141. löggjafarþing — 104. fundur,  15. mars 2013.

tekjuskattur.

680. mál
[12:15]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Til mín var beint mjög skýrum spurningum í ræðu hv. þingmanns og spurt hvers vegna þessi tímasetning, þ.e. tímabilið 1. janúar 2004 til loka árs 2008, hefði orðið fyrir valinu, þ.e. hvers vegna þetta er miðað við þá íbúðarkaupendur sem keyptu á þeim tíma. Það er vegna þess að þetta er um það bil sami hópur og 110%-leiðin náði til. Við erum að reyna að ná til þess hóps sem varð eftir í þeirri leið vegna þess að ákveðnir aðilar á lánamarkaði voru ekki tilbúnir að taka þátt í þessu.

Hvers vegna umsóknir um vaxtabætur? Það er til að tryggja að allir verði með. Þeir sem geta sýnt fram á að þeir séu með veð annars staðar vegna húsnæðiskaupa koma þannig inn í þetta. Það er þess vegna sem það var valið.

Hæstv. forseti. Hér hefur farið fram afar athyglisverð umræða um verðtrygginguna og framtíðina. Ég held að það sé mikilvægt að við séum einmitt að ræða hana í þessum þingsal. Eitt er úrlausn skuldavandans eins og hann er og annað er hvaða möguleika við ætlum að bjóða fólki upp á til framtíðar litið.

Mér sýnist þetta liggja svona varðandi verðtrygginguna sjálfa sem möguleika á lánamarkaði: Samfylkingin er með þá sýn að sýna hér styrka efnahagsstjórn sem heldur niðri verðbólgunni þangað til við getum tekið upp gjaldmiðil sem afmáir verðtrygginguna endanlega út úr íslensku hagkerfi. Framsóknarflokkurinn vill svipað ástand áfram nema bara banna verðtryggðu lánin, allt í lagi. Svo vill Sjálfstæðisflokkurinn nánast óbreytt ástand. Svona les ég þá umræðu sem hér hefur farið fram.