141. löggjafarþing — 104. fundur,  15. mars 2013.

tekjuskattur.

680. mál
[12:17]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Það vantaði að einni spurningu yrði svarað, sem varðaði hámarkið, þ.e. 500 milljónir sem gert er ráð fyrir að sé hámark á þessum greiðslum. Miða ég þá við þann hóp og þá tölu sem er lánsveð í milljörðum kr., sem sagt 9,3 milljarðar. Er það heildarpakkinn þannig að maður átti sig á því?

Varðandi verðtrygginguna og greiningu hæstv. ráðherra á stefnumálum flokkanna þá held ég að hún hafi verið tiltöluleg einföldun vegna þess að ég held að enginn flokkur hér á landi vilji óbreytt ástand í efnahagsmálum, hvað þá varðandi húsnæðiskerfið. Við höfum gengið lengst í því að segja að breyta þurfi húsnæðiskerfinu í þeirri umræðu sem við höfum tekið þátt í og startað varðandi breytingar á Íbúðalánasjóði. Það er gríðarlega mikilvægt af því að við sjáum í hvaða stöðu sjóðurinn er. Við höfum hins vegar þá stefnu að draga úr vægi verðtryggingar og minnka áhrif hennar en við viljum ekki stíga það skref að banna fólki að taka verðtryggð lán ef það er það sem fólk vill. Við höfum aldrei staðið fyrir því að auka mikið bönn á þessu sviði og teljum að það sé einfaldlega betra að fólk hafi val. Ég sé ekki annað en það sé besta leiðin. Til þess að koma til móts við það fólk sem hefur lent í miklum skuldavanda vegna þess hruns sem varð og efnahagsþrenginganna, sérstaklega þann hóp sem keypti á tímabilinu 1. nóvember 2004 til og með 31. nóvember 2009, er alveg ljóst að fara þarf í sérstök úrræði. Þess vegna er kjörorð okkar Í þágu heimilanna, sem vorum einnig með á landsfundinum, og þess vegna leggjum við áherslu á að koma til móts við þessi heimili í gegnum skattkerfið með því að veita skattafslátt sem kemur þá inn á höfuðstól þessara lána. Vonandi mun það skila sér eftir að við erum búin að taka við í ríkisstjórn þannig að fólk sjái verulegan mun á því hve mikið höfuðstóll lána þeirra hefur lækkað.