141. löggjafarþing — 104. fundur,  15. mars 2013.

tekjuskattur.

680. mál
[11:43]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í svari mínu við hv. þingmann nefndi ég ekki að skipa ætti einhverja nefnd. Ég talaði um nefndir sem skipaðar hafa verið og hafa skilað af sér tillögum, þær hafa lagt fram áætlun um að gera það. Tillögur okkar varðandi afnám verðtryggingarinnar ganga út á það að framkvæma það. (Gripið fram í.) Ef til dæmis hv. þm. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins hefði haft fyrir því að lesa skýrslu verðtryggingarnefndar í staðinn fyrir að fara með hrein og klár ósannindi um árangurinn af þeirri vinnu þá kæmi kannski eitthvað aðeins meira af viti frá þingmönnum Sjálfstæðisflokksins.

Að halda því síðan fram að ekki hafi náðst neinn árangur af þeirri vinnu er hreinlega ósatt. Samþykkt var frumvarp á þingi þess efnis að Íbúðalánasjóði væri heimilt að veita óverðtryggð lán með breytilegum vöxtum. Ég veit ekki betur en að hv. þingmaður hafi sjálf staðið að samþykkt þeirra laga. Það sem kannski hindraði okkur mest í því að ná samstöðu um aðgerðir til þess að draga varanlega úr verðtryggingu, sérstaklega hvað varðar neytendur, var andstaða Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar í vinnu verðtryggingarnefndarinnar. Það voru síðan bara sjálfstæðismenn sem voru andvígir því í vinnu efnahags- og viðskiptanefndar að leggja fram tillögur um það hvernig við gætum dregið úr vægi verðtryggingar. Því verða þeir svo að axla ábyrgð á.