141. löggjafarþing — 104. fundur,  15. mars 2013.

tekjuskattur.

680. mál
[14:13]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ekkert liggur að baki. Það eru 500 millj. kr. að baki. Það sem fer fram yfir 110% í lánsveðshópnum hjá lífeyrissjóðunum eru 8 milljarðar. Þetta eru 500 milljónir til að koma til móts við þær fjárhæðir sem sá hópur greiðir af umfram aðra hópa sem hafa getað komist í gegnum 110%-leiðina. Það mun muna um það hjá hópnum. Hv. þingmaður má vera eins stúrinn yfir því og hún vill en kjörtímabilinu er ekki lokið og þessi ríkisstjórn heldur áfram að vinna fyrir fólkið í landinu óháð því hversu langt er til kosninga. Við leggjum ekki niður okkar störf af því að það eru að koma kosningar og sinnum einhverjum leiðindamálum. Við höldum áfram að vinna fyrir fólk og þegar við sjáum að á þessu ári mun skapast svigrúm í vaxtabótaliðnum á fjárlögum grípum við tækifærið til að mæta þeim hópi sem hefur setið eftir. Við erum að gera það hér og fúlasta alvara býr að baki alveg eins og fúlasta alvara býr að baki þeim viðræðum sem við erum í við lífeyrissjóðina um að leysa vandann varanlega.

Hv. þingmaður á ekki að gera lítið úr því sem menn eru að reyna að gera vel og það fyrir hóp sem sannarlega hefur setið eftir og allir viðurkenna að hefur setið eftir. Það býr fúlasta alvara að baki og við höldum áfram eins og vitlaus séum fram að kosningum við að reyna að finna út úr því hvernig við getum leyst þennan hnút varanlega og vonandi mun það takast í tíma. Ef ekki munum við styðja alla viðleitni nýrrar ríkisstjórnar til að ljúka málinu.