141. löggjafarþing — 104. fundur,  15. mars 2013.

störf þingsins.

[10:48]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Nú líður senn að kosningum og stjórnmálaflokkarnir birta stefnuskrár sínar. Loforðalistinn er langur og þá sérstaklega hjá stjórnmálaflokkum stjórnarandstöðunnar. En eru slík stjórnmál ábyrg? Höfum við efni á dýrum kosningaloforðum?

Ríki og sveitarfélög skulda samtals 2.250 milljarða kr. og íslenska ríkið, skattgreiðendur í landinu, greiddu á síðasta ári 91 milljarð kr. í vaxtagreiðslur af skuldum ríkisins. Gríðarlegt fjárlagagat hefur verið brúað á þessu kjörtímabili en verkefnið fram undan er ærið. Nú þarf að gæta áframhaldandi aðhalds í ríkisrekstri og helst að skila hagnaði til að hægt sé að borga niður skuldir og nota áðurnefnda 90 milljarða í eitthvað annað en að borga vexti af því sem við skuldum.

Í leiðara Fréttablaðsins í dag er ágæt samantekt á dýrum kosningaloforðum. Þar er tekið saman að áætlaðar skattalækkanir Sjálfstæðisflokksins munu kosta 60 milljarða á ári. Er þá ótalið afnám þrepaskipts tekjuskatts sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur einnig lagt áherslu á, en það þýðir í raun og veru ekkert annað en að skattar á þá ríkustu, þá efnuðustu munu lækka og skattar á þá sem hafa lægstu tekjurnar munu hækka — nema hvað? Reyndar hefur Sjálfstæðisflokkurinn ekki skýrt það nánar út fyrir okkur með hvaða hætti hann hyggst afnema þrepaskiptan tekjuskatt. Kannski ætlar hann að lækka tekjuskattinn svo gríðarlega að 60 milljarða talan sem kosningaloforð hans kosta í dag verður margföld, ekki einungis þessir áðurnefndu 60 milljarðar. Hér er á ferð óábyrg nálgun stjórnmálaflokks í aðdraganda kosninga. Það eru engir aðrir en kjósendur þessa lands sem munu þurfa að borga reikninginn af óábyrgri nálgun í aðdraganda kosninga. Ég vona svo innilega að kjósendur sjái í gegnum slíka nálgun á ögurstund (Forseti hringir.) í fjárlögum íslenska ríkisins.