141. löggjafarþing — 104. fundur,  15. mars 2013.

tekjuskattur.

680. mál
[11:23]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er ekki plan C að því leyti að við erum ekki búin að loka viðræðum við lífeyrissjóðina. Engu að síður töldum við rétt að koma með þetta mál hér inn til að mæta þessum hópi frá síðasta ári vegna þess að það sem gerist héðan í frá eru hugsanlega lækkanir á höfuðstólum sem hefðu áhrif fram í tímann. Þess vegna kemur þetta mál inn svona, en við erum ekki búin að gefa það upp á bátinn að ná lendingu með lífeyrissjóðunum í þessu máli. Ég nefndi áðan í tölu minni að við erum búin að eiga langt og strangt viðræðuferli við þá. Mikil stífni var í upphafi en menn hafa verið að koma jákvæðari til móts við okkur þegar liðið hefur á. Ég held að menn átti sig á því þar, alveg eins og við gerum hér, að vandinn er til staðar, frá honum verður ekki hlaupist og menn þurfa að leysa hann.

Ég leyfi mér því að vona að viðræðurnar eigi eftir að skila einhverju innan tíðar. Án þess að ég ætli að gefa of miklar væntingar um það þá höfum við þokast nær niðurstöðu nú heldur en nokkurn tímann fyrr. Vaxtabæturnar koma inn með þessum hætti vegna þess að við teljum að þessi hópur hafi orðið það mikið eftir að það verði að mæta honum líka vegna ársins 2012, sama hvað kann að gerast í nánustu framtíð.