141. löggjafarþing — 104. fundur,  15. mars 2013.

störf þingsins.

[10:39]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Í gær sáu landsmenn staðfestingu einbeitts vilja Samfylkingarinnar til að skerða lífsafkomu og möguleika landsmanna víðast hvar um land með því að skerða möguleika þeirra til greiðra samgangna við höfuðborg Íslands. Á Reykjavíkurflugvelli af öllum stöðum á landinu og í flugstöðinni sjálfri sáu staðgengill borgarstjóra, Dagur B. Eggertsson og fjármálaráðherra Íslands Katrín Júlíusdóttir ástæðu til að ganga frá skriflegu samkomulagi sem miðar að því að leggja flugvöllinn í Reykjavík í Vatnsmýri niður. Mér hefði þótt betur hæfa að gera það á skrifstofum borgarstjórnar Reykjavíkur heldur en úti á miðjunni sjálfri, úti á flugstöð.

Með þessu samkomulagi á að vinna að framgangi 800 íbúða byggðar við Skerjafjörðinn á grundvelli gildandi skipulags. Það skipulag var unnið og miðaði við það að flugvöllurinn yrði lagður niður. Það hefur hins vegar aldrei verið unnið skipulag að þessu svæði sem miðar að því að flugvöllurinn verði áfram. Ég treysti því að innanríkisráðherra sem á að vera aðili að þessu samkomulagi, þ.e. innanríkisráðuneytið, standi vörð um þá sýn innanríkisráðherra sem hann hefur boðað, en hann berst fyrir því að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýrinni. Ég hlýt að óska eftir því við hæstv. ráðherra að hann gefi á næstu dögum skýra yfirlýsingu um að hann geri kröfu til þess að þannig verði að málinu unnið. Mér finnst alveg með ólíkindum að velja þetta tækifæri og þennan stað fyrir athöfnina því í mínum hug er þetta fyrst og fremst yfirlýsing um einbeittan vilja Samfylkingarinnar (Forseti hringir.) til að leggja flugvöllinn í Vatnsmýrinni af.