguleikar í íslenskum landbúnaði. Þetta var fjölmennur fundur, mjög góðar umræður og margt sem bar á góma.

Ungir bændur hafa eðlilega áhyggjur af framtíð sinni því að í íslensku landbúnaðarkerfi er ekki allt sem skyldi. Íslenskur landbúnaður býr við mikla vernd samanborið við aðrar atvinnugreinar, mikla styrkjavernd, en engu að síður hefur OECD í skýrslum ítrekað gagnrýnt hvernig sú styrkjavernd á sér stað. Helmingur af tekjum íslenskra bænda er í gegnum opinbera styrki og þeir eru helmingi hærri en í öðrum OECD-ríkjum. Það er mikil miðstýring í þessu kerfi og óskilvirkni á kostnað eðlilegs markaðs- og viðskiptaumhverfis sem er auðvitað umhugsunarefni fyrir þá sem vilja hasla sér völl í greininni.

Ég vil varpa upp þeirri spurningu í fullri alvöru, í tengslum við umræðuna um Evrópusambandið, hvort ekki sé tími til kominn að breyta styrkjaumhverfi íslensks landbúnaðar, færa það frekar í átt til byggðatenginga, í átt að rannsóknum, nýsköpun og tækniþróun, því að fjölbreytni og hagkvæmni í landbúnaði veltur auðvitað á nýsköpun og markaðssókn. Bændur þurfa að geta keppt með afurðir sínar innan lands og utan á forsendum sérstöðu og gæða. Ég tel að landbúnaðarstefnan og byggðastefnan (Forseti hringir.) verði í framtíðinni að haldast í hendur og ég vildi óska þess að við gætum rætt framtíð íslensks landbúnaðar á þeim forsendum í ríkara mæli en við höfum gert hér í þinginu.