141. löggjafarþing — 104. fundur,  15. mars 2013.

tekjuskattur.

680. mál
[11:53]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Mig langar að lýsa því yfir í upphafi ræðu minnar að ég er fylgjandi málinu og tel gott að það er komið fram. Við erum að ræða frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt, með síðari breytingum, sem varða vaxtabætur vegna lánsveða. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ræðu hennar og er með nokkur atriði sem mig langar til að velta upp.

Í fyrsta lagi er talað um að nýtt ákvæði til bráðabirgða eigi að gilda fyrir þá einstaklinga sem eru með fasteignaveðlán sem tekið var til kaupa eða byggingar á íbúðarhúsnæði til eigin nota, sem tryggt er með veði í fasteign í eigu annars einstaklings. Það er sá hópur fólks sem fékk lánað veð hjá mömmu og pabba, frænda sínum, ömmu og afa og öðrum. Gert er ráð fyrir því að ákvæðið gildi um lán sem stofnað var til á tímabilinu 1. janúar 2004 til 31. desember 2008. Mig langar að biðja hæstv. ráðherra að fara aðeins betur yfir það með mér hvers vegna ákvæðið á við það tímabil vegna þess að eins og ég hef skilið þau gögn sem við höfum sankað að okkur varðandi bóluna og það hvar hún byrjaði og endaði ættu dagsetningarnar frekar að vera 1. nóvember 2004 til og með 31. nóvember 2009. Það er mín skilgreining á bólunni sem varð hér, hún byrjaði í nóvember 2004, eða við sjáum afleiðingarnar þar, til og með 31. nóvember 2009.

Síðan langar mig að spyrja hæstv. ráðherra um þakið sem er gert ráð fyrir að sé á greiðslum inn í það úrræði. Gert ráð fyrir því að verði heildarfjárhæðin hærri en 500 milljarðar skerðist allar útreiknaðar lánsveðsvaxtabætur hlutfallslega. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvernig það er í samhengi við heildarpakkann af því að ég er að reyna að átta mig á tölfræðinni sem birtist okkur á síðu 2 í greinargerðinni. Ég held að ég sé með rétt viðmið þegar ég horfi á töluna 9,3 milljarðar, þ.e. að það séu 9,3 milljarðar þegar við tölum um lánsveðin og þá sem eru samtals með skuldir umfram 110%. Við sjáum að 500 milljónir inn í þá púllíu er auðvitað ekki neitt sérstaklega há upphæð, ef það er talan sem ég á að horfa á og mér sýnist svo vera miðað við gögnin sem ég hef fyrir framan mig.

Miðað við frumvarpið á framkvæmdin að vera þannig að sá sem kann að eiga rétt til lánsveðsvaxtabóta skal sækja um þær til ríkisskattstjóra eigi síðar en 15. september 2013. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvers vegna sá háttur er hafður á varðandi lánsveðsvaxtabætur af því að fólk sækir ekki sérstaklega um almennar vaxtabætur. Er það út af einhverjum tæknilegum örðugleikum eða er verið að reyna að hafa einhverjar sérstakar girðingar á því? Ég mundi vilja fá útskýringar á því og hver hugsunin á bak við er.

Það er reynt að fara aðeins í það í greinargerðinni en samt ekki á þann hátt að ég átti mig á tímabilinu sem ég talaði um í upphafi. Um er að ræða einskiptisaðgerð og síðan er gert ráð fyrir því að lánsveðsvaxtabæturnar megi ekki vera hærri en 160 þús. hjá einstaklingi og 280 þús. hjá hjónum og sambúðarfólki. Er þá fjöldinn sem maður horfir á 1.955 einstaklingar eða 1.955 íbúðarskuldir? Væntanlega er átt við 1.955 íbúðarskuldir.

Herra forseti. Þetta eru spurningarnar sem mig langaði helst að beina til ráðherrans og síðan langar mig aðeins að fjalla um það sem ég fór í andsvar við ráðherrann um. Mér finnst gott að við erum komin með málið til umræðu. Við höfum kallað eftir því lengi að fá að ræða um skuldavanda heimilanna, hvernig við ætluðum að taka á þeim stabba sem er enn til staðar þar og sýna fólki að við í þinginu höfum skilning á vandanum sem er fyrir hendi, þ.e. skulda- og greiðsluvanda heimilanna. Ég fagna því að við ræðum málið, það er gott. Ég hefði talið líklegt að fleiri þingmenn mundu blanda sér í umræðuna en við sjáum hvernig það fer allt saman.

Við höfum lengi beðið eftir einhverjum svörum um lánsveðin og ráðherrann svaraði því til að enn væru viðræður í gangi við lífeyrissjóðina varðandi lánsveðin almennt. Það er gott og ég vonast til þess að sú vinna, miðað við hvernig ráðherra nálgaðist spurningu mína áðan, muni skila árangri.

Það er annar hópur sem ég hef áhyggjur af og það eru þeir einstaklingar sem hafa tekið að sér að vera í ábyrgðum fyrir skuldara sem hafa leitað til umboðsmanns skuldara, farið í stóru þvottavélina þar og eru nú komnir í þá stöðu að fá skuldir felldar niður. Sú niðurfelling gildir ekki gagnvart ábyrgðarmönnunum.

Ég hef á ferðum mínum um kjördæmi mitt í þessari kosningabaráttu hitt fólk sem hefur lent í þeirri stöðu að ábyrgðir hafa fallið á það vegna þess að skuldarinn hefur fengið skuldir felldar niður. Í sumum tilvikum virðist það vera þannig, sem er svo sem tilgangurinn með því að leita til umboðsmanns skuldara, að viðkomandi getur farið og byrjað upp á nýtt á öðrum stað en eftir sitja ábyrgðarmennirnir með kröfu frá lánastofnunum um að ganga frá skuldunum sem miðað við pappíra skuldara hafa farið inn í púllíuna um niðurfelldar skuldir.

Ég hef töluverðar áhyggjur af því vegna þess að við höfum kannski ekki beint sjónum okkar mikið að því verkefni þótt vissulega hafi það stundum komið til umræðu, sérstaklega þegar við höfum fengið gesti í velferðarnefnd varðandi skuldavandann. Við megum ekki gleyma að ræða það atriði og ég fagna því að ráðherrann upplýsti í ræðu sinni að hún hefði skilning á því og að verið væri að reyna að skoða þau mál líka.

Frú forseti. Við ræddum húsnæðislánakerfið svolítið í andsvörum áðan. Ég er sérstakur áhugamaður um að miklar breytingar verði gerðar á Íbúðalánasjóði. Íbúðalánasjóður er og hefur verið að vinna á undanförnum árum á sviði sem nær langt út fyrir það hlutverk sem sjóðurinn hefur. Íbúðalánasjóður hefur verið með allt of mikla markaðshlutdeild í húsnæðismálapúllíunni

Íbúðalánasjóður á að vera félagslegur sjóður sem aðstoðar þá sem ekki hafa í önnur hús að venda til að eignast fasteignir. Íbúðalánasjóður á ekki að vera í samkeppni við einkaaðila á markaði um stærsta hluta kúnnahópsins vegna þess að Íbúðalánasjóður er á ábyrgð ríkisins. Ég tel augljóst að þegar loksins verður ráðist í gagngerar breytingar á húsnæðislánakerfinu verður búinn til nýr Íbúðalánasjóður sem mun hafa það þrönga, afmarkaða, skilgreinda hlutverk. Þannig mun það vera.

Stundum hefur því verið haldið fram þegar ég fer með þá rullu mína hér að það muni þýða að enginn á landsbyggðinni fái lán. Ég er algjörlega ósammála þeirri fullyrðingu. Ég get rökstutt það með því að ég hef lagt fram fyrirspurn í þinginu varðandi sundurliðun á þeim fasteignaveðlánum sem hafa verið veitt og á þeim lista sést einfaldlega að lánastofnanirnar, bankarnir, sinna víst markaðnum úti á landi.

Auðvitað er hluti af þeim einstaklingum sem fá lán þar sem færi inn í hinn félagslega sjóð og annar hluti ekki en við sjáum á svari við fyrirspurninni sem ég lagði fram í þinginu að rangt er að Íbúðalánasjóður sé sá eini sem sinnir landsbyggðinni. Ég fagna því ef allir flokkar á Alþingi hafa loksins séð og eru komnir á þá skoðun, líka Framsóknarflokkurinn, að breyta þurfti Íbúðalánasjóði. Ég fagna því sérstaklega og undirstrika að þá getur umræðunum loksins miðað eitthvað áfram í stað þess að við eigum í miklum og löngum umræðum um Íbúðalánasjóð, eins og síðasta vor þegar við sjálfstæðismenn höfðum í rauninni einir þá skoðun að ganga ætti langt í þá átt að breyta Íbúðalánasjóði. Menn voru tilbúnir að skoða málið og setja það kannski í nefnd en voru ekki með neinar yfirlýsingar um hvert þeir ætluðu sér með það.

Fulltrúi framsóknarmanna talaði á undan mér og ég vil rifja upp aðkomu framsóknarmanna að breytingum á Íbúðalánasjóði, aðkomu þeirra að því að 90% lánin voru tekin upp. Ég vil lýsa því yfir að við sjálfstæðismenn berum ábyrgð á því að hafa verið í ríkisstjórn með Framsóknarflokknum og heimilað þeim að láta það kosningaloforð sitt rætast. Ég sé mjög eftir því og við þekkjum afleiðingarnar sem það hafði á íslenskan húsnæðismarkað.

Ég vil því vara við því að menn fari aftur að trúa innihaldslausum loforðum framsóknarmanna. Það er enginn hörgull á slíkum loforðum rétt fyrir kosningar en í ljósi reynslunnar tel ég að við eigum að fara vel yfir þær hugmyndir þeirra og reyna að fá fram hvaða rök liggja að baki þeim vegna þess að mér heyrist sem afskaplega lítið liggi að baki.

Ég vonast svo sannarlega til að tækifærin verði nýtt á næsta kjörtímabili og ég veit að við Íslendingar getum átt blómlega framtíð ef við nýtum tækifæri okkar, byggjum á auðlindum okkar og byggjum upp sterkt atvinnulíf að nýju. Ég trúi því að hægt sé að breyta húsnæðislánakerfinu, ég trúi því að hægt verði að gefa fólki kost á því að taka lán sem hægt er að standa undir afborgunum af og ég tel að besta leiðin í því sé að gefa fólki val. Fólk þarf að hafa val til að velja sjálft þá leið sem það vill fara.

Á landsfundi Sjálfstæðisflokksins var mikið rætt um verðtrygginguna og auðvitað voru skiptar skoðanir á henni. Á undanförnum árum hefur umræðan um verðtrygginguna í fjölmiðlum og í ýmsum greinum verið um verðtrygginguna sem stærsta óvin íslensku þjóðarinnar, hún sé ömurleg og rekja megi allan okkar vanda til hennar, allan vanda íslenskra heimila. Ég er ekki sammála því. Ég elska ekki verðtrygginguna, mér finnst hún afskaplega leiðinleg en það er ekki verðtryggingunni um að kenna. [Hlátur í þingsal.] Það er ekki hægt að segja að skuldavandi heimilanna verði leystur með því að banna verðtrygginguna (Gripið fram í: Víst.) eins og framsóknarmenn halda fram. Hvernig á að banna verðtryggingu í framtíðinni? Hvernig ætla þeir að gera það? Þeir ætla að setja málið í nefnd. Það er allsherjarlausn Framsóknarflokksins á skuldavanda heimilanna og ég sé ekki ábata fyrir nokkurn mann í þeirri lausn. [Hlátur í þingsal.] Við höfum stofnað nefndir út og suður. Framsóknarflokkurinn leiddi eina slíka nefnd varðandi verðtrygginguna á þessu kjörtímabili og ég hef þrátt fyrir ítrekaðar umræður um verðtrygginguna í þessum stól ekki séð að sú vinna hafi skilað neinum gríðarlegum árangri. Verðtryggingin er enn við lýði.

Hins vegar er ég fylgjandi því að fólk hafi val. Við sjáum hvernig markaðurinn sjálfur hefur þróast á undanförnum árum. Fólk hefur farið meira yfir í að taka óverðtryggð lán, fólk hefur valið það. Nú er staðan hins vegar sú að fólk velur að blanda tvennu saman, taka hluta lánsins verðtryggt og hluta óverðtryggt. Það er þá þeirra val og ég hef alltaf verið á þeirri skoðun að við eigum ekki að vera með allsherjarforræðishyggju á þessu þingi. Við eigum að gefa fólki kost á vali.

Grundvallaratriðið er að ná tökum á efnahagsstjórninni þannig að verðbólgan verði ekki allsráðandi á landinu. Lausn Samfylkingarinnar er að ganga í Evrópusambandið og taka upp evru. Gott og vel, það er skýr leið og þeir segja hvernig á að gera það en ég vil ítreka að til að taka upp evru þurfum við að uppfylla Maastricht-skilyrðin. Það þarf að vera stöðugleiki í efnahagslífinu, við þurfum að ná tökum á verðbólgunni. Hver vill ekki uppfylla Maastricht-skilyrðin? Ég vil gera það en ég fullyrði að þegar við erum komin á þann tímapunkt að vera komin með það góð tök á efnahagslífi okkar að við uppfyllum öll skilyrðin mun fólk ekkert endilega vilja taka upp evru né ganga í Evrópusambandið eins og skoðanakannanir sýna nú í dag.

Það hefur ekki verið meiri hluti fyrir því í skoðanakönnunum að Íslendingar gangi í sambandið og þar af leiðandi er sú leið Samfylkingarinnar til að leysa skuldavanda heimilanna að ganga í Evrópusambandið og taka upp evru eftir 5–15 ár ekki heldur raunhæf leið. Við þurfum að gera þetta sjálf, það gerir það enginn annar fyrir okkur. Verkefnið verður auðvitað krefjandi. Við þurfum að vera hugrökk þegar við leysum verkefnið en það er hægt. Ég fagna því enn og aftur að við erum loksins komin með mál, þótt sumir mundu kannski segja að það væri smátt í sniðum, sem sýnir viðleitni í að koma til móts við skuldavanda heimilanna.