141. löggjafarþing — 104. fundur,  15. mars 2013.

tekjuskattur.

680. mál
[11:46]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef orðið fyrir töluverðum vonbrigðum frá því að ég lagði fram tillögur, ég hef lagt fram tillögur í tvígang sem 1. flutningsmaður, um hvernig er hægt að draga varanlega úr vægi verðtryggingar á Íslandi. Flokksþing tók skrefið lengra og sagðist ætla að afnema verðtryggingu á neytendalánum og í raun og veru er tiltölulega einfalt að gera það, sett eru lög um það. Í tillögum meiri hluta nefndarmanna í verðtryggingarnefndinni var síðan útskýrt hvað þarf að gera samhliða því að setja lögin. Það þarf að koma á óverðtryggðu húsnæðislánakerfi. Það þarf að tryggja fjölbreyttari búsetukost. Það þarf að gera. Ég hef kvartað undan því að ekki skuli hafa verið gerðar neinar tillögur þrátt fyrir að komið hafi fram, eins og í eldhúsdagsumræðunni, hjá fyrrverandi samfylkingarmanni, Gylfa Arnbjörnssyni, hvernig nákvæmlega formlegar tillögur um það eru gerðar. Því miður hefur það verið þannig, eins og hefur komið fram í pontu hjá hv. þm. Helga Hjörvar, hv. þm. Pétri H. Blöndal, hv. þm. Árna Páli Árnasyni og hv. þm. Bjarna Benediktssyni, að svo virðist vera sem enginn nenni einu sinni að hafa fyrir því að lesa þær tillögur sem liggja frammi. Það er leitt. Sérstaklega ef menn segja að eitthvað sé að marka þá og að þeir hafi raunverulega áhuga á því að afnema verðtrygginguna í staðinn fyrir að stinga upp í mann einhvers konar tappa og segja manni að bíða næstu 10–20 árin eftir nýrri mynt til þess að losna við verðtrygginguna.