141. löggjafarþing — 104. fundur,  15. mars 2013.

tekjuskattur.

680. mál
[13:55]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri Blöndal fyrir ræðuna. Ég hef rekist aðeins á það að undanförnu að hv. þingmaður virðist hafa töluverðar áhyggjur af því að kaupendur að húsnæði geti ekki fengið að taka nægilega mikið af lánum. En í máli þingmannsins kom hins vegar fram að hann hefði töluverðar áhyggjur af þessum hópi og því að menn skyldu almennt hafa fengið að kaupa húsnæði og taka lán án þess að hafa eigið fé og fengið þess í stað lánað veð.

Ég er með breytingartillögu við frumvarp um neytendalán þess efnis að fólk geti ekki komið með veð þegar það uppfyllir ekki lánshæfis- eða greiðslumat. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann taki undir þá breytingartillögu eða hvort hann telji ástæðu til að skilyrða breytinguna sérstaklega við fasteignalánin en maður ætti að geta komið með lánsveð þegar um er að ræða kaup á húsnæði. Í Bandaríkjunum hafa verið settar reglur sem taka einmitt á þessu sérstaklega til að tryggja að þeir sem á annað borð taka lán séu færir um að borga þau til baka og þá bæði afborganir og kostnaðinn við lánin, en ekki eins og lánafyrirkomulagið hefur verið hér á landi, hin svokölluðu Íslandslán, þar sem sífellt er verið að lána mönnum aftur og aftur fyrir kostnaðinum því að við virðumst gera okkur grein fyrir að fólk er ekki fært um að borga allan kostnaðinn. Er hv. þingmaður sammála þessu eða telur hann eðlilegt að fólk fái áfram lánsveð?

Síðan er annað. Ég hef líka lagt fram frumvarp um sérstaka skattaívilnun vegna húsnæðissparnaðar fyrir ungt fólk, þá bæði fyrir foreldra og börn, og síðan fyrir fólk upp að 36 ára aldri til þess að hvetja til þess að fólk eigi eitthvert eigið fé þegar kemur að því að kaupa húsnæði. Tekur þingmaðurinn undir það markmið líka?