141. löggjafarþing — 104. fundur,  15. mars 2013.

tekjuskattur.

680. mál
[11:28]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Ég held að menn hafi oft farið í gegnum að ef menn hefðu ætlað að fara í flatar niðurfellingar á öll lán í landinu til heimilanna þá hefði það ekki dugað mjög mörgum. Það hefði ekki dugað mörgum heimilum. Þess vegna skipti máli að við greindum þessa hópa og færum í úrræði sem hentuðu hverjum og einum hópi. Það er það sem þessi ríkisstjórn hefur gert og það er væntanlega það sem hv. þingmaður á við með sértæk úrræði. Það er einfaldlega vegna þess að flatar niðurfellingar hefðu ekki dugað nærri því öllum af því að vandinn var því miður það mikill hjá allt of mörgum heimilum eftir hrun.

110%-leiðin hefur leitt til lækkunar á höfuðstóli hjá mjög mörgum heimilum og mjög mörgum lántakendum, sem betur fer. Þó ekki öllum og þetta er einn af þeim hópum sem hefur verið vandamál við að ná utan um. Við erum hér að koma til móts við þann hóp. Ég vænti þess og vona að þingheimur eigi eftir að ná saman um það að afgreiða þetta mál áður en við förum inn í kosningar þannig að þessi hópur viti hvar hann standi og viti að við séum að fara að mæta honum sérstaklega, eins og við höfum gert við aðra hópa á síðastliðnum missirum.