141. löggjafarþing — 104. fundur,  15. mars 2013.

tekjuskattur.

680. mál
[14:15]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég trúi því að hæstv. ráðherra meini það sem hún segir, að hún hafi gjarnan viljað gera meira og ætli sér að reyna að standa við þetta en það er óskaplega lítið og ráðherra hlýtur að geta viðurkennt það sjálf. Þetta er engin úrlausn fyrir þennan hóp.

Það verður líka að segjast að maður veltir fyrir sér hvað þeir sem sátu í stól fjármálaráðherra á undan hæstv. ráðherra voru að gera allan þennan tíma. Af hverju kom þessi tillaga ekki inn í fjárlögum? Ráðherra segist hafa fundið svigrúm núna í vaxtabótakerfinu en hvað með alla hina liðina sem eru komnir langt fram úr eða tekjuáætlun sem hefur ekki staðist? Þau viðbrögð sem ég hef séð hjá landsveðshópnum eru nákvæmlega að þetta er engin lausn og menn notuðu orðið grín. Ég vona svo sannarlega að ráðherra ætli sér að standa við það sem hún sagði hér í pontu ef hún hefur tækifæri til, að gera eitthvað varanlegt til að leysa úr vanda þessa hóps, gera eitthvað varanlegt til að leiðrétta skuldir heimilanna.