141. löggjafarþing — 104. fundur,  15. mars 2013.

tekjuskattur.

680. mál
[14:16]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla aðeins að koma inn í þessa umræðu, ég get ekki sleppt því tækifæri sem býðst. Það er alveg með ólíkindum hvernig þessi umræða hefur þróast. Ég held að við þurfum að ræða um hlutina eins og þeir eru.

Ég get tekið undir það með hv. þm. Eygló Harðardóttur að eflaust hefði mátt gera margt betur til að koma til móts við skuldavanda heimilanna þótt ekki væri nema að taka allar þær tillögur sem liggja fyrir frá stjórnarandstöðunni á dagskrá og ræða þær. Ég get verið sammála því. En ég get ekki tekið þátt í því lýðskrumi sem mér finnst vera þegar menn halda því fram að það sé mjög einfalt að semja við lífeyrissjóðina um lánsveðin. Ég get einfaldlega ekki tekið þátt í því lýðskrumi. Það er ekkert annað en lýðskrum.

Hver er staða viðkomandi hæstv. ráðherra þegar semja á við lífeyrissjóðina? Lífeyrissjóðirnir hafa stjórnarskrárvarinn rétt gagnvart lánsveðum. Stjórnir lífeyrissjóðanna mega ekki gefa neitt eftir af því sem snýr að lánsveðunum. Það liggur alveg klárt fyrir.

Ég fór örstutt yfir í ræðu minni hér áðan það umhverfi sem við erum með lífeyrissjóðina í. Við erum annars vegar með almenna sjóði og hins vegar opinbera sjóði. Ef opinberu sjóðirnir mundu taka þátt í því að gefa eftir eignir sem þeir sannarlega eiga, þ.e. lánsveð í íbúð til að mynda foreldra eða ættingja einstaklings eða hjóna sem lenda í greiðsluerfiðleikum — eins og hv. þm. Pétur Blöndal benti á hér áðan þá var þetta ákveðin hjáleið sem var í raun farin til að viðkomandi hefði eigið fé til að kaupa íbúð, það eru staðreyndir málsins — hvað þýddi það? Það þýddi að lífeyrissjóðirnir gæfu eftir eignir sem þeir mega ekki samkvæmt lögum. Segjum sem svo að lögunum yrði breytt í samkomulagi við lífeyrissjóðina — það er hægt að breyta lögunum — og lífeyrissjóðirnir gæfu eftir eignir eða kröfur sem þeir eiga. Þá gerðist hið augljósa og það verðum við að taka inn í þessa umræðu. Þeir sem fá greitt úr opinberu sjóðunum fengju ekki skerðingar vegna þess að þar er ríkishjálpin. Í raun og veru, þegar sú ákvörðun yrði tekin að opinberu sjóðirnir gæfu eftir eignir sem þeir eiga eða geta sótt í, þá kæmi það niður á ríkissjóði. Það er ekki flóknara en svo. Það þarf ekkert að ræða um þetta öðruvísi en það er. Síðan ef við tökum almennu sjóðina og þeir færu sömu vegferð þá mundu þeir skerða lífeyrisréttindi félagsmanna sinna, ekki bara það heldur þyrfti líka að hækka skatta á alla, þar á meðal þá sem fengju greitt úr almennu sjóðunum, til að standa undir greiðslu ríkissjóðs til að bæta opinberu sjóðunum eftirgjöfina. Þetta er ekki flóknara en svo.

Ég get tekið undir það sem hv. þm. Eygló Harðardóttir segir um að margt hefði mátt gera mun betur við skuldavanda heimilanna þótt ekki væri nema taka þær tillögur sem hafa komið fram frá þingflokki Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks og þingmönnum Hreyfingarinnar og setja þær á dagskrá og ræða þær. En það er ekki hægt að taka þátt í þessari vitleysisumræðu um að færa niður eignir lífeyrissjóðanna meðan kerfið er með ríkisábyrgð. Ég treysti mér því miður ekki til þess og verð því að gera athugasemd við þennan málflutning. Hversu mikið sem mig langar að berja á hæstv. fjármálaráðherra þá geri ég ekki kröfu til hennar um að gera það sem er ekki framkvæmanlegt. Þetta er ekki framkvæmanlegt. Við verðum og við eigum að taka umræðuna aðeins lengra en þetta.

Því til áréttingar væri ágætt fyrir hv. þingmenn sem halda slíkri vitleysu fram að átta sig á því að nú eru skuldbindingar ríkissjóðs vegna B-deildarinnar í kringum 400 milljarðar, þ.e. áfallnar skuldbindingar sem á eftir að fjármagna. Í A-deildinni eru þær komnar upp undir 100 milljarða. Þetta er veruleikinn. Ef gerð er krafa um það af hálfu þingmanna að opinberu sjóðirnir gefi eftir kröfur þá eykst bara bilið sem þarna er. Það er ekki flókið, virðulegi forseti. Umræðan verður að vera á einhverjum öðrum nótum ef við ætlum að ræða hlutina af einhverju viti en ekki yfirborðsmennsku.