141. löggjafarþing — 104. fundur,  15. mars 2013.

afgreiðsla mála á dagskrá.

[14:48]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Það er óhjákvæmilegt að forseti svari spurningu hv. þm. Ragnheiðar Ríkharðsdóttur varðandi dagskrána. Það var samkomulag um það milli stjórnmálaflokkanna hvernig dagskránni skyldi háttað í dag alveg fram til kl. 4 og þannig að við í Sjálfstæðisflokknum höfum skipulagt okkur og unnið út frá því. Þess vegna kom það á óvart að sjá til að mynda opinbera háskóla allt í einu dúkka hér upp. Ég efa það ekki að hæstv. forseti hafi skýringar á því en það er mikilvægt að fá þær fram. Ég vonast til þess að þær séu eðlilegar.

En það er mikilvægt núna á síðustu dögum þingsins, og það eiga allir að vita, að við getum treyst því sem fyrir okkur er lagt áður en við slítum þinginu og förum út í vorið og kosningabaráttuna, að það plan sem lagt er upp með á morgnana haldi þó að við vitum ósköp vel að slík plön séu kannski gerð frá klukkustund til klukkustundar eins og það sem við höfum fyrir okkur núna, (Forseti hringir.) það gildir til kl. 4 og þá skipuleggjum við okkur í samræmi við það.