141. löggjafarþing — 104. fundur,  15. mars 2013.

tekjuskattur.

680. mál
[13:31]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt, með síðari breytingum, þ.e. vaxtabætur vegna lánsveða. Ég ætlaði í upphafi ræðu minnar að beina nokkrum spurningum til hæstv. ráðherra sem væntanlega kemur hér fljótlega. Þær spurningar sem ég staldra við og hefði viljað fá svör við snerta í fyrsta lagi þær upphæðir sem hér um ræðir og eru settar inni í frumvarpinu, að einstaklingar geti ekki fengi hærri en 160 þús. kr. í svokallaðar lánsveðsbætur og hjón eða sambúðarfólk 280 þús. kr. Ef maður skilur hugsunina á bak við þetta rétt þá er þetta gert til að gefa fólki meiri möguleika að standa við sín lán þannig að ekki reyni á lánsveðið. Það er því eðlileg fyrsta spurning hvort það hafi verið skoðað að lánsveðsbæturnar færu inn á höfuðstól lánanna. Það er fyrsta spurningin sem kemur upp í hugann hjá mér.

Því til viðbótar kemur fram í athugasemdum við frumvarpið, í kaflanum um samráð og mat á áhrifum, setning sem mig langar að fá frekari útskýringar á en þar segir, með leyfi virðulegs forseta:

„Efni frumvarpsins gefur ekki tilefni til að ætla að tillögur þess stangist á við stjórnarskrá eða alþjóðlegar skuldbindingar.“

Þetta vekur mann til umhugsunar um hvað setningin þýðir í raun og veru og hvað liggur að baki henni. Lýst er því samráði sem hefur átt sér stað milli ráðuneytanna og ríkisskattstjóra, hvernig fara eigi með þessa hluti en maður staldrar aðeins við og spyr sig hvort þetta snerti lífeyrissjóðina eða eitthvert samkomulag við þá. Þriðja spurningin er þá hvort einhver annar en ríkissjóður beri kostnað af þessu frumvarpi. Það kemur ekki fram í frumvarpinu eða ég átta mig ekki á því í fljótu bragði. Samkvæmt frumvarpinu er eingöngu talað um að kostnaður verði um 330 millj. kr. en geti samt farið upp í 500 millj. kr. Þess er getið að erfitt sé að áætla kostnaðinn en fari upphæðin upp í 500 millj. kr. muni lánsveðsvaxtabætur skerðast hlutfallslega miðað við það, þ.e. upphæðin sem fellur á ríkissjóð verður aldrei hærri en 500 millj. kr. Það eru þessi þrjú atriði sem ég staldra við og vildi spyrja hæstv. ráðherra um. Öðrum spurningum sem ég var með um frumvarpið svaraði hæstv ráðherra í andsvörum fyrir matarhlé, fyrir þingfundarfrestun, þannig að ég þarf ekki að fara frekar yfir þær.

Ég tek hins vegar hvatningu hæstv. ráðherra um að koma og ræða af hreinskilni það sem hún benti á um verðtrygginguna, hvað það þýði ef menn fara í að banna verðtryggingu og banna verðtryggð lán og hvaða úrræði stæðu þá til boða ungu fólki sem væri að koma sér þaki yfir höfuðið og væri að hefja búskap. Ég vil segja að það er mikilvægt að þessi umræða fari fram og tek undir það með hæstv. ráðherra.

Það er líka ágætt að setja þetta í samhengi. Það er ekki flókið að banna verðtryggingu fram í tímann, þ.e. setja um það lög og frá og með þeim degi er verðtrygging bönnuð. Umræðan um að fara aftur í tímann og færa niður verðtryggð lán og hvernig menn ætla að leysa það er náttúrlega allt of yfirborðskennd því auðvitað þvælist fyrir ein lítil bók, eins og stundum hefur verið sagt, sem er sjálf stjórnarskráin. Það gengur ekki upp að ætla að færa verðtryggð lán niður aftur í tímann án þess að það þýði útgjöld úr ríkissjóði. Það er ekki flóknara en það í mínum huga.

