141. löggjafarþing — 104. fundur,  15. mars 2013.

tekjuskattur.

680. mál
[13:47]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin sem eru mjög skýr, að ekki falli kostnaður á aðra en ríkissjóð. Síðan svaraði hæstv. ráðherra því að það hefði verið metið og skoðað við undirbúning málsins hvort æskilegt væri að setja þetta beint inn á höfuðstólinn en sú leið hefði ekki verið valin. Ég geri svo sem engar athugasemdir við það. Ég held að það væri mjög mikilvægt fyrir hv. efnahags- og viðskiptanefnd að skoða þetta vegna þess að ef ég á að reyna að skilja málið þá er það með þeim hætti að menn geta ekki losað fólk undan lánsveðum sem það er með annars staðar og þetta gerir kannski greiðslustöðu viðkomandi einstaklinga betri til að ekki reyni á lánsveðin, hvort sem þau eru hjá foreldrum eða vinum eða kunningjum eða hvernig sem það er. Ég held að mikilvægt væri fyrir hv. efnahags- og viðskiptanefnd að skoða þetta.

Ég er hins vegar sammála því sem hæstv. ráðherra segir að fólk er í greiðsluerfiðleikum og öðru og þess vegna þarf að skoða það samhliða. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir skýr svör.