141. löggjafarþing — 104. fundur,  15. mars 2013.

tekjuskattur.

680. mál
[11:48]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Allt í lagi, nú erum við farin að tala saman og reyna að skræla aðeins utan af öllu saman. Niðurstaða hv. þingmanns er sú að banna verðtryggð neytendalán og fara út í óverðtryggð neytendalán og húsnæðislán. Það er í boði á markaði í dag. Menn geta tekið óverðtryggð lán. Hv. þingmaður stendur hér og segir burt með verðtrygginguna. Í staðinn fyrir að fólk geti valið á milli óverðtryggðra lána og verðtryggðra lána eins og í dag á að banna verðtryggðu lánin. Er það stefnan? Er það niðurstaðan? Er verið að boða það?

Það er það eina sem ég heyri og það eina sem hv. þingmaður hefur sagt í ræðustóli. Hún leiðréttir mig ef ég skil hana ekki rétt en óverðtryggð lán eru í boði í dag og menn geta vel farið þá leið að taka þau. Ég hef hins vegar sagt algjörlega skýrt að við í Samfylkingunni viljum draga úr vægi verðtryggingarinnar þangað til við höfum náð að koma henni varanlega fyrir kattarnef með því að taka upp gjaldmiðil sem virkar. Gjaldmiðil sem krefst þess ekki, eins og krónan gerir í dag, að hann sé sérstaklega tryggður líkt og verðtryggingin gerir. Gjaldmiðil sem krefst þess ekki að við borgum íbúðina okkar tvisvar sinnum oftar en jafnaldrar okkar í Evrópu gera. Gjaldmiðil sem virkar þannig að við getum búið við stöðugleika í efnahagsmálum, stöðugleika í atvinnulífi og stöðugleika í verðlagi. Það erum við að bjóða upp á, burt með verðtrygginguna vegna þess að meðan við erum með íslensku krónuna verður alltaf verðtrygging í samfélagi okkar. Á meðan við bíðum eftir nýjum gjaldmiðli er hægt draga úr vægi hennar og það er verið að gera með því til dæmis að bjóða upp á óverðtryggð lán. Það eina sem ég heyri hv. þingmann tala um, það sem stefnan snýst um, er að hafa áfram óverðtryggð lán (Forseti hringir.) en banna verðtryggð lán. Það kannski leiðréttist hér ef ég hef ekki rétt fyrir mér í því.