141. löggjafarþing — 104. fundur,  15. mars 2013.

tekjuskattur.

680. mál
[11:10]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003. Þar er lagt til að við lögin bætist ákvæði til bráðabirgða sem kveður á um sérstaka tegund vaxtabóta, lánsveðsvaxtabætur, til handa ákveðnum hópi íbúðareigenda. Nánar tiltekið er um að ræða þær fjölskyldur sem tekið hafa fasteignaveðlán sem tryggt er með veði í fasteign í eigu annars einstaklings. Þarna er þá um þann hóp að ræða sem ekki hefur enn fengið niðurfærð lán vegna íbúðarkaupa í samræmi við 110%-leiðina.

Þessi hópur sem er með lánsveð og skuldar meira en 110% af heildarverðmæti íbúðar hefur í mörgum tilfellum ekki getað nýtt sér 110%-leiðina og það er löng saga að segja í þessum sal frá þeirri miklu vinnu og þeim miklu viðræðum sem þessi ríkisstjórn hefur staðið fyrir sem og sérstök ráðherranefnd um skuldamál við lífeyrissjóðina til að fá þá til að taka þátt í þessu verkefni. Það hefur ekki gengið hingað til þrátt fyrir ríkan vilja af okkar hálfu. Þess vegna komum við inn með þetta mál, þ.e. til þess að mæta þessum hópi. Viðræður við lífeyrissjóðina eiga sér þó enn stað og þeim er ekki lokið. Ég vona að okkur takist innan einhverra vikna að ná jákvæðri niðurstöðu í það mál.

Það er tiltekinn hópur sem verið er að miða inn á, sá hópur sem við höfum rætt sérstaklega um við lífeyrissjóðina. Skilyrði samkvæmt þessum lögum er að íbúðareigandi hafi átt fasteignina 31. desember 2010 og hafi ekki fengið höfuðstól lánanna lækkaðan fyrir gildistöku þessara laga. Þá er einnig gengið út frá því að viðkomandi búi enn í íbúðarhúsnæðinu á þeim tíma þegar bæturnar eru ákvarðaðar.

Ákvæðið gildir einungis um fasteignaveðlán sem stofnað var til vegna fasteignakaupa sem fram fóru á tímabilinu 1. janúar 2004 til og með 31. desember 2008. Lagt er til að lánsveðsvaxtabætur verði einskiptisaðgerð og að bæturnar verði greiddar út einu sinni, eigi síðar en 15. janúar 2014. Með þessu er ekki girt fyrir að útborgun bótanna geti farið fram fyrr, þetta er eingöngu lokadagsetning. Lánsveðsvaxtabætur skerða ekki rétt til almennra vaxtabóta heldur koma til viðbótar þeim. Lánsveðsvaxtabætur skulu nema um 2% af mismun á eftirstöðvum allra fasteignaveðlána, eins og þau stóðu 31. desember 2010, og 110% af fasteignamati þeirrar fasteignar sem lánið var tekið til kaupa eða byggingar á.

Fjárhæð lánsveðsvaxtabóta er afmörkuð á þann veg að þær mega ekki vera hærri en 160 þús. kr. hjá einstaklingi og 280 þús. kr. hjá hjónum og sambúðarfólki.

Út frá fyrirliggjandi gögnum er erfitt að áætla af nákvæmni kostnað ríkissjóðs verði frumvarpið að lögum. Telja má þó að kostnaður við verkefnið verði ekki meiri en 500 millj. kr. Það er sú upphæð sem við miðum við og það er það svigrúm sem til staðar er miðað við annað á vaxtabótaliðnum í fjárlögum þessa árs. Þess vegna er það þannig að komi til þess að fjárhæðin verði hærri þarf ríkisskattstjóri að skerða þær hlutfallslega þannig að lánsveðsvaxtabæturnar skerði ekki almennu vaxtabæturnar og að við höldum okkur innan fjárlaga.

Með frumvarpinu er leitast við að koma til móts við vanda þeirra heimila sem tekið hafa fasteignalán til íbúðarkaupa með svokölluðum lánsveðum en hafa ekki haft aðgang að niðurfærslum á höfuðstól lána.

Við vinnslu frumvarpsins var tekið mið af upplýsingum um stöðu þessara heimila eins og þær koma fram í greinargerð hóps sérfræðinga sem starfað hafa á vegum þáverandi efnahags- og viðskiptaráðuneytis á árinu 2012. Þrátt fyrir að öll vaxtagjöld vegna öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota veiti rétt til vaxtabóta, einnig vegna lána með lánsveði, vilja stjórnvöld núna sýna viðleitni til þess að koma til móts við þann vanda sem þessi hópur hefur átt í umfram aðra. Þessi heimili hafa greitt vexti af hærri höfuðstól en þau sem hafa fengið lækkun eftir 110%-leiðinni og markmið þessarar aðgerðar er að bæta að hluta til þann mismun, a.m.k. á greiddum gjöldum á síðasta ári. Því er lagt til að þessi heimili fái sérstakan stuðning og þá er lagt til að frumvarpið öðlist þegar gildi. Ég mælist til þess að þetta mál fari til efnahags- og viðskiptanefndar til afgreiðslu.