141. löggjafarþing — 104. fundur,  15. mars 2013.

hlutafélög o.fl.

677. mál
[14:31]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Svo lengi sem ég man hafa menn verið að glíma við kennitöluflakk og þau vandamál sem því fylgja þegar menn láta sig hverfa frá skuldum, sérstaklega opinberum skuldum sem myndast sjálfkrafa með virðisaukaskatti og afdráttarskatti af launum, stofna ný fyrirtæki og svo koll af kolli.

Vandamálið er alltaf það sama. Þegar menn stofna hlutafélag þá er ákveðin áhætta í því fólgin og það er talið gott ef tvö af hverjum tíu hlutafélögum ganga eftir 3–4 ár. Tvö kannski lulla svona í kringum núllið í rekstri, tvö ganga vel og sex eru þá orðin gjaldþrota. Þetta er bara eðli rekstursins. Menn þekkja þetta í útgerð og í laxeldi og bara hvar sem er. Þetta eru eðlileg gjaldþrot, náttúruleg gjaldþrot. Þau eru ekkert ætluð, menn ætluðu að fara í laxeldi, svo kom laxinn ekki eða eitthvað slíkt. Það eru einhverjar forsendur sem bresta, kannski of mikil samkeppni eða eitthvað slíkt. Vandinn er að greina á milli þessara góðu gjaldþrota og slæmu gjaldþrota. Það er dálítill vandi en ég held að vaxandi vilji sé til að koma með svona frumvarp og þess vegna þakka ég hæstv. ráðherra fyrir að koma með það. Það er því miður allt of seint fram komið. Ekki verður nægilegur tími til að fjalla um það með vitrænum hætti í nefndinni en það er ekki flókið, margt í því er gott. Hækkun á hlutafé er kannski eðlileg með hliðsjón af verðbólgu og af því að menn eru alltaf að tala um verðtryggingu þessa dagana þá er það verðtrygging á þessum tölum.

Mér finnst vanta inn í umræðuna í frumvarpinu að við erum með ákveðið gjald sem sýnir hvort lífsmark sé með hlutafélaginu en það er útvarpsgjaldið. Á hverju ári þurfa hlutafélög að borga 18 þús. kr. í útvarpsgjald. Það er dálítið merkilegt af því að þau hlusta ekkert á útvarp eða horfa á sjónvarp en þetta þýðir að þau þurfa þó alla vega að skila þessu gjaldi og lenda þá í innheimtu og annað slíkt ef þau gera það ekki. Ef þau geta ekki borgað það í dálítinn tíma þá verða þau gjaldþrota, þannig að þetta gjald vinsar úr þau fyrirtæki sem eru lifandi.

Það sem ég mundi gjarnan vilja er að gera það einfaldara að loka fyrirtækjunum, hægt sé að skrá fyrirtæki og síðan afskrá það. Ef einhver eign er þá skiptist hún milli hluthafanna, það er yfirleitt ekki heldur einhver skuld og þá tapast hún. Mér líst ekki á 5. gr. og held að menn þurfi að gera sér grein fyrir hvað það þýðir að vera í stjórn hlutafélags. Mundi einhver fást til að vera í stjórn hlutafélags þegar fer að ganga illa? Þá fæst enginn maður og þá er hlutafélagið stjórnlaust, fyrir utan að menn geta sagt sig úr stjórn með einu bréfi til hlutafélagaskrár og þar með eru þeir ekki lengur í stjórn. Ég hef spurt að því hvað gerist með fyrirtæki þar sem enginn er í stjórn. Hvert snúa menn sér, við hvern tala menn? Ég held að menn þurfi að ræða þetta mikið betur og koma heldur inn á þá leið að gera ferlið við að láta fyrirtækin hverfa einfalt. Að þegar hlutafélag hefur ekki skilað ársreikningi á ákveðnum tíma, þegar eigið fé er komið undir núll, þegar engin stjórn er og annað slíkt þá sé bara hægt að þurrka það fyrirtæki út og þá er það ekki lengur til.

Ýmislegt fleira þarf að gera. Þetta held ég að lagi ekki endilega kennitöluflakkið. Menn munu eftir sem áður leika þann leik. Það verður erfiðara því þeir þurfa að skila ársreikningum reglulega þannig að veltan þarf að vera harðari, menn þurfa að vera fljótari að skipta. Ég held þó að þetta sé mjög til bóta og sé krafa markaðarins. Hlutafélag er félag með takmarkaðri ábyrgð og þeir sem vinna á markaðnum með takmarkaða ábyrgð verða að hlíta ákveðnum reglum. Hluti af því er að gefa út ársreikning sem sýnir öðrum, birgjum, nýjum hluthöfum, kaupendum og öðrum sem versla við fyrirtækið, hver staða fyrirtækisins er þannig að þeir viti að þeir séu að eiga við fyrirtæki sem er með sæmilegt eigið fé og sæmilegan hagnað og menn geti treyst, þannig séð. En ég bendi aftur á þetta vandamál með góðu og slæmu gjaldþrotin.