141. löggjafarþing — 104. fundur,  15. mars 2013.

tekjuskattur.

680. mál
[12:19]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi spurningu hv. þingmanns þá miðast 500 milljónirnar sérstaklega við það sem er fyrir ofan 110% þannig að þeir íbúðareigendur sem eru með lán sem eru yfir 110% fá sérstakar viðbótarvaxtabætur út á veðsetningu sem er þar fyrir ofan, þ.e. þessar 500 milljónir. Talað hefur verið um að sá hluti sem er til dæmis hjá lífeyrissjóðunum sé um 8 milljarðar þannig að ég held að þessi tala gæti verið nær lagi. Þarna sést að þetta er ágætishlutfall af þessum lánum, þ.e. 500 milljónirnar, og vonandi náum við að koma þeim öllum í réttar hendur.

Varðandi umræðuna um verðtrygginguna þá var þessi einföldun hjá mér vegna þess að ég var að tala sérstaklega um verðtrygginguna og umræðuna um hana og stefnu flokkanna hvað hana varðar. Við erum einfaldlega þeirrar skoðunar að óverðtryggð lán eigi að vera til á markaði en við í þessum þingsal þurfum að taka umræðu um það. Það er það sem Framsóknarflokkurinn er að boða til framtíðar, að það verði bara slík lán í boði. Þess vegna verður að taka þá umræðu út frá því hvað það þýði fyrir lántakendur. Ég hef nefnt það hér að við vitum hvernig gengislánin fóru með heimilin og við vitum hvernig verðtryggðu lánin fara með heimilin en við vitum ekki enn hvernig óverðtryggð lán munu þróast vegna þess að þá situr fólk uppi með hina breytilegu vexti, getur setið uppi með miklar sveiflur í afborgunum sem geta komið illa niður á heimilunum frá mánuði til mánaðar fyrir utan að menn munu eiga erfitt með að gera áætlanir fram í tímann með útgjöld sín og ráðstöfunartekjur. Mér finnst líka að Framsóknarflokkurinn skuldi okkur öllum það að svara því hvort þetta sé í alvörunni það eina sem verði í boði. Það er þess vegna sem ég dró upp þessa einföldu mynd hér.