141. löggjafarþing — 104. fundur,  15. mars 2013.

tekjuskattur.

680. mál
[14:10]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður kallar lausnina eitthvert grín. Mér finnast 500 milljónir til viðbótar við það sem fólk fær í almennar vaxtabætur ekki vera neitt grín. Okkur er fúlasta alvara með því að bæta upp fyrir árið 2012, um það snýst verkefnið. Það snýst um að koma inn og veita stuðning vegna þess að fólkið hefur verið með þyngri greiðslubyrði en þeir sem komust í gegnum 110%-leiðina á árinu 2012. Unnið er að því áfram að koma þeim málum í varanlega höfn. Okkur fannst ómögulegt, og hv. þingmaður getur talað það niður alveg eins og hún vill, að ganga frá þessu þingi án þess að nota það svigrúm sem við vitum að skapast í vaxtabótunum til að koma sérstaklega til móts við þennan hóp. Það getur vel verið að hv. þingmaður leggi það til í nefndinni að menn bara sleppi þessu gríni en ég ætla ekki að gera það vegna þess að það liggur full alvara að baki viljanum til að gera allt sem við getum til að mæta hópnum og það mun svo sannarlega muna um þetta.

Ég heiti því líka að halda áfram að berjast fyrir því að hópurinn fái varanlega lausn en á meðan það hefur ekki tekist ætla ég að grípa öll tækifæri sem ég get fundið til að mæta honum og þeim erfiðleikum sem hópurinn er í vegna þess að hann hefur ekki getað nýtt sér sömu úrræði og aðrir. Þetta er tækifæri sem við eigum ekki að láta okkur úr greipum ganga. Við skulum passa okkur á því. Ég vona að hv. þingmaður hafi með upptalningu sinni ekki verið að lýsa því hvernig hún ætli að leggjast gegn málinu í nefnd.