Við sjáum það líka eins og hæstv. ráðherra benti á og ég er sammála henni um það að ef verðtryggð lán yrðu bönnuð væri mjög erfitt fyrir ungt fólk sem er að hefja búskap að fá lán nema við mundum breyta Íbúðalánasjóði og hlutverki hans samhliða þeirri framkvæmd. Það gefur augaleið og við sáum það í haust við fjárlagagerðina þegar ákveðið var að setja inn aukið fjármagn til sjóðsins að helsta vandamál Íbúðalánasjóðs er uppgreiðsla á lánum og sú sérstaka ákvörðun sem var tekin um að fara í skuldabréfaútboð til að fjármagna sjóðinn og geta svo ekki greitt þau upp ef lánin eru greidd upp. Íbúðalánasjóður er í raun og veru fullur af lausum peningum, það vantar ekki lausafé inn í hann heldur er vandamálið fyrst og fremst uppgreiðsla á lánum.

Við sáum auðvitað það sem gerðist þegar bankarnir komu núna aftur inn á íbúðalánamarkaðinn. Þeir fóru að bjóða óverðtryggð lán sem fólk tók á töluvert hagstæðum vöxtum vil ég segja miðað við markaðinn eins og hann er þótt þeir séu samt mjög háir. Þetta stóð þeim til boða sem höfðu sterka eignastöðu eða skulduðu lágt hlutfall í húsnæðinu. Það var það fólk sem fór út úr Íbúðalánasjóði, það tók lán í viðskiptabönkunum og greiddi síðan upp lán sín hjá Íbúðalánasjóði. Það var fyrst og fremst þetta fólk. Það kom berlega í ljós þegar maður sá samsetninguna á lánasafni Íbúðalánasjóðs. Það var búið að taka mjög mikið úr neðri þrepum sjóðsins þar sem lánshlutfallið var í lægri kantinum miðað við verðmæti eignarinnar og var mjög áberandi hjá þeim sem skulduðu tiltölulega minnst. Þeir sem voru í hámarkinu og yfir hámarkinu sátu eftir inni í Íbúðalánasjóði. Vandamál Íbúðalánasjóðs var í fyrsta lagi greiðslugeta þeirra sem voru mjög skuldsettir eða yfirskuldsettir og hins vegar þeir sem fóru út úr sjóðnum, greiddu upp lánin og fóru inn í bankana enda fengu menn hagstæðari kjör eftir því sem lánshlutfallið var betra og greiðslugeta viðkomandi einstaklinga sterkari. Það segir sig sjálft.

Það þarf að taka umræðuna á þessum grunni. Ég er alveg sammála hæstv. ráðherra um að ef verðtryggð lán væru bönnuð hefði ungt fólk sem ætlar að byrja að búa í dag ekki aðgang að lánsfé eins og staðan er núna. Það gæti ekki fengið hátt lán eða komið sér þaki yfir höfuðið nema með því að fá styrk eða lán frá fjölskyldunni eða einhverjum öðrum til að komast inn í þann farveg. Það segir sig sjálft að þetta fólk mundi einhvern veginn detta út af markaðnum.

Þessu til viðbótar verðum við að átta okkur á því að ekki er hægt að segja að leigumarkaðurinn eins og hann er núna sé virkur með eðlilegum hætti. Leiguverðið er mjög hátt og framboð er takmarkað og fólk getur heldur ekki tryggt sér húsnæði til langs tíma eins og gerist í mörgum öðrum löndum. Þessa umræðu verður að taka samhliða. Síðast en ekki síst er það svo, og þar er ég líka sammála hæstv. ráðherra og allir sem vilja kynna sér málin sjá það, að taki fólk óverðtryggt lán er það ekki varið fyrir kollsteypum, t.d. ef vextir rjúka upp kemur það strax inn í greiðslubyrðina. Það segir sig sjálft að af þessum sökum fær fólk minna lán, lægri lánsfjárupphæð og þarf að koma inn með meira af eigin fé í upphafi. Það eru kostir við það líka en þetta er hins vegar sá vandi sem blasir klárlega við í upphafi þegar menn skoða þetta.

Síðan vil ég líka segja að ég er algerlega ósammála hæstv. ráðherra um að við það að ganga í Evrópusambandið leysist bara allur vandinn. Það stenst enga skoðun og við þurfum ekki að vera með yfirborðskennda umræðu um það þegar hæstv. ráðherra kallar sjálf eftir því að við eigum að ræða hlutina og vera ekki á yfirborðinu. Ef við skoðum samhengið þá gerist það í þeim löndum í Evrópusambandinu þar sem erfiðleikarnir hafa verið, hvort sem það er Írland, Spánn, Portúgal eða önnur lönd, að íbúðaverð lækkar einfaldlega mjög mikið.

Ég var á fundi um daginn þar sem kona sem átti hús í Danmörku lýsti því hvað gerðist í efnahagsþrengingunum sem urðu náttúrlega alls staðar, bæði í Danmörku og á Íslandi og annars staðar, við vitum hvernig staða efnahagsmála er almennt. Hún átti húsnæði sem var metið á 1,2 millj. danskra króna og á því hvíldu 800 þús. kr. danskar. Þegar hún setti húsið á sölu var sett á það um 1.100 þús. kr. — ég á alltaf við danskar krónur. Hálfu ári seinna var búið að lækka verðmiðann á því niður fyrir 800 þús. kr. og lánið á húsinu var þar með orðið hærra. Hún sagði við þá sem þarna voru á fundinum að það væri mjög auðvelt fyrir þá að komast inn á þennan markað því að hún gæti selt þeim hús. Þetta er það sem gerist ef við værum í Evrópusambandinu og með evruna, við megum ekki líta fram hjá því. Hæstv. ráðherra getur ekki kallað eftir dýpri umræðu en oft vill verða ef hún ætlar að afgreiða málin svona.

Síðan verð ég líka aðeins að koma inn á verðtrygginguna og það sem menn hafa talað um lífeyrissjóðina í því sambandi. Það getur vel verið að sumir telji það eðlilega kröfu að lífeyrissjóðirnir taki á sig þann skell með því að færa niður lán og þar fram eftir götunum. Ég ætla ekki að fara djúpt í þá umræðu en bendi á að við verðum að taka inn í þá umræðu það sem blasir við, þ.e. að við erum bæði með opinbera sjóði og almenna sjóði. Ef það verða afskriftir hjá opinberu sjóðunum — gefum okkur bara einhverja tölu og segjum að lífeyrissjóðirnir tækju þátt í því að færa niður lán heimilanna um 10%. Þá gefur augaleið að það hefur engin áhrif á þá sem fá greiðslur úr lífeyrissjóðum opinberu sjóðanna af því að það er ríkisábyrgð á þeim. Það mun bara koma við þá sem eru í almennu sjóðunum. Það er augljóst að þannig getur þetta ekki virkað. Ef við ætlum að fara einhverjar svona leiðir, hvað sem manni finnst um þær, verða lífeyrissjóðirnir að sitja við sama borð vegna þess að annars fá þeir sem eru í almennu sjóðunum í fyrsta lagi á sig skerðinguna sem fylgir því að færa niður lánin og í öðru lagi þarf að hækka á þá skattana til að geta staðið undir ríkisábyrgðinni á opinberu sjóðunum. Þetta blasir við og fyrir utan það er óheimilt fyrir stjórnendur sjóðanna að taka þátt í þessu, það er algerlega óheimilt samkvæmt lögum. Við verðum því að ræða þessa hluti eins og þeir eru.

Ég hef reyndar mjög miklar áhyggjur af umhverfinu núna, það eru mörg óveðursský á himni eða dökk ský á himni, við skulum orða það þannig. Í upphaflegum spám var gert ráð fyrir að hagvöxturinn yrði 3,1% fyrir árið 2012 þegar áætlunin var endurskoðuð í haust fór hann niður í 2,5% og í greiningu kemur í ljós að hagvöxturinn er í raun og veru 1,6% eða jafnvel minni. Bráðabirgðatölur sýndu 1,6% og menn gerðu fyrirvara um að hann yrði jafnvel minni. Það er þetta umhverfi sem er fram undan. — Nú sé ég að hæstv. ráðherra er komin. Ég er mjög feginn því þannig að ég ætla þá að koma með þær spurningar sem ég ætlaði að spyrja hæstv. ráðherra um.

Önnur spurningin sneri að því hvort það hefði verið skoðað eða metið við samningu þessa frumvarps að setja lánsveðsvaxtabæturnar sem um ræðir, 160 þús. kr. hjá einstaklingum en 280 þús. hjá hjónum, inn á höfuðstól lánanna í staðinn fyrir að greiða þær út. Hin spurningin er hvort kostnaður falli á einhvern annan en ríkissjóð í þessu tilfelli, en gert er ráð fyrir að kostnaðurinn geti orðið um 330 millj. kr., en að hámarki 500 millj. kr. og þá koma til skerðingar. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra þessara tveggja spurninga og kalla eftir svörum við því hvort skoðað hafi verið að setja bæturnar inn á lánin og hvort einhver kostnaður falli á aðra en ríkissjóð. Ég spyr að því síðastnefnda vegna þess að í greinargerð kemur fram setning um að efni frumvarpsins gefi ekki tilefni til að ætla að tillögur þess stangist á við stjórnarskrá eða alþjóðlegar skuldbindingar.