141. löggjafarþing — 104. fundur,  15. mars 2013.

tekjuskattur.

680. mál
[14:04]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður beindi til mín ákveðnum spurningum sem ég ætla að reyna að svara. Í fyrsta lagi hvers vegna tímabilið er 1. janúar 2004 til loka árs 2008. Það er vegna þess að það er um það bil tímabilið sem var miðað við hvað varðar 110%-leiðina. Með verkefninu erum við að reyna að bæta þeim upp skaðann sem hafa ekki geta farið í gegnum 10%-leiðina, sérstaklega þeim sem eru með lánsfé hjá lífeyrissjóðunum. Það er í raun og veru ekki flókið, við eigum lítinn tíma eftir í þinginu en málið er tiltölulega einfalt. Við erum með almennt vaxtabótakerfi sem sá hópur fellur undir. Öll þeirra lán sem sannarlega eru til íbúðakaupa falla þar undir, líka lánsveðin og þetta kemur algerlega til viðbótar við þann hluta sem fer yfir 110% Það er verið að reyna að koma til móts við hópinn og horft nokkuð þröngt á þetta. Eins og hv. þingmaður nefndi eru 9,3 milljarðar undir, það er það sem fer þarna í þeim lánsveðum og 500 milljónir er nokkuð stórt hlutfall af því sem vaxtabótastuðningur þannig að við göngum býsna langt. Á meðan erum við í áframhaldandi viðræðum við lífeyrissjóðina um hvernig við getum fært þann höfuðstól niður þannig að þeir aðilar og lántakendur sitji við sama borð og aðrir sem hafa getað farið í gegnum 110%-leiðina. Við höfum ekki gefist upp í því efni og ég ætla að leyfa mér að vera vongóð um að sú barátta muni skila einhverju á endanum.