141. löggjafarþing — 104. fundur,  15. mars 2013.

tekjuskattur.

680. mál
[12:10]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er bara afskaplega hress og kát og ánægð með stöðu Sjálfstæðisflokksins nú sem oftast áður og hef enga minnimáttarkennd gagnvart hv. þingmanni þótt hún geri sig breiða í umræðunni.

En spurt er hver afstaða sjálfstæðismanna hafi verið til þeirra mála sem ríkisstjórnin hefur þó lagt fram til að reyna að leysa skuldavanda heimilanna. Við höfum reynt eftir fremsta megni að aðstoða við það að koma góðum málum í gegn. Við höfum reynt það varðandi úrræði til handa skuldsettum heimilum vegna þess að það var mikilvægt á þessu kjörtímabili að reyna að koma einhverjum málum hér í gegn. Við höfum staðið fyrir því, sérstaklega í velferðarnefnd, að vinna upp mál sem hafa meðal annars komið frá ráðherra, í einu tilviki frá grunni, og reynt að koma því þannig fyrir og hafa áhrif á að þær leiðir sem ríkisstjórnin hefur lagt fram verði aðeins betri, skili aðeins meiri árangri. Ég tel að við í stjórnarandstöðu skilum mestum árangri í þinginu með því að koma okkar marki á þau mál sem eru á réttri leið þótt maður sé ekki sammála hverju einasta atriði sem þar kemur fram. Það tel ég að sé mikilvægt.

Ég hef alltaf sagt það hér að varðandi skuldavanda heimilanna eigi allir flokkar að sjá sóma sinn í því að setjast saman yfir það stóra verkefni til að finna lausnina sem er skást út úr þeim vanda sem heimilin eru í. Það er farsælast fyrir okkur til að ná einhverjum árangri. Það er ekki farsælt fyrir íslenska þjóð að flokkarnir fari fyrir kosningar í óðakapphlaup um það hver sé með bestu skyndilausnina eins og Framsóknarflokkurinn er nú á fullu að gera